[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frjálsíþróttakonan Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir úr ÍR bætti Íslandsmet sitt í lóðakasti um helgina í annað skiptið á einni viku. Guðrún kastaði lóðunum 21,87 metra og bætti vikugamalt met sitt um einn og hálfan metra

Frjálsíþróttakonan Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir úr ÍR bætti Íslandsmet sitt í lóðakasti um helgina í annað skiptið á einni viku. Guðrún kastaði lóðunum 21,87 metra og bætti vikugamalt met sitt um einn og hálfan metra. Er nýja metið einnig skólamet hjá VCU-háskólanum.

Enska knattspyrnufélagið West Ham United leiðir kapphlaupið um íslenska sóknarmanninn Albert Guðmundsson, leikmann Genoa á Ítalíu. Daily Mirror greinir frá því að Genoa vilji ekki missa Albert frá sér í janúarglugganum og vilji að minnsta kosti 21 milljón punda fyrir hann, sem jafngildir rúmlega 3,6 milljörðum íslenskra króna.

Norska knattspyrnufélagið Kristiansund hefur hafnað tilboði sænska félagsins Kalmar í Brynjólf Willumsson, samkvæmt TuttoSvenskan í Svíþjóð. Brynjólfur, sem er 23 ára sóknarmaður, hefur leikið með Kristiansund í tvö ár en liðið vann sig á ný upp í úrvalsdeildina fyrir komandi tímabil.

Inter Mílanó vann Napoli, 1:0, í úrslitaleiknum um ítalska meistarabikarinn í knattspyrnu en leikið var í Riyadh í Sádi-Arabíu í fyrrakvöld. Lautaro Martínez, markahæsti leikmaður ítölsku A-deildarinnar, skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins.

Kolbrún María Ármannsdóttir, bráðefnilegur leikmaður Stjörnunnar í körfuknattleik, hefur skrifað undir nýjan samning við félagið. Nýi samningurinn gildir til sumarsins 2026. Kolbrún María er einungis 16 ára gömul en er þrátt fyrir ungan aldur í lykilhlutverki hjá nýliðum Stjörnunnar.

Mamadou Diaw, 23 ára senegalskur knattspyrnumaður, er kominn til liðs við Keflvíkinga sem féllu úr Bestu deildinni í haust. Hann er kantmaður og hefur leikið í Noregi undanfarin ár, síðast með Sandnes Ulf en áður með Bryne og Aalesund. Þar lék hann 11 leiki í úrvalsdeildinni og 50 í B-deildinni.

Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona í fótbolta, er í liði 13. umferðar ítölsku A-deildarinnar. Miðjukonan, sem leikur með Fiorentina, skoraði glæsilegt fyrsta mark liðsins í 3:1-heimasigri á Pomigliano á sunnudag. Hún hefur byrjað vel á nýju ári, því hún skoraði einnig í 4:2-útisigri á Napólí 13. janúar og er því með tvö mörk í tveimur leikjum á árinu 2024.