Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Áfallasaga kvenna var skipulögð sem langtímarannsókn alveg frá upphafi,“ segir Unnur A. Valdimarsdóttir, prófessor og annar aðalrannsakenda vísindarannsóknar um áfallasögur kvenna. Hún segir þátttakendur í rannsókninni árin 2018-2019 hafa gefið heimild til að haft yrði samband við þá aftur í eftirfylgdarrannsókn, til að dýpka upplýsingarnar.
„Það sem er mikilvægt í svona rannsóknum er að ná framsýnum gögnum og geta skoðað heilsufar til lengri tíma. Við erum að skoða ýmis einkenni sem við höfum ekki skoðað áður, eins og áhrif áfalla á tíðahvörf og þætti eins og aukna þörf fyrir heilbrigðisþjónustu og hvernig aðstoð í kjölfar áfalla skilar sér í heilsufari til lengri tíma litið.“
Rúmlega 30% íslenskra kvenna á aldrinum 18-69 ára tóku þátt í fyrri rannsókninni sem hefur vakið mikla athygli um allan heim. Niðurstöður hennar voru að áföll í æsku og áreitni og ofbeldi gagnvart ungum konum hefur mikil áhrif á andlega og líkamlega heilsu á fullorðinsárum. Rannsóknin staðfesti einnig tíðni ýmissa áfalla, þ. á m. ofbeldis, meðal íslenskra kvenna, en um 40% kvennanna höfðu orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni.
Unnur segir að í fyrri rannsókninni hafi það komið í ljós að það sé sérstaklega há tíðni áfalla og ofbeldis sem beinist gegn ungum konum. „Við erum núna að skoða líka hvaða áhrif það hefur á námsframvindu og þátttöku þessara kvenna í atvinnulífinu síðar meir. Þetta er bæði gífurlegur kostnaður fyrir einstaklinginn og einnig fyrir samfélagið.“