Ég fæ mikið út úr því að koma hlutum í framkvæmd, það drífur mig áfram að keyra verkefni og klára. Ég brenn líka fyrir því að læra nýja hluti, gera eitthvað nýtt og vinna að fjölbreyttum verkefnum. Síðan þykir mér nauðsynlegt að umkringja mig með flottu teymi og vinna með skemmtilegu fólki, leyfa sér að hafa gaman af þessu,“ segir Sigrún Kristjánsdóttir, sviðsstjóri þróunar og reksturs hjá KPMG á Íslandi.
Sigrún er verkfræðingur að mennt, auk þess að hafa klárað MBA nám í Oxford Brookes-háskólanum, og hefur unnið í tvö og hálft ár í núverandi starfi hjá KPMG. Áður starfaði hún hjá Origo í þrettán ár. „Þar var ég stjórnandi á fjármálasviðinu í hinum ýmsu störfum. Ég var fyrst beðin um að vera forstöðumaður yfir hagdeild og fór svo þaðan út í meira fjármálatengd verkefni,“ segir hún.
Eitt stærsta sjálfbærniteymi landsins
KPMG á Íslandi er einkahlutafélag sem er að fullu í eigu 37 hluthafa sem allir eru starfsfólk félagsins. Markmið þess er að veita þjónustu og ráðgjöf á sviði endurskoðunar,
reikningsskila, bókhalds, skattskila og viðskiptaráðgjafar með það að sjónarmiði að vera sá trausti samstarfsaðili sem viðskiptavinir geta leitað til varðandi áskoranir í sínum rekstri. Sigrún segir grunnmarkmið félagsins vera að veita framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina.
„Við erum með skýra stefnu og vaxtarmarkmið í stefnunni og til þess að ná henni þurfum við að vera eftirsóknarverður vinnustaður. Fólkið okkar er lykilatriði í öllu sem við gerum og við höfum verið að leggja áherslu á að vinna meira saman á milli sviða, því við erum með mjög mikið af sérfræðifólki á mismunandi sviðum með ólíka fagþekkingu sem við viljum nýta sem best. Einnig leggjum við áherslu á að leggja okkar af mörkum til samfélagsins. Þetta er svona það helsta sem við erum að vinna að í stefnunni okkar,“ segir Sigrún.
„Í vinnunni minni er það fólkið sem skiptir öllu máli. Ég hef greiðan aðgang í mínu starfi að alls konar sérfræðingum til að hjálpa til í rekstri félagsins almennt. Ég er með fagfólk sem er að aðstoða önnur félög, í stefnumótun, kaupum og sölu fyrirtækja, endurskoðun, lögfræðimálum ofl. Það er mjög heppilegt fyrir mig sem stjórnanda að hafa aðgang að svona miklu fagfólki með alla þessa sérþekkingu.
Við erum með eitt stærsta sjálfbærniteymi landsins hjá KPMG sem er að vinna með
öðrum fyrirtækjum að sjálfbærnimálum. Teymið er einnig að vinna með okkur innanhús að því hvernig við getum hagað okkar eigin sjálfbærnimálum sem best til að hámarka þau góðu áhrif sem við getum haft inn í samfélagið.“
Sextán starfsstöðvar um allt land
Hjá KPMG starfa um 320 manns á Íslandi og yfir 270 þúsund manns á heimsvísu í yfir 143 löndum. „Það kemur auðvitað ákveðin stefna frá KPMG Global og svo er hvert aðildarland með sína stefnu sem þarf að byggja á heildarstefnu KPMG Global,“ segir Sigrún.
„Við vinnum klárlega eftir því en þar eru mörg sömu gildi, að viðskiptavinurinn sé í
forgrunni og mikil áhersla á sjálfbærni og gott starfsfólk. Okkar stefna hjá KPMG á Íslandi rímar því mjög vel við heildarstefnuna. Við vinnum mest með Nordic KPMG löndunum og það er virkilega gott að hafa góðan aðgang að svona stóru tengslaneti, þannig að það er frábært að vera í alþjóðlegu félagi.“
Sigrún segir félagið hafa vaxið hratt á undanförnum árum og vantar ekki flóruna af spennandi verkefnum. Þegar hún er spurð hvaða verkefni hafa sérstaklega staðið upp úr í tengslum við árið og hina komandi tíma segist hún hafa verið á fullu í húsnæðismálum og tilheyrandi breytingum innan fyrirtækisins. „Eitt verkefni sem ég er búin að vera að leiða er að breyta húsnæðinu okkar í Borgartúninu sem við kláruðum núna á árinu. Við erum með sextán starfsstöðvar um allt land og erum núna að fara út á þær starfsstöðvar og breyta þeim í takt við það sem við höfum verið að gera hérna á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sigrún.
„Við höfum líka verið í alls konar vöru- og lausnaþróun, að þróa nýja hluti sem við getum vonandi farið að bjóða viðskiptavinum upp á nú á þessu ári. Það er margt mjög spennandi í gangi þar.“