Björg Bjarnadóttir fæddist 7. júlí 1932 í Reykjavík. Hún lést á Landspítalanum 8. janúar 2024.
Foreldrar Bjargar voru hjónin Torfhildur Ingveldur Jörgína Dalhoffsdóttir, f. 18. júlí 1895 í Ólafsvík, d. 31. ágúst 1961, og Bjarni Björnsson, leikari og gamanvísnasöngvari, f. 5. maí 1890 í Álftártungu á Mýrum, d. 26. febrúar 1942. Björg átti eina alsystur, Katrínu Theódóru Dalhoff Bjarnadóttur, og eina hálfsystur, sammæðra, Ruth Lund Jensen.
Björg giftist 6. október 1956 Álfþóri B. Jóhannssyni, f. 12. janúar 1933. Hann var lengst af bæjarritari á Seltjarnarnesi. Foreldrar hans voru Þóra A. Jónsdóttir frá Kirkjubæ í Norðurárdal, f. 23. ágúst 1895, og Jóhann Fr. Guðmundsson, f. 14. janúar 1899 í Fljótum, þau létust af slysförum 23. október 1966.
Börn Bjargar og Álfþórs eru: 1) Álfhildur, f. 1956. 2) Bjarni Torfi, f. 1960, maki Erla Lárusdóttir, f. 1963. Börn þeirra: a) Björg, f. 1986, maki Rasmus Chor Møller, þau eiga tvo syni, b) Lárus Brynjar, f. 1987, c) Kristjana Konný, f. 1989, maki Mads Helmer Skaaning, þau eiga tvö börn, d) Bjarni Kristinn, f. 1996, sambýliskona Margrét Hjörleifsdóttir. 3) Þóra Björg, f. 1962, maki Kjartan Felixson, f. 1961. Dóttir Þóru: a) Þórhildur Reinharðsdóttir, f. 1981, maki Kári Snær Guðmundsson, þau eiga tvö börn; dætur Þóru og Kjartans: b) stúlka, f. og d. 1988, c) Karen, f. 1989, d) Berglind, f. 1992, sambýlismaður Grímur Orri Úlfarsson, e) Silja Björg, f. 1993, sambýlismaður Atli Gunnar Sigurðsson, þau eiga eina dóttur, f) Kolbrún Sara, f. 1999, sambýlismaður Atli Björn Karlsson. 4) Bergur Brynjar, f. 1964, maki Svanborg Svansdóttir, f. 1962. Börn þeirra: a) Hera Ágústs, f. 1980, maki Kjartan Ingi Jónsson, þau eiga fjögur börn, b) Alex Álfþór, f. 1990, c) Hekla Eir, f. 1994, maki Óli Björn Pétursson, þau eiga tvö börn, d) Nökkvi Freyr Hvítaness, f. 1999, sambýliskona Sara Jovisic. 5) Jóhann Frímann, f. 1968. Börn hans: a) Brynja Björg, f. 1985, maki Skúli Ásgeirsson, þau eiga tvær dætur, b) Aðalbjörn Unnar, f. 1998, sambýliskona Steffi Meisl, c) Ísak Rúnar, f. 2003.
Björg ólst upp í Reykjavík og gekk í Austurbæjarskóla. Að loknu gagnfræðaprófi hóf hún störf hjá Tóbakseinkasölu ríkisins og starfaði þar í um tíu ár.
Björg lærði á fiðlu og píanó og var í ballettnámi. Hún dansaði í fjölmörgum sýningum á vegum Bláu stjörnunnar, í revíum í Austurbæjarbíói og sýningum í Þjóðleikhúsinu, m.a. þeirri fyrstu, Nýársnóttinni. Þá samdi hún dansa og setti upp sýningar. Hún kenndi ballett í nokkur ár og setti á fót ballettskóla ásamt fleirum. Þegar hún hætti ballettkennslu settist hún við píanóið og lék undir í balletttímum. Hún var píanóleikari hjá Þjóðdansafélagi Reykjavíkur, í ballettskóla Eddu Scheving og í Ballettskóla Þjóðleikhússins, síðar Listdansskóla Íslands, þar til hún lét af störfum sjötug að aldri. Auk tónlistar og listdans var ættfræði Björgu mjög hugleikin.
Útför Bjargar verður gerð frá Seltjarnarneskirkju í dag, 24. janúar 2024, klukkan 14.
„Sæl stjarna.“
Svona var mömmu gjarnan heilsað af góðri vinkonu sinni með vísan til þess að mamma hafði, ásamt fleirum, verið ein af helstu stjörnum í íslenskum ballettheimi á sínum yngri árum. Nú er mamma farin, en eftir standa mér ljóslifandi ótal margar góðar minningar um konu sem var minn helsti stuðningsmaður í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur. Konu sem alltaf stóð með mér í öllum mínum verkum, konu sem alltaf hló að öllum fimmaurabröndurunum mínum, konu sem sagðist ekki hafa séð neinn mér fremri í fót-, hand- og körfubolta, golfi, bridge eða skák. Já, mamma mín var nokkuð viss um ágæti síns fólks.
Mamma erfði létta lund og gamansemi pabba síns, en hún hafði endalaust gaman af því að heyra og fara með gamanmál og ef tækifæri gafst kryddaði hún sína útgáfu gjarnan aðeins líka. Hún hafði gaman af því þegar hún lá hvíldarinnlögn að leika aðeins á læknana. Hún vissi að eldra fólk var gjarnan spurt ýmissa spurninga, svona til að kanna með minni og hæfni til rökhugsunar. Að draga 7 frá 100 og svo aftur að draga 7 frá þeirri niðurstöðu o.s.frv. var dæmi um „próf“ sem lagt var fyrir þá sem lágu inni. Mamma fékk mig því til að skrifa niður fyrir sig réttu lausnina á þessu, sem hún lærði utan að og sýndi svo læknunum hversu öflug hún var í stærðfræðinni!
Nokkur síðustu árin hef ég að mestu búið með foreldrum mínum og tók þá yfirleitt fyrsta kaffibolla dagsins með mömmu. Yfir honum ræddum við það helsta sem var í fréttum þegar við flettum í gegnum Morgunblaðið. Hún hafði sterkar skoðanir á því sem var að gerast á hverjum tíma, hvort sem það var borgarlínan hér heima eða stríðsástandið í heiminum, og ef ég var ekki alveg á sömu skoðun var viðkvæðið gjarnan „já þú heldur það“.
Mamma horfði gjarnan á íþróttir í sjónvarpinu með mér og pabba og hafði gaman af leiknum með kúlunum á græna borðinu. Skemmtilegast þótti henni þó að horfa á leiki Íslands í hand- og fótbolta og svo auðvitað okkar lið í enska boltanum, en hún missti helst ekki af neinum leik með Arsenal. Henni fannst augljóst að liðið myndi vinna enn fleiri leiki ef leikmennirnir væru duglegri við að skjóta á markið.
Ég var talsvert erlendis síðustu árin en talaði við mömmu í síma alla daga. Það var aldrei eins og ég væri að tala við konu á tíræðisaldri því alltaf var hún hress og kát, stutt í grínið og gleðina sem einkenndi hana. Hún vildi alltaf allt um mig og mitt fólk vita og vera viss um að allir væru frískir og hefðu það gott. Á sama tíma heyrði maður mömmu aldrei kvarta yfir einu eða neinu, þrátt fyrir að líkaminn hafi aðeins verið farinn að gefa eftir undir það síðasta. Hún var fyrst á fætur á morgnana og yfirleitt ekki lögst til svefns fyrr en eftir a.m.k. einn þátt með Barnaby í sjónvarpinu seint að kvöldi.
Nú er stjarnan mín, hún mamma, farin en minning um hana verður mér alltaf ljóslifandi eins og aðrar stjörnur á himninum. Nú segi ég eins og alltaf þegar við kvöddumst í símanum: Bless mamma mín.
Bjarni Torfi.
Elsku amma, stórglæsileg, indæl, skemmtileg, klár … já þetta varst þú, og meira til.
Við eigum ótal margar góðar minningar um þig sem munu aldrei gleymast. Eins og þegar þú og afi heimsóttuð okkur öll sumur þegar við bjuggum í Danmörku, með ferðatöskuna stútfulla af Cheerios og Cocoa Puffs. Þegar þið voruð svo komin, þá var alltaf keyptur kassi af gosi í glerflöskum sem var fáheyrt hjá okkur á þeim tíma, og vakti því alltaf mikla lukku. Eða þegar við sem krakkar vorum að fara til útlanda fengum við ekki að fara fyrr en þú varst búin að stinga smá pening í vasann okkar, svo við gætum nú keypt okkur eitthvað í fríhöfninni. Á Látraströndinni tókstu alltaf á móti okkur og bauðst okkur allan þann mat og drykk sem var til í húsinu og vildir helst ekki hleypa okkur úr fyrr en við vorum búin að borða á okkur gat. Þú varst alltaf tilbúin til að hlusta á allar sögurnar okkar og vildir allt heyra og vita um okkur og okkar líf. Þú hringdir í okkur á hverju ári á afmælisdaginn okkar og síðustu árin var ekki að heyra að þú værir komin á tíræðisaldurinn. Þú varst óendanlega stolt af okkur öllum og hvattir okkur áfram í öllu því sem við gerðum.
Takk fyrir allar góðu stundirnar elsku amma, allar smákökurnar, súkkulaðistykkin, tartaletturnar á jóladag, gamlárskalkúninn, og allar þær góðu minningar sem við eigum. Við elskum þig og söknum þín.
Björg, Lárus (Lalli), Konný og Bjarni
Kristinn Bjarnabörn.
Elsku amma, það verður tómlegt að hafa þig ekki með okkur.
Nú minnumst við þess þegar maður kíkti í heimsókn til ykkar á Látraströnd. Þú tókst alltaf á móti manni með bros á vör og knúsi, sást líka alveg til þess að maður færi ekki svangur heim.
Hekla minnist þess sérstaklega þegar hún hringdi í þig og færði þér þær fréttir að hún ætti von á sínu fyrsta barni og þau hlýju orð sem þú sagðir henni. Einnig langa símtalið ykkar rétt fyrir níræðisafmælið þitt, hún vonar svo innilega að þú hafir vitað hversu dýrmæt þú varst henni. Þú hvattir hana mikið til að fylgja draumum sínum og sú hvatning mun fylgja henni um ókomna tíð.
Það var alltaf stutt í grínið og munum við alltaf muna fallega brosið þitt og hlátur. Þú varst alltaf svo falleg og glæsileg en fórst alltaf hjá þér þegar maður sagði það við þig. Það var svo dásamlegt að fylgjast með ástinni milli þín og afa. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af afa, við erum öll að passa upp á hann.
Við munum ávallt hugsa af hlýjum hug til þín elsku amma og erum ævinlega þakklát fyrir þær góðu stundir sem við áttum saman.
Þín barnabörn,
Hekla Eir, Nökkvi Freyr, Álfþór og Hera.
Þegar við hugsum til ömmu koma upp í hugann margar góðar minningar.
Við vorum mjög heppnar með að hafa búið í göngufæri frá ömmu og afa á Látró. Allar gistum við mikið hjá þeim og og flestar okkar bjuggu hjá þeim á einhverjum tímapunkti. Heimili ömmu og afa stóð okkur alltaf opið.
Það væsti aldrei um neinn á Látró. Amma sá alltaf um að allir væru vel nærðir og enginn færi svangur heim. Í hvert sinn sem við kíktum í heimsókn svignaði borðið undan kræsingum sem amma hafði fyrir að bera fram og hélt hún áfram að tína á borðið alla heimsóknina. Ömmu fannst við aldrei borða nóg þótt við værum búnar að borða á okkur gat og þótti henni agalegt að geta ekki boðið okkur eitthvað. Oft lét hún þessi orð falla: „Ó blessað barnið, fékk ekkert að borða.“ Oftar en ekki dró hún fram pönnukökupönnuna, skellti í pönnukökur og útbjó heitt kókó.
Ömmu þótti mjög gaman að matreiða, hún eldaði langbesta matinn enda lagði hún mikla ást í hverja máltíð. Þær voru ófáar veislurnar sem hún töfraði fram mörgum sinnum á ári. Hún passaði ávallt upp á að allir væru með þar sem hún elskaði að vera umkringd öllum sínum nánustu.
Amma var mikill húmoristi og hafði gaman af því að segja sögur. Oftar en ekki átti hún erfitt með að klára að segja sögurnar vegna þess hve mikið hún hló. Hún virtist alltaf horfa á lífið með jákvæðum augum og sjá skemmtilegan flöt á öllu. Amma átti það til að skreyta sögurnar örlítið. Þegar við vorum saman á Mallorca flaug stærðarinnar bjalla á öxlina á ömmu, sú hefur þó ekki verið stærri en tveir sentímetrar en með hverri frásögn ömmu stækkaði kvikindið um nokkra sentímetra.
Amma lét það í ljós hvað henni þótti vænt um fólkið sitt, fannst það flottast og klárast og sagði það hverjum þeim sem heyra vildi (og ekki). Hún stóð ávallt með sínu fólki. Hjarta hennar var fullt af ást til afkomenda sinna. Hún vildi vita allt um fólkið sitt og alla sem í kringum okkur voru. Hún hafði mikinn áhuga á ættfræði og byrjaði gjarnan á að spyrja fólk hverra manna það væri. Henni fannst ekki verra að geta fundið tengingu við þjóðþekkt fólk og talað um það sem frændur og frænkur. Hún hafði engin not fyrir Íslendingabók heldur fletti hún upp í ættfræðibókunum sínum.
Amma var mjög músíkölsk, spilaði á píanóið bæði fyrir okkur og undir ballettdansi. Hún hafði unun af því að heyra ömmu- og langömmubörnin sín spila á hljóðfæri og þá var lækkað í útvarpinu, sem annars var alltaf í gangi. Einnig hafði hún gaman af því að fara í leikhús, á ballettsýningar og tónleika og fengum við að njóta þess með henni.
Amma var svo miklu meira en bara amma, hún var góð vinkona. Það var alltaf gott og gaman að tala við ömmu, hvort sem maður fór í heimsókn eða átti við hana símtal.
Við erum óendanlega þakklátar fyrir ömmu og að eiga allar þessar fallegu minningar um hana. Hennar er sárt saknað.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli á Uppsölum)
Elsku amma, takk fyrir allt. Hvíl í friði.
Þínar
Þórhildur, Karen,
Berglind, Silja
og Kolbrún.
• Fleiri minningargreinar um Björgu Bjarnadóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga.