Sérstök umræða um orkumál fór fram á Alþingi í gær að beiðni Ingibjargar Isaksen þingmanns Framsóknarflokksins enda hefur verið að renna upp fyrir mönnum að í orkumálum stefnir í óefni verði ekki gripið í taumana. Þetta hefur reyndar legið alllengi fyrir og oft verið við þessu varað, en það hefur engu breytt. Áfram er unnið eftir ferli, svokallaðri rammaáætlun, sem hefur reynst of flókið og helst nýst til að koma í veg fyrir nýjar virkjanir. Að auki hefur reynst nánast ómögulegt að koma upp nýjum línum á milli landshluta, sem eykur vandann umtalsvert.
Segja má að ráðherra orkumála hafi látið þingheim heyra það í umræðunum. Taldi hann mál fara hægt í gegnum þingið auk þess sem hann sagði ýmsa, sem nú vildu aðgerðir gegn orkuvandanum, hafa áður staðið gegn lagasetningu á þessu sviði. Og hann nefndi að ef ekkert væri gert í raforkumálum í 15 ár eða í jarðhitamálum í 20 ár, eins og raunin hefði verið hér á landi, þá kæmu upp vandamál.
Allt er þetta eflaust rétt og ýmsir aðrir lýstu einnig áhuga á að láta hendur standa fram úr ermum í orkumálum, þó að sumir þingmenn teldu engan vanda á ferðum og legðu alla áherslu á vernd en enga á virkjanir.
Hætt er við, þrátt fyrir góðan ásetning, að þessar sérstöku umræður muni litlu skila, rétt eins og aðrar sambærilegar umræður á þingi um þessi mál. Vandinn í málaflokknum er ekki sá að umræður skorti þó að segja megi að orð séu til alls fyrst. Það sem þingið þarf að gera er að setja lög um virkjanir og línulagnir. En þá dugar ekki að setja sambærileg lög þeim sem sett hafa verkin í ferli sem þau sitja föst í. Lögin verða að setja verkefnin af stað án frekari tafar.