Fótboltinn
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
„Tilfinningin er mjög góð. Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni,“ sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið en hún samdi við þýska félagið Duisburg fyrr í mánuðinum.
Ingibjörg, sem er 26 ára miðvörður, skrifaði undir samning sem gildir út tímabilið með ákvæði um árs framlengingu, takist Duisburg að halda sæti sínu í þýsku 1. deildinni. Þar vermir liðið botninn með aðeins tvö stig, þremur stigum á eftir Nürnberg í sætinu fyrir ofan og fjórum stigum frá öruggu sæti.
Þýska deildin spennandi
Hún gekk til liðs við Duisburg á frjálsri sölu eftir fjögurra ára dvöl hjá Vålerenga í Noregi. Þar varð Ingibjörg tvisvar norskur meistari og tvisvar bikarmeistari auk þess að bera fyrirliðabandið síðari hluta síðasta tímabils.
Fleiri félög höfðu áhuga á að tryggja sér þjónustu hennar áður en Ingibjörg, sem á 57 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd, ákvað að semja við Duisburg.
„Það voru einhver lið en mér fannst mjög spennandi að fara í þýsku deildina. Það er frekar krefjandi verkefni fram undan núna með Duisburg og mér fannst það góð áskorun fyrir mig,“ sagði hún.
Verður nóg að gera
Á árunum fjórum hjá Vålerenga var hún ávallt í toppbaráttu en sér núna fram á æði ólíka baráttu við botninn.
Fyrsta verkefnið hjá nýju liði verður botnslagur gegn Selmu Sól Magnúsdóttur og stöllum hennar í Nürnberg um næstu helgi, þar sem Duisburg freistar þess að vinna sinn fyrsta sigur á tímabilinu.
„Mér líst mjög vel á það. Ég held að við séum búnar að ná að æfa þokkalega vel saman eftir að við komum fimm nýjar inn. Það hefur alveg þurft að púsla því saman.
Þetta er allt öðruvísi barátta sem ég er að fara í núna og það var kannski einmitt stór ástæða fyrir því að ég ákvað að taka þessu verkefni. Það verður allavega nóg af varnarleik og nóg að gera. Ég er spennt fyrir að prófa það,“ sagði Ingibjörg.
Ný hryggjarsúla
Líkt og hún nefnir eru fimm nýir leikmenn gengnir til liðs við Duisburg í janúarglugganum og því ljóst að forráðamenn Duisburg eru ákveðnir í að hjálpa liðinu að standa sig betur á síðari hluta tímabilsins.
„Við erum tveir miðverðir, einn framherji og tveir miðjumenn sem eru komnir. Það er því komin inn ný hryggjarsúla og þetta lítur bara vel út,“ útskýrði Ingibjörg.
Einn þeirra leikmanna er hin bandaríska Haley Thomas, miðvörður sem var fyrirliði ÍBV undanfarin tvö tímabil. Aðspurð sagði Ingibjörg útlit fyrir að þær tvær mynduðu nýtt miðvarðapar Duisburg.
Náum vonandi að bjarga okkur
Þrátt fyrir að staðan sé erfið og Duisburg án sigurs í tíu deildarleikjum til þessa hefur hún trú á að liðið geti bjargað sæti sínu á meðal þeirra bestu.
„Já, maður verður náttúrlega að hafa trú á því. Við erum búin að fá fimm nýja leikmenn inn og þetta lítur ekkert allt of vel út núna á töflunni. En það verður að hafa trú á verkefninu og reyna að gera sitt besta.
Ég vil koma með mína reynslu og það sem ég get inn í liðið, reyna að hjálpa eins mikið og ég get. Vonandi náum við að bjarga þessu,“ sagði Ingibjörg við Morgunblaðið.