Vegna forsetakosninganna í sumar hefur verið gerð breyting á starfsáætlun Alþingis. Þetta upplýsti Birgir Ármannsson forseti Alþingis þegar þing kom saman eftir jólahlé sl. mánudag.
„Um áramótin varð ljóst að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hyggst ekki gegna því embætti lengur en til loka kjörtímabilsins,“ sagði Birgir. Forsetakosningar muni því fara fram hinn 1. júní.
Forsætisnefnd Alþingis hefur því gert breytingu á starfsáætlun þingsins sem í meginatriðum felst í því að ekki verði þingfundir í 21. og 22. viku ársins og áætluð þingfrestun færist aftur um viku, verður 14. júní í stað 7. júní. „Með þessari ráðstöfun er komið til móts við það sjónarmið að eðlilegt sé að forsetakjörið njóti athygli fjölmiðla og almennings í aðdraganda þess og frambjóðendur fái næg tækifæri til að kynna sig fyrir kjósendum,“ sagði Birgir.
Breytingarnar eru eftirfarandi: 16. og 17. maí verða þingfundadagar í stað nefndadaga. 21. til og með 23. maí verða nefndadagar í stað þingfundadaga en nefndadagur sem vera átti 24. maí fellur niður. Í vikunni 27.-31. maí verða hvorki þingfundir né nefndafundir. Eldhúsdagsumræður sem áttu samkvæmt starfsáætlun að vera 5. júní frestast um eina viku og verða þess í stað 12. júní. Í vikunni 10.-14. júní verða þingfundir og er þingfrestun áætluð 14. júní. sisi@mbl.is