Lögregla býr ekki yfir neinum staðfestum upplýsingum um að fleiri ISIS-liðar séu hér á landi en sá eini sem vitað var um að væri meðlimur í hryðjuverkasamtökunum og var fluttur af landi brott þann 12

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Lögregla býr ekki yfir neinum staðfestum upplýsingum um að fleiri ISIS-liðar séu hér á landi en sá eini sem vitað var um að væri meðlimur í hryðjuverkasamtökunum og var fluttur af landi brott þann 12. janúar sl. ásamt eiginkonu sinni og sex börnum. Svo segir í svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Viðkomandi dvaldi í húsnæði á Akureyri á vegum Vinnumálastofnunar þar í bæ, en hafði verið synjað um alþjóðlega vernd hér á landi þar sem hann hafði fengið slíka vernd í Grikklandi og var honum því vísað úr landi og hann því fluttur þangað ásamt fjölskyldu sinni.

Spurningu um hvað brottflutningurinn þýði fyrir viðkomandi og hvort hann geti komið hingað til lands aftur, svarar lögreglan þannig að hún geti ekki tjáð sig um einstök mál, en segir að þeir sem yfirgefi landið sjálfviljugir fái ekki endurkomubann til landsins. Brottvísun felur að jafnaði í sér endurkomubann til Íslands eða á Schengen-svæðið í að lágmarki tvö ár.

Lögreglan var með talsverðan viðbúnað þegar maðurinn var handsamaður og fluttur brott, enda hafði lögreglan upplýsingar um að maðurinn væri meðlimur í ISIS, en þeirra hafði verið aflað í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld, þ. á m. Europol.

Maðurinn dvaldi í húsnæði á vegum Vinnumálastofnunar, en nú eru um 2.100 manns í búsetuúrræðum á hennar vegum.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson