Úrið 222 frá Vacheron Constatin hefur elst vel enda var 8. áratugurinn skemmtilegt tímabil í sögu úrahönnunar.
Úrið 222 frá Vacheron Constatin hefur elst vel enda var 8. áratugurinn skemmtilegt tímabil í sögu úrahönnunar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Finna má æ fleiri dæmi um að úraframleiðendur endurveki armbandsúr frá 7. og 8. áratugnum, til mikillar gleði fyrir þá sem smitast hafa af úrabakteríunni. Var 7. og 8. áratugurinn merkilegt tímabil í sögu armbandsúra þar sem það nýja og það gamla…

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Finna má æ fleiri dæmi um að úraframleiðendur endurveki armbandsúr frá 7. og 8. áratugnum, til mikillar gleði fyrir þá sem smitast hafa af úrabakteríunni.

Var 7. og 8. áratugurinn merkilegt tímabil í sögu armbandsúra þar sem það nýja og það gamla tókust á: fyrstu kvartsúrin komu á markaðinn og framleiðendur gangverksúra þurftu að marka nýja stefnu til að verða ekki undir í samkeppninni við hárnákvæmt, ódýrt og fjöldaframleitt kvartsið.

Það var á þessu skeiði að sum merkilegustu sköpunarverk úrasögunnar litu dagsins ljós, og kom t.d. Royal Oak frá Audemars Piguet á markað árið 1972 og fyrsta Nautilus-úrið frá Patek Philippe var kynnt til leiks 1976 – bæði hönnuð af Gérald Genta – en hönnunin lifir góðu lífi enn þann dag í dag og þykja þessi tvö úr í hópi þeirra eftirsóknarverðustu og dýrustu sem finna má og Genta fyrir löngu orðinn goðsögn í augum úrasafnara.

Mörg þeirra úra sem framleiðendur tefldu fram á þessu tímabili voru afskaplega vel heppnuð; í senn stílhrein og frumleg, og hafa elst afskaplega vel, svo að þau verðskulda það fyllilega að vera vakin aftur til lífs. Þá er gaman að bera saman upprunalegu úrin og nútímasmíðina og iðulega hægt að sjá greinilega þær framfarir sem hafa orðið í úrsmíði. Er ljóst að þau verkfæri sem greinin notar í dag eru mun nákvæmari en þau sem notast var við fyrir liðlega hálfri öld og sum smáatriðin mun fíngerðari nú en þá.

Svissneskur gullmoli

Af þeim sígildu úrum sem hafa verið endurvakin að undanförnu verður fyrst af öllum að nefna 222 frá Vacheron Constantin. Úrið fór í sölu árið 1977 og var svar fyrirtækisins við Royal Oak og Nautilus. Margir halda ranglega að Gérald Genta eigi heiðurinn af hönnuninni en það var Þjóðverjinn Jörg Hysek sem skapaði gripinn aðeins 24 ára gamall.

Vacheron Constantin sló í gegn á sýningunni Watches & Wonders árið 2022 með endurútgáfu 222 í gulli, í þetta skiptið með nýju gangverki og gagnsæju baki. Úrið er þunnt en voldugt, í senn sportlegt og fágað, og er að margra mati eitt fjölhæfasta og glæsilegasta úr sem finna má í dag. Svissneska dýrðin kostar sitt, og uppgefið verð er 80.000 evrur en þeir sem vilja ekki sætta sig við að vera á biðlista hjá næstu Vacheron Constantin-búð geta tryggt sér eintak á notaða markaðinum fyrir um það bil 10% hærra verð.

Japanskt tækniundur

Endurvakin úr þurfa ekki öll að kosta á við nýjan sportbíl og þeir hjá Seiko hafa t.d. gaman af að dusta endrum og sinnum rykið af gömlum teikningum, en fyrirtækið svipti nýverið hulunni af úri byggðu á hönnun frá 1969. Nýja Prospex SSC911 Speedtimer Solar Chronograph er sígilt og fullkomið sportúr með sólarsellu og vatnshelt niður á 100 metra dýpi. Hönnunin hefur aðeins breyst lítilsháttar en stíllinn heldur sér og má finna 1969-úrin til sölu hjá verslun Michelsen á tæplega 120 þús. kr.

Hámarks naumhyggja

Þeir sem eru veikir fyrir framúrstefnulegri hönnun ættu að kynna sér Casquette-úrið frá Girard-Perregaux sem fyrst kom á markað árið 1976. Úrið er stafrænt í bak og fyrir og birtir tímann á agnarlitlum skjá, og var upphaflega framleitt í 8.200 eintökum á árunum 1976 til 1978.

Casquette 2.0, eins og nútímaútgáfan er kölluð, skartar sama útlitinu nema hvað núna er úrið smíðað úr títaníum-málmi og keramíki og aðeins verða framleidd 820 eintök en uppsett verð er í kringum 5.000 evrur.