Kristín Linda Árnadóttir er aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.
Kristín Linda Árnadóttir er aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flestir Íslendingar þurfa aldrei að leiða hugann að því hvaðan raforkan kemur og hvort nóg sé til af henni. Við vöknum, kveikjum ljós, tökum símann úr hleðslu, hellum upp á kaffi og njótum kaffisopans um leið og við hlustum á útvarpið

Flestir Íslendingar þurfa aldrei að leiða hugann að því hvaðan raforkan kemur og hvort nóg sé til af henni. Við vöknum, kveikjum ljós, tökum símann úr hleðslu, hellum upp á kaffi og njótum kaffisopans um leið og við hlustum á útvarpið. Svo tökum við bílinn eða hjólið okkar úr hleðslu, höldum í vinnuna í birtu ljósastauranna og látum götuvitana um að stýra umferðinni. Tökum lyftuna upp á rétta hæð þar sem rafknúnar rennihurðir færa sig kurteislega til hliðar. Inni er allt uppljómað af ljósum og tölvuskjám. Á öðrum vinnustöðum er rafmagnið auðvitað jafn mikilvægt, það knýr starfið í skólunum, allt frá leikskólum til háskóla, heilbrigðiskerfið gæti ekki starfað án þess, ferðaþjónustan myndi fljótt lenda í vandræðum ef hótel og veitingastaðir fengju ekki nóg rafmagn og svona mætti lengi telja. Við búum við orkuöryggi, en getum við treyst á að svo verði áfram?“

Kristín Linda Árnadóttir er aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og hefur verið í rúm fjögur ár. Áður gegndi hún stöðu forstjóra Umhverfisstofnunar í rúman áratug. „Ég hef átt því láni að fagna að koma að orkumálum frá ýmsum hliðum. Raforkumál á Íslandi eru umhverfis- og loftslagsmál því við eigum kost á fullum orkuskiptum þar sem græna orkan okkar kemur í stað jarðefnaeldsneytis.“

Raforkuöryggi heimilanna hefur verið töluvert til umræðu. Kristín Linda segir fulla ástæðu til að ræða það í þaula. „Það er engin ástæða til að predika heimsendaspá. Við erum svo lánsöm að eiga 100% græna orkuvinnslu og við höfum stórt forskot á flestar aðrar þjóðir hvað orkuskipti varðar. Fyrri kynslóðir hér á landi sáu til þess með því að leggja hitaveitu alls staðar þar sem henni varð við komið og rafmagnsvæðingin var með ólíkindum skjót og almenn.“

Hún telur að Íslendingar hafi orðið dálítið værukærir með árunum. „Við erum svo góðu vön og höfum gengið að hreinu orkunni okkar vísri. Þess vegna höfum við ekki hirt um að tryggja nægilegt framboð af henni til að heimili og allir almennir vinnustaðir geti treyst á hana um alla framtíð. Forskot okkar í grænni orkuvinnslu hverfur hratt ef við höldum ekki vel á spöðunum.“

Blikur á lofti

Hvað gerist ef raforkuöryggi heimila og vinnustaða er ógnað? Kristín Linda segir að almenningur verði að velta þeirri spurningu fyrir sér. „Hvernig fer ef vinnustaðnum er skammtað rafmagn nokkra daga í viku? Hvernig verður að koma heim eftir langan vinnudag og uppgötva þá að einmitt í dag er rafmagnslaust í þínu hverfi fram á nótt af því að ekki er til nóg rafmagn fyrir alla?“ spyr hún áfram.

Hún segir að starfsfólk Landsvirkjunar hafi margoft vakið athygli á að sífellt meiri eftirspurn sé eftir raforkunni, á sama tíma og allar tilraunir til að auka græna orkuvinnslu sitji fastar í löngu leyfisveitingaferli. „Hingað til hefur þetta ekki bitnað á heimilum og almennum vinnustöðum. Við teljum okkur hins vegar sjá þess merki undanfarið að stórnotendur raforku séu farnir að seilast inn á raforkumarkað heimilanna.“

Raforkumarkaðurinn á Íslandi er tvískiptur, segir Kristín Linda. „Stórnotendur gera samninga til langs tíma, jafnvel áratuga og tengjast raforkukerfinu beint. Þær raddir hafa oft heyrst að stórnotendur greiði of lágt verð fyrir orkuna en á síðustu árum hefur Landsvirkjun endursamið við þá flesta og nú greiða þeir verð sem er mjög nærri því verði sem fæst á heildsölumarkaði. Aðrir raforkukaupendur, heimilin og almenn fyrirtæki, fá sitt rafmagn hjá raforkusölum. Raforkusalar sinna sumir eingöngu því hlutverki en sumir stunda einnig raforkuvinnslu sjálfir. Raforkuframleiðendur, bæði Landsvirkjun og smærri orkufyrirtæki, bjóða raforkuna til sölu á heildsölumarkaði og raforkusalar koma henni áfram til einstakra viðskiptavina.“

Kristín Linda segir að heimili og almenn fyrirtæki þurfi meiri orku í ár en í fyrra. „Vöxturinn milli ára er hægur en öruggur, um 2-3%, enda er landsmönnum sífellt að fjölga og fyrirtækjum sömuleiðis. Það kom okkur hjá Landsvirkjun því í opna skjöldu þegar eftirspurn eftir raforkunni sem við buðum til sölu á heildsölumarkaði fyrir núverandi mánuð reyndist ekki hafa vaxið um 2-3% frá nýliðnu ári heldur um heil 25%. Auðvitað fær ekki staðist að heimilin og almenn fyrirtæki hafi tekið slíkt risastökk í orkunotkun milli ára.“

Heimili keppi ekki við stórfyrirtæki

Hér víkur Kristín Linda máli sínu aftur að verði á heildsölumarkaði og verði til stórnotenda. „Þar hefur dregið verulega saman. Þess vegna er ekki óeðlilegt að einhverjir stórnotendur hafi leitað eftir meira rafmagni en langtímasamningar þeirra kveða á um, eða að nýr stórnotandi vilji koma inn á markaðinn og hafi ákveðið að kaupa nauðsynlegt rafmagn á heildsölumarkaði. Þetta veldur hins vegar áhyggjum. Heimili landsins eiga ekki að þurfa að keppa við öflugustu fyrirtækin um raforkuna.“

Landsvirkjun, orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar, hefur ávallt kappkostað að sjá heildsölumarkaðnum fyrir rafmagni jafnvel þótt fyrirtækinu beri engin lagaleg skylda til slíks. „Undanfarin ár hefur hlutdeild Landsvirkjunar á heildsölumarkaði verið um 50% og farið heldur vaxandi. Önnur orkufyrirtæki hafa svo deilt með sér hinum helmingnum. Nú þegar við þurfum að vísa á bug góðu fólki með frábærar viðskiptahugmyndir af því að við eigum ekki orku að selja því þá er nauðsynlegt að grípa í taumana.“

Enginn skilinn eftir

Kristín Linda segir öllu máli skipta að orkuskiptin verði sanngjörn. „Með sanngjörnum orkuskiptum á ég við að tekið verði tillit til allra sem málið snertir, enginn verði skilinn eftir. Aukin græn orkuvinnsla er ekki bara mál orkufyrirtækja eða atvinnulífsins. Hún snertir heimilin og auðvitað er snertiflöturinn við íbúa nærsamfélags aflstöðva mjög stór. Við hjá Landsvirkjun höfum alltaf kappkostað að vera góður granni og verðum það áfram.“

Því hefur verið haldið á lofti að hærra verð á grænni orku hvetji orkufyrirtæki heimsins til að auka slíka vinnslu. „Það er sjálfsagt rétt, en má ekki vera eina atriðið sem litið er til. Það gleymist stundum að það eru heimilin sem líða fyrir hækkandi orkuverð ef við höldum ekki hlífiskildi yfir þeim. Við verðum að hafa sanngirnina að leiðarljósi.“

Hún lítur orkuskiptin svipuðum augum og jafnréttismál. „Núna þykir öllum sjálfsagt að tekið sé tillit til þarfa og skoðana allra, óháð kyni. Við sjáum vonandi flest að jafnrétti skilar betra samfélagi, sjáum sanngirnina í því að við eigum öll okkar fulltrúa við ákvarðanatöku um mikilvæg mál.“

Hér á landi er hlutfall kvenna í stjórnum og stjórnendastöðum orkufyrirtækja hærra en víðast hvar. „Við munum ekki snúa af þeirri leið. Ég er sannfærð um að vegferð okkar í jafnréttismálum styður okkur í orkuskiptunum, því gríðarlega mikilvæga verkefni.“

Upplýsingavefur um orkuöryggi

Orkumál eru ekki einföld og umræður um hver skuli sjá hvaða hluta raforkunotenda fyrir hversu mikilli orku ekki beinlínis létt hjal. „Málið einfaldast ef við leiðum hugann að rafmagni í daglegu lífi í rafknúna heiminum okkar,“ bendir Kristín Linda á. „Getum við verið án rafmagns heima hjá okkur? Væri það ekki verulegt inngrip í líf okkar ef við yrðum að sæta skerðingum, til dæmis á ákveðnum dögum? Hvernig myndi vinnustaðurinn okkar þola rafmagnsleysi, til lengri eða skemmri tíma? Eftirspurn eftir raforku er vissulega mikil. En við hljótum að setja heimilin okkar og vinnustaði í fyrsta sæti.“

Framtíðarsýn Landsvirkjunar er sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku. „Við stefnum áfram ótrauð að þeirri framtíð og á leið þangað munum við nýta orkuauðlindir þjóðarinnar á ábyrgan og hagkvæman hátt, hér eftir sem hingað til.“

Kristín Linda segir að Landsvirkjun sé líka umhugað um að skýra stöðuna á raforkumarkaðnum fyrir eigendum sínum, íslensku þjóðinni. „Málið snertir orkuauðlindir og orkuöryggi þjóðarinnar. Við höfum nú sett á laggirnar vef um raforkuöryggi, landsvirkjun.is/raforkuoryggi, þar sem staðan er skýrð á einfaldan hátt. Vonandi nýtist sá fróðleikur sem flestum.“