[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Með því að vera FKA-kona ertu að fjárfesta í sjálfri þér og ert partur af hreyfiafli sem styður kvenleiðtoga í að sækja fram og sameinar þær til aukins sýnileika og þátttöku. Í Félagi kvenna í atvinnulífinu eru konur úr öllum greinum atvinnulífsins af landinu öllu

Með því að vera FKA-kona ertu að fjárfesta í sjálfri þér og ert partur af hreyfiafli sem styður kvenleiðtoga í að sækja fram og sameinar þær til aukins sýnileika og þátttöku. Í Félagi kvenna í atvinnulífinu eru konur úr öllum greinum atvinnulífsins af landinu öllu. Haldnar eru nýliðamóttökur, opnunarviðburður og starfsár FKA er gríðarlega fjölbreytt víða um land – við vonumst til að þú takir virkan þátt í starfinu með því að mæta, bjóða þig fram í ábyrgðarstöður og taka að þér hlutverk.

Deildir FKA

AtvinnurekendaAUÐUR, LeiðtogaAUÐUR og FKA Framtíð eru deildirnar sem starfa sjálfstætt og frekari umfjöllun um þær má finna á síðunni hér við hliðina.

Fimm landsbyggðardeildir starfa innan FKA sem vinna með stjórn FKA og framkvæmdastjóra. Stjórnir landsbyggðardeilda greina þarfir nærumhverfisins og þétta raðir í öllum landsbyggðum.

Landsbyggðardeildirnar eru: FKA Austurland, FKA Norðurland, FKA Suðurland, FKA Suðurnes og FKA Vesturland og þess skal getið að farin verður ferð á Austurland í vor og púlsinn tekinn hjá nýjustu landsbyggðardeildinni.

Eitthvað við hæfi allra

Í FKA starfa sex nefndir sem eru verkefnadrifnar og með sérstakt hlutverk innan félagsins; alþjóðanefnd, fræðslunefnd, golfnefnd, nýir Íslendingar, nýsköpunarnefnd og viðskiptanefnd. Þessar nefndir halda viðburði sem eru öllum félagskonum opnir og þeim gjarnan að kostnaðarlausu. Það er mjög misjafnt hvað konur vilja gefa félaginu og fá út úr þátttöku en allar eiga að finna eitthvað við sitt hæfi.

Í FKA starfa ráð og þar má einnig finna nokkra óformlega hópa þar sem konur tengjast á grundvelli sameiginlegra áhugamála (hlaup, fjallaferðir og fleira) eða starfsvettvangs (mannvirkja, bókhalds og fleira). Þessi hópamyndun er góð viðbót svo fremi sem hún er gegnsæ og fagnandi.

Finna taktinn í sameiningu

Félagið er einnig stolt af mentorverkefninu og hreyfiaflsverkefnum sínum eins og Jafnvægisvog, Sýnileikadegi, Viðurkenningarhátíð og þannig má lengi telja. FKA fagnar nú í ár 25 ára afmæli sínu og mun gusta af starfseminni þegar haldið verður hátíðlega upp á afmælið. Að sjálfsögðu er lögð áhersla á endurnýjun í félaginu og aldursdreifingu en við komum til með að fagna og þakka konum sem rutt hafa brautir, konunum sem við stöndum á öxlunum á.

Þessu tengt var komið á fót innan félagsins nýrri og reynslumikilli sveit kvenna sem hafa það hlutverk að virkja félagskonur á „þriðja æviskeiðinu“. Fengu þær nafnið Platínuhópur FKA en markmiðið er að þær finni fyrir sér og virði sínu og síðast en ekki síst deili þekkingu sinni og reynslu til þeirra sem á eftir koma. Mikilvægt er að kynslóðir finni taktinn í sameiningu til að takast á við áskoranir samtímans.