Jóhanna Laufdal Friðriksdóttir hefur sinnt ýmsum störfum hjá Ölgerðinni í gegnum árin.
Jóhanna Laufdal Friðriksdóttir hefur sinnt ýmsum störfum hjá Ölgerðinni í gegnum árin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ölgerðin er fyrsta fyrirtækið til að hljóta vottun Samtakanna '78 sem hinsvegin-vænn vinnustaður, en fyrirtækið hefur alltaf verið framsækið fyrirtæki þar sem starfsfólkið óttast ekki breytingar

Ölgerðin er fyrsta fyrirtækið til að hljóta vottun Samtakanna '78 sem hinsvegin-vænn vinnustaður, en fyrirtækið hefur alltaf verið framsækið fyrirtæki þar sem starfsfólkið óttast ekki breytingar. Þetta segir Heiðdís Björnsdóttir og segir hún að það hafi verið kjarnamarkmið hjá fyrirtækinu að setja fjölbreytileikann upp á næsta stig. Heiðdís er annar tveggja mannauðsstjóra hjá Ölgerðinni; hinn er Jóhanna Laufdal Friðriksdóttir.

„Í fjölbreytileikanum leynast tækifærin. Með framsýni og fjölbreytileika trúum við að við verðum eftirsóknarverðari vinnustaður og löðum að okkur hæfasta fólkið. Þannig náum við lengra,“ segir Heiðdís.

„Árið 2020 hóf Ölgerðin þá vegferð að skoða vinnustaðamenningu fyrirtækisins út frá fjölbreytileika. Vinnustaðamenningin var greind með sérstakri áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika og stefnumið sett. Markmið stefnunnar er að stuðla að jafnri stöðu starfsfólks og jöfnum tækifærum á flestum sviðum, óháð kyni, aldri og uppruna, koma í veg fyrir ómálefnalegan launamun. Markmiðið er að Ölgerðin sé eftirsóknarverður vinnustaður í huga fólks.“

Þá segir Jóhanna að þetta sé verkefni og vegferð sem ekki er hægt að setja lokapunkt á. „Það verða alltaf bæði ný tækifæri og nýjar áskoranir sem fylgja bæði tíðarandanum og kynslóðum,“ segir hún.

Íslenskt viðskiptalíf verði fyrirmynd

Jóhanna segir að unnið sé markvisst að því að útrýma fordómum hjá Ölgerðinni og eru allir velkomnir. „Einn þáttur í því er að jafna hlut kvenna innan fyrirtækisins. Samkeppni um starfsfólk er mikil og metnaður fyrir því að Ölgerðin sé fyrsti kostur fólks sem sækir um störf hjá fyrirtækinu og þeirra sem starfa hjá því nú þegar,“ segir Jóhanna og bætir við:

„Það hefur einnig farið mikil vinna í að skapa inngildandi vinnustað, breytt var öllum salernum í kynhlutlaus salerni, bætt við búningsherbergi fyrir konur þar sem áður voru aðeins karlaklefar og úttekt var gerð á aðstöðu fyrir hreyfihamlaða.“

Hjá Ölgerðinni starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks með mismunandi bakgrunn. „Við þurfum að ná til allra. Við erum meðvituð um að orðalag okkar snúi að öllum kynjum, til dæmis í auglýsingum, hvort sem er auglýsingum á vörum og þjónustu eða atvinnuauglýsingum,“ segir Heiðdís.

„Við skrifuðum undir Jafnvægisvogina í október 2022. Markmið jafnvægisvogarinnar er að auka jafnvægi í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi með það að markmiði að árið 2027 verði 40/60-kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum fyrirtækja, sveitarfélaga og opinberra stofnana á Íslandi. Horft er til þess að íslenskt viðskiptalíf verði fyrirmynd jafnréttis fyrir aðrar þjóðir.“

Fræðsla um hinseginleikann

Jóhanna segir einn lið þessa markmiðs vera að vinna markvisst að starfsþróun í millistjórnendahópum. „Við höfum verið með öfluga fræðslu um jafnréttismál og erum meðvituð um orðalag og hvernig við tölum og komum fram hvert við annað. Allt upplýsingaefni rýnum við einnig með tilliti til þessa ásamt því að hafa það á bæði á íslensku og ensku. Markmiðið er að skapa vinnustað fyrir alla með menningu án fordóma og er hinseginvottun hluti af því markmiði,“ segir hún.

„Við hófum samstarf með Samtökunum '78 í maí síðastliðnum. Í kjölfarið var fræðsla til starfsfólks um hinseginleikann, kannanir framkvæmdar og úttektir gerðar á stefnum, vinnuumhverfi og menningu með hinseginleikann í huga. Því ferli er nú formlega lokið með vottun af hálfu samtakanna.“

Heiðdís lýsir þá reynslu sinni af því sem gerir góðan vinnustað enn betri. „Það að setja sér markmið í málefnum tengdum fjölbreytileika og jafnréttismálum opnar augu okkar og kemur í veg fyrir að við heltumst úr lestinni og verðum eftir,“ segir Heiðdís. „Til að skapa eftirsóknarverðan vinnustað og andrúmsloft á vinnustað þar sem fólk vill vera verðum við að leggja áherslu á að hafa fjölbreyttan hóp af fólki sem er bæði skapandi og framsækið og er tilbúið að takast á við þær áskoranir sem fram undan eru.“