Ekki er ljóst hvort Ísland muni taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) í ár sem haldin verður í Malmö í Svíþjóð. Ákvörðun hefur verið tekin um að rjúfa tengsl á milli Söngvakeppninnar, sem haldin er hér heima, og þátttöku Íslands í Eurovision vegna þátttöku Ísraela í síðarnefndu keppninni. Þetta kom fram í máli Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra í Síðdegisútvarpinu á Rás tvö í gær.
Söngvakeppni sjónvarpsins verður haldin en ákvörðun um framhaldið, þ.e. hvort Íslendingar sendi framlag til Svíþjóðar, verður tekin í samráði við þann sem stendur uppi sem sigurvegari íslensku söngvakeppninnar.
Þá hefur áhyggjum af stöðu mála á Gasaströndinni verið komið á framfæri við Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU).