Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Lögum samkvæmt ber flugfélögum sem fljúga með farþega hingað til lands að afhenda íslenskum stjórnvöldum farþegalista. Eigi að síður er mikill misbrestur á því. Þannig hafa flugfélögin Neos, Austrian Airlines, Atlantic Airways, Lufthansa, Liberia Express, Finnair, Eurowings, Edelweiss, Jet2.com og Air Baltic ekki gert svo, að því er heimildir Morgunblaðsins herma, og við því hefur ekki verið amast af hálfu íslenskra stjórvalda.
„Það blasir auðvitað við að þegar þessar upplýsingar vantar þá getur lögbundin greining farþegaupplýsinga ekki farið fram,“ segir Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í samtali við Morgunblaðið, spurður um áhrif þessa.
„Eftirlit með farþegum þessara flugvéla verður í skötulíki og hending ein ræður því hvort brotamenn séu stöðvaðir á landamærum þegar kerfisbundið landamæraeftirlit er ekki til staðar eins og á ytri landamærum þar sem allir farþegar þurfa að framvísa vegabréfum. Það sem er verra er að svona hefur ástandið verið mjög, mjög lengi án eðlilegra viðbragða af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ég hef sagt að ytri landamærin leki og þá sérstaklega niður við Miðjarðarhaf, en í reynd er óþolandi að einstaka flugfélög komist upp með þetta á meðan önnur flugfélög standa vel að þessari upplýsingagjöf, þ.m.t. íslensku flugfélögin tvö,“ segir Úlfar.
Með ytri landamærum er átt við landamæri Schengen-ríkjanna gagnvart ríkjum utan þeirra. Ísland er innan Schengen. Þegar inn í eitthvert Schengen-ríkið er komið er förin greið innan svæðisins, þ.e. um innri landamæri ríkjanna.
Nefna má að nýlega var aðild Búlgaríu og Rúmeníu að Schengen samþykkt, en þó með fyrirvara af hálfu Austurríkis. Áhyggjur eru uppi um að vandinn á landamærunum kunni enn að vaxa með tilkomu þessara ríkja inn á Schengen-svæðið.
Stjórnvöldum er heimilt að svipta þau flugfélög lendingarleyfi skirrist þau við að afhenda yfirvöldum farþegalistana.
Þannig segir í 17. gr. laga um landamæri að „fyrirtækjum sem annast flutning farþega til og frá landinu er skylt að afhenda lögreglu upplýsingar um farþega og áhöfn. Sama skylda hvílir á stjórnendum, eigendum eða umráðamönnum fara á leið til og frá landinu, þar á meðal einkaloftfara og seglbáta.“
Í lögunum er einnig kveðið á um refsiábyrgð þeirra sem brjóta gegn skyldu sinni til að veita upplýsingar, en í tollalögum er heimild til að leggja stjórnvaldssektir á þá sem þannig háttar til um.
Í nýlegu svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um aðgang að farþegalistum flugfélaga kemur m.a. fram að lögreglu sé heimilt að safna og skiptast á upplýsingum um farþega og áhöfn við tollyfirvöld í þágu eftirlits og greiningarstarfs eða vegna rannsókna á ætluðum brotum sem og að miðla upplýsingum um farþega og áhöfn til erlendra yfirvalda að því marki sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir, koma upp um, rannsaka eða saksækja fyrir hryðjuverk eða önnur alvarleg afbrot.
Í svarinu segir og að af hálfu lögreglu séu farþegaupplýsingar notaðar í þágu landamæraeftirlits og í hvers kyns löggæslutilgangi.
Í samtali við Morgunblaðið segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra að málið sé til skoðunar í ráðuneytinu, kallað hafi verið eftir upplýsingum um stöðu þessara mála, en að hann sé meðvitaður um vandann.