Það er siðferðisleg skylda vinnustaða að huga vel að vellíðan sinna starfsmanna. Á sama tíma getur fjárhagslegur ávinningur fyrirtækja verið umtalsverður við að hlúa að vellíðan starfsfólks,“ segir Álfheiður Óladóttir, ráðgjafi, framkvæmdastjóri og eigandi hjá Vinnu og vellíðan. „Stjórnendur fyrirtækja eru í lykilstöðu til að stuðla að aukinni vellíðan starfsfólks á vinnustöðum og flestir gera sér grein fyrir að mannauðurinn er sá þáttur er skilar mestu samkeppnisforskoti í nútímaviðskiptaumhverfi.“
Álfheiður er með M.Sc. í stjórnun og stefnumótun og B.A. í sálfræði. Auk þess er hún meðferðardáleiðari, markþjálfi og viðurkenndur sérfræðingur á sviði vinnuverndar, í félagslegum og andlegum þáttum. Álfheiður hefur fjölbreytta reynslu á sviði mannauðsstjórnunar, verkefnastjórnunar, kennslu og einstaklingsráðgjafar.
Leikreglur um samskipti
Vinna og vellíðan er framsækið fyrirtæki á sviði vellíðunar á vinnustaðnum. Byggt er á víðtækri þekkingu starfsfólks og áratugalangri reynslu þess á margvíslegum sviðum. Fullyrðir Álfheiður að reynslan hafi sýnt að viðurkenndar aðferðir og inngrip á þessu sviði geti skilað verulegum árangri.
„Vellíðan starfsfólks snertir alla vinnustaði. Við veitum ráðgjöf til fyrirtækja hvernig þau geta náð því markmiði að sameina vinnu og vellíðan. Við veitum til dæmis sérhæfða ráðgjöf sem er ætluð stjórnendum hvort sem eru æðstu stjórnendur, millistjórnendur eða aðrir sem hafa mannaforráð,“ segir Álfheiður. „Til að ná því markmiði að sameina vinnu og vellíðan þá aðstoðum við við gerð samskiptasáttmála en hann er mótaður með þátttöku allra starfsmanna vinnustaðarins. Um er að ræða sáttmála um samskipti og einhvers konar leikreglur um samskipti á vinnustaðnum.“ Fræðslumál eru Álfheiði afar hugleikin að hennar sögn og segir hún starfsemina bjóða bæði upp á námskeið, fræðslustjóra að láni og sáttamiðlun. Í sáttamiðlun felst að þriðji aðili er fenginn til að aðstoða starfsmenn við að ná sáttum í deilum sem gætu hafa skapast á vinnustaðnum. Deilurnar geta verið margs konar og mögulega haft mikil áhrif á allan vinnustaðinn. „Um leið og deilur eru farnar að hafa þau áhrif að starfsmenn finna til vanlíðunar þá þarf að grípa inn í. Þeir sem deila komast sjálfir að samkomulagi eða niðurstöðu, sáttamiðlarinn aðstoðar aðeins í því ferli,“ segir Álfheiður.
Álfheiður segir eina mikilvægustu lexíuna sem hún hefur lært í tengslum við markmiðasetningu vera í formi hugrekkis. „Það er enginn draumur of stór og þú lærir svo mikið á leiðinni. Það þarf líka að leyfa sér að fagna áfangasigrum og njóta vegferðarinnar. Að sama skapi halda sér við efnið og vinna markvisst í hlutum, sækja sér aðstoð og ráð þegar hindranir koma upp. Ég lærði frekar seint hvað það er mikilvægt að vinna markvisst í tengslanetinu og leyfa sér að vera sýnilegur. Ég myndi hvetja alla til að huga vel að því og það eru frábær tækifæri til þess, til dæmis í félagsstarfi FKA,“ segir hún. „Ég ákvað fyrir nokkrum árum að elta verkefni sem tala til mín og veita mér gleði. Og segja já takk við áhugaverðum tækifærum og ýta þannig sjálfri mér út fyrir þægindarammann. Það hefur falið í sér að ég hef komið að ansi fjölbreyttum verkefnum í gegnum tíðina og hef kynnst frábæru fólki á leiðinni. Þannig finnst mér ég hafa vaxið mest, bæði persónulega og faglega.“
Fjör í fjölbreytninni
Spurð að því hvernig þessi starfsferill varð fyrir valinu segist Álfheiður þrífast vel í fjölbreyttum verkefnum og hafi það verið kveikjan að þessu. „Þetta starf sameinar áhuga minn á sjálfseflingu einstaklinga og að geta haft jákvæð áhrif á vellíðan fólks. Ég hef leitast við að koma þeim áhuga í farveg með ýmsum hætti, meðal annars sem meðferðaraðili, markþjálfi, kennari og ráðgjafi,“ segir Álfheiður. „Ég þarf að hafa sveigjanleika og frelsi til að gera hluti sem ég brenn fyrir, læra nýja hluti og vaxa sem einstaklingur. Það hentar mér því mjög vel að vera í eigin rekstri í samvinnu við frábært teymi þar sem við deilum öll þeirri sýn að vilja efla vellíðan fólks á vinnustöðum.“ Segir hún það vera göfugt markmið vinnustaða að skila starfsfólki sínu heim til sín að vinnudegi loknum í sama ástandi eða jafnvel betra en þau voru í að morgni.