Verkalýðsforystan sem setið hefur að samningum við Samtök atvinnulífsins á undanförnum vikum, lengi vel í góðri sátt þó að tónninn hafi breyst, tók því ekki vel þegar bent var á að eitthvað þyrfti undan að láta eftir hamfarirnar í Grindavík og vegna þess kostnaðar sem þeim óhjákvæmilega fylgir. Viðbrögðin komu í kjölfar orða Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra um málið, en hann lýsti þeim veruleika að aðgerðir ríkisins vegna Grindavíkur hefðu áhrif á getu ríkisins til að verða við kröfum annarra um fjárfrekar aðgerðir, og vísaði þar til kjarasamninga og þeirra krafna sem fram hafa komið í tengslum við þá.
Bjarni benti á að uppi væru „mjög háværar kröfur um að ríkið leggi mikla fjármuni inn í tilfærslukerfin“ til að kjarasamningar náist, ella yrði ekkert af samningum.
Í samtali við mbl.is í gær tók Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, í sama streng og sagði blasa við að sú staða sem upp væri komin hefði áhrif „og það væri skrítið ef einhverjir ætluðu að vera ósammála því“, því það lægi í augum uppi.
Hún sagði enn fremur að þetta breytti því ekki að „ábyrgir langtímasamningar eru gríðarlega verðmætir fyrir íslenskt samfélag; fyrir heimili, lítil fyrirtæki, meðalstór og stór fyrirtæki. Núna eru aðilar vinnumarkaðarins með málið hjá sér og á meðan erum við að vinna okkar megin.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, lýsti sömu sjónarmiðum og sagði ljóst að jafn stórt mál og Grindavíkurmálið hefði áhrif á heildarsamhengi efnahagsmálanna. Hann sagði að til þess þyrfti að horfa en um leið að það væri „alveg ljóst að ríkið kemur með einum eða öðrum hætti að kjarasamningum. Það er ekki tímabært að tjá sig um hvernig það verður því aðilar eru ekki búnir að ná saman.“
Þau viðhorf sem ráðherrarnir lýsa ættu ekki að verða að ágreiningsefni. Augljóst er að hamfarirnar í Grindavík hafa áhrif á íslenskt efnahagslíf og draga úr getu ríkisvaldsins til annarra aðgerða. Um leið er ljóst, líkt og félags- og vinnumarkaðsráðherra nefnir, að fyrsta skref er að aðilar vinnumarkaðarins nái saman um meginlínur og að því búnu getur ríkið lagt mat á hvort og með hvaða hætti það getur liðkað fyrir því að loka samningum.
Ábyrgðin á samningagerðinni er með öðrum orðum fyrst og fremst hjá aðilum vinnumarkaðarins og þeir verða að sýna þá ábyrgð sem þeir lengst af virtust ætla að gera, að sitja við samningaborðið þar til þeir ná saman.