Helena Björk Bjarkadóttir
helena@mbl.is
Fornleifafræðingar í Danmörku fundu nýlega lítinn hníf með áletruðum rúnum sem hægt er að rekja um 2.000 ár aftur í tímann. Þetta eru ein elstu ummerki um ritað orð sem fundist hafa í landinu.
Járnhnífurinn fannst við uppgröft fornleifafræðinga í litlum kirkjugarði austur af Óðinsvéum. Hnífurinn fannst í gröf í kirkjugarðinum.
Í fyrstu héldu fornleifafræðingar að um væri að ræða venjulegan járnhníf, sem er áhugavert í sjálfu sér en ekkert óvenjulegt. Þegar farið var að hreinsa hnífinn og skoða hann betur kom í ljós um hversu merkan fund væri að ræða. Hnífurinn er um átta sentimetrar að lengd og fimm rúnir eru ristar á hann. Rúnirnar mynda orðið „hirila“ sem merkir „litla sverð“ á elsta rúnastafrófi sem þekkist.
Kambur fannst árið 1865
Hvort hirila er nafnið á hnífnum sjálfum eða hvort það er nafn eiganda hnífsins eru fornleifafræðingar ekki vissir um, en enginn vafi leikur á því að hnífurinn var afar mikils virði fyrir fólkið sem gróf hann fyrir um 2.000 árum, segir Jakob Bonde, safnvörður og fornleifafræðingurinn sem gerði uppgötvunina.
Ljóst er að eigandi hnífsins hefur verið hluti af fámennum hóp sem bjó yfir kunnáttu í lestri og ritun. Það að geta lesið og skrifað tengdist bæði sérstöðu og völdum á þessum tíma, segir Lisbeth Imer, sérfræðingur í rúnum á Þjóðminjasafni Danmerkur.
Aðeins einu sinni áður hafa fundist áletranir með sama rúnastafrófi og á hnífnum. Það var árið 1865 þegar beinakambur fannst í Vimose, vestur af Óðinsvéum. Á kambinum stóð „harja“.
Þegar skrif komu fyrst fram í Skandinavíu var aðeins um að ræða smáar áletranir, aðallega á hluti. Til að mynda eru ekki til neinar bækur eða stærri áletranir frá þessum tíma.
Fundurinn er einstakur og gefur sjaldgæfa og mikilvæga innsýn í hversdagslíf forfeðra okkar, segir Lisbeth Imer. Hnífurinn verður til sýnis í borgarsafni Óðinsvéa ásamt öðrum gripum frá og með 2. febrúar.