Guðmundur Hilmarsson
gummih@mbl.is
Lítið sem ekkert þokaðist á rúmlega sex klukkutíma samningafundi Samtaka atvinnulífsins og breiðfylkingar stéttafélaganna í gær en boðaður var nýr fundur samningsaðila í Karphúsinu klukkan 13 í dag.
„Þetta var rúmlega sex klukkutíma fundur og satt best að segja þá gerðist lítið á honum. Þetta var hálfgerð störukeppni en það var hins vegar ákveðið að boða til annars fundar og ég trúi ekki öðru en að við fáum þá að sjá betur á þessi spil. Það er að renna upp ögurstund í því hvernig þetta fer,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfgreinasambands Íslands, við Morgunblaðið eftir fundinn.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tók í svipaðan streng. „Við erum því miður svolítið föst í sama farinu. Boltinn er enn hjá Samtökum atvinnulífsins en vonandi tekst þeim að koma honum áfram svo við getum haldið áfram í þessari mikilvægu vinnu,“ sagði Sólveig við Morgunblaðið.
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, lét hafa eftir sér í Silfrinu í Ríkisútvarpinu að útgjöld vegna Grindavíkur gætu haft áhrif á aðkomu stjórnvalda við gerð kjarasamninga.
Sólveig Anna segir að þessi ummæli hafi ekki spillt fyrir samtalinu sem breiðfylkingin eigi við Samtök atvinnulífsins. Hún segir að stjórnvöld verði að axla ábyrgð gagnvart vinnandi fólki í landinu og koma með í þá vegferð sem hefur verið lagt upp með.
„Hér þurfa allir að koma að borðinu og þar geta stjórnvöld augljóslega ekki verið sá aðili sem kemur ekki að því. Ég tel víst að svo verði ekki og ég er fullviss um að þótt Bjarni Benediktsson tali með þessum hætti þá fari það svo að stjórnvöld geri það sem þau þurfa að gera til þess að hægt verði á endanum að skrifa undir langtímakjarasamninga,“ segir Sólveig.
Vilhjálmur er ekki þeirrar skoðunar að ummæli Bjarna hafi verið olía á eldinn. „Við lítum svo á að ávinningur ríkissjóðs af því að þetta verkefni takist skili sér margfalt til baka.“ Hann segir að það liggi alveg ljóst fyrir að þær forsendur sem liggja að baki kjaraviðræðunum beinist að því að allir taki þátt.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við Morgunblaðið að SA væru að vinna af heilum hug að því að ná langtímakjarasamningi við breiðfylkingu stéttarfélaganna.
„Frá okkar bæjardyrum séð skiptir mestu máli að við vöndum okkur við þetta verkefni sem við erum með í höndunum af því að við ætlum okkur að gera skynsamlega langtímasamninga,“ sagði Sigríður.
Hún segir að launaliðurinn hafi verið ræddur fram og til baka. Krafa breiðfylkingarinnar er krónutöluhækkun sem SA hefur sagt að sé kostnaðarsöm og geti komið af stað launaskriði.