Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri atvinnutengingar VIRK, talar um að konur séu í miklum meirihluta þeirra sem leita til VIRK, eða um 70% allra sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda.
Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri atvinnutengingar VIRK, talar um að konur séu í miklum meirihluta þeirra sem leita til VIRK, eða um 70% allra sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda. — Ljósmynd/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atvinnutenging VIRK er samstarf VIRK við fyrirtæki og stofnanir en markmið verkefnisins er að ljúka starfsendurhæfingu á farsælan hátt með því að útvega einstaklingum í starfsendurhæfingu störf við hæfi sem og fyrirtækjum gott starfsfólk ásamt því…

Atvinnutenging VIRK er samstarf VIRK við fyrirtæki og stofnanir en markmið verkefnisins er að ljúka starfsendurhæfingu á farsælan hátt með því að útvega einstaklingum í starfsendurhæfingu störf við hæfi sem og fyrirtækjum gott starfsfólk ásamt því að halda uppi virkri atvinnuþátttöku á Íslandi og stuðla að heilbrigðu samfélagi.

Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri ráðgjafar og atvinnutengingar hjá VIRK, sem byrjaði með verkefnið árið 2016 segir alveg ótrúlegt hvað íslensk fyrirtæki séu öflug. „Íslensk fyrirtæki eru svo mögnuð og tilbúin í alls konar. Þau vilja vera með, gera og leggja sitt af mörkum og eru einstaklega jákvæð gagnvart þessu. Enda er fyrirtækjum sem vilja vera með okkur í atvinnutengingunni alltaf að fjölga,“ segir Jónína með ákafa í röddinni. „Þegar verkefnið hófst var ekkert fyrirtæki með okkur í þessu en núna erum við með 1.600 fyrirtæki í gagnagrunninum okkar og þar af erum við með sérstaka tengingu við mörg hundruð fyrirtæki.“

Jákvæðara viðhorf nú

Jónína talar um að þessi góði árangur sé afrakstur mikillar vinnu hjá góðum hópi. „Þegar við byrjuðum með atvinnutenginguna þá urðum við vör við ranghugmyndir um það hverjir þyrftu á starfsendurhæfingu að halda og fundum stundum fyrir fordómum í garð þjónustuþega okkar. Í dag er viðhorfið mun jákvæðara því fólk veit mikið meira um VIRK núorðið, til dæmis að þjónustuþegar okkar eru þverskurður samfélagsins enda geta allir lent í því að falla af vinnumarkaði.

Í upphafi var það þannig að eingöngu ráðgjafar sáu um að koma fólki í vinnu og oft útskrifuðum við fólk með skerta starfsgetu sem fékk svo enga vinnu af því að það var enginn að auglýsa eftir þessu fólki,“ segir Jónína og bætir við að því hafi þau viljað breyta. „Það var augljóst að ef við komum fólkinu okkar ekki í vinnu áður en það hætti hjá okkur þá gekk mjög illa að fá vinnu. Við fórum því að hugsa hvað við gætum gert fyrir þennan hóp. Við vorum búin að koma því á þann stað að það gæti farið að vinna en það fékk ekki vinnu.

Við byrjuðum því á að ráða sérstaka atvinnulífstengla og fara og heimsækja fyrirtæki, segja þeim frá VIRK og hvað við gætum gert. Í raun vinna atvinnulífstenglarnir okkar, sem vinna með þjónustuþegunum og fyrirtækjum, þetta eins og vinnumiðlun, koma með ferilskrár og sýna hvað fólk getur gert og skoða hvort fyrirtæki vilji gefa þeim tækifæri.“

Konur í miklum meirihluta

Það eru mun fleiri konur sem leita til VIRK heldur en karlmenn, eða um 70% allra sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda. Spurð hvort konur þurfi frekar á starfsendurhæfingu að halda eða séu hreinlega duglegri að leita sér hjálpar segir Jónína að það sé sennilega blanda af hvoru tveggja. „Vissulega eru konur duglegri að leita sér hjálpar og við höfum oft rætt um að við þurfum að fara í átak til að upplýsa karlmenn um þennan möguleika.

En svo má ekki gleyma að það eru stórar stéttir af störfum sem konur sinna frekar, eins og hjúkrun, kennsla, sjúkraliðun og svo framvegis. Konur eru í miklum meirihluta í þessum stéttum, svo fara þær heim og eru með annað umönnunarstarf heima hjá sér líka þótt það hafi vissulega breyst og karlmenn séu að taka þátt í meiri mæli. Umönnunarstörf eru náttúrlega mjög erfið, bæði líkamlega og andlega, og það er eflaust hluti af ástæðunni fyrir því að konur eru í meirihluta hjá okkur. Svo kjósa sennilega því miður margir karlmenn frekar að fara þetta bara á hnefanum.“

Vinnuprófun er góð byrjun

Þá talar Jónína um að vinnuprófun hafi reynst mjög vel í atvinnutengingu en vinnuprófun sem er í sex til átta vikur getur, ef vel gengur, orðið að starfi. „Við erum með mikið af litlum fyrirtækjum og vinnuprófun er því oft góð byrjun. Þá fær fólk tækifæri til að vinna sig upp, byrjar kannski í litlu hlutfalli og vinnur sig upp í það hlutfall sem verið er að ráða í. Í leiðinni er starfsmaðurinn að læra á starfið og sýna að hann getur valdið því.

Svo kemur stundum í ljós að viðkomandi getur ekki valdið starfinu en þá getur þetta verið fínasta vinnuprófun á ferilskrána og mögulega meðmælandi. Í mörgum tilfellum er ekki von á starfi í lok vinnuprófunar en ef vinnuprófunin gekk vel og viðkomandi var ágætur starfsmaður þá er kannski kominn meðmælandi á ferilskrána þannig að það er alls konar að græða á því að koma fólki inn á vinnumarkaðinn þannig að það fái að reyna sig,“ segir Jónína og bætir við að núorðið sé algengt að fyrirtæki setji sig í samband við VIRK til að láta vita að þar séu laus störf.

„Til að kanna hvort við séum mögulega með einstaklinga sem gætu tekið starfið. Fyrirtækin hafa þá reynslu af því að ráða fólk í gegnum VIRK, fólk sem er með mikla þekkingu og starfsreynslu þó það geti kannski ekki unnið 100% starf. Það getur og kann starfið en ræður eingöngu við minna starfshlutfall, að minnsta kosti til að byrja með. Það er mín reynsla að fyrirtæki eru oft til í að gefa fólki tækifæri.“

Að koma í veg fyrir langtímaveikindi

Það er augljóst að Jónína hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu en hún hefur starfað hjá VIRK í bráðum 11 ár. Hún er sjúkraþjálfari og auk þess með gráðu í heilsuhagfræði frá London School of Economis sem og diplóma í verkefnastjórnun. „Fyrir 11 árum sótti ég um tímabundið starf hjá VIRK, að taka við þróunarverkefni um fjarverustjórnun. Verkefnið hét Virkur vinnustaður og við vorum með 30 fyrirtæki og leiðbeindum þeim með gerð á fjarverustefnu og hvernig þau gætu fylgst með fjarvistum hjá fólkinu sínu til að koma í veg fyrir langtímaveikindi.

Rannsóknir hafa sýnt að starfsfólk sem er með mestu veikindafjarveruna er líka gjarnara á að svara játandi að það mæti í vinnuna veikt en það starfsfólk er líka líklegra til að enda í langtímaveikindum. Hins vegar er starfsfólk með litla veikindafjarveru gjarnara á að svara neitandi ef það er spurt hvort það mæti í vinnuna veikt. Með því að fylgjast með þessu geta vinnustaðir hjálpað þessu starfsfólki að stunda vinnuna betur með því að koma til móts við það með breytingum á vinnutíma, verkefnum eða aðlaga vinnuna betur getu starfsmannsins tímabundið eða til lengri tíma.

Ástæður fyrir fjarveru geta líka verið af ýmsum toga eins og til dæmis samskiptavandi inni á vinnustaðnum, náinn ættingi glímir við veikindi eða eitthvað þess háttar. Með því að fylgjast vel með fjarveru og ræða við starfsfólk þá er hægt að vinna með því með aðstoð fyrirtækisins.“

Lítið frá vegna veikinda

Jónína viðurkennir að stundum glími VIRK við þá fordóma að fólk sem kemur úr starfsendurhæfingu sé meira veikt en aðrir starfsmenn. „Rannsóknir sýna hins vegar að fólk sem er með skerta starfsgetu er ekki meira frá vegna veikinda en aðrir. Þetta eru bara venjulegir starfsmenn sem verða veikir eins og gerist og gengur. Oft er þetta einmitt starfsfólkið sem er sjaldan veikt og skreppur aldrei frá því það er í minna starfshlutfalli og nýtir tímann því betur.

Svo er áhugavert að segja frá því að rannsóknir sýna líka að það er betra, ef aðstæður leyfa, að tengjast vinnustaðnum á veikindatímabili, það eflir starfsmanninn og meiri líkur eru á að hann komi fyrr til vinnu. Oft er því betra að vera í litlu starfshlutfalli og vera í veikindaleyfi á móti, þá eru meiri líkur á að fólk komist aftur til vinnu.

Einu sinni var talað um að fólk í kulnun ætti að fara að fullu í veikindaleyfi en þetta er að breytast líka hjá þessum hópi. Það er því betra að vera kannski í 20% starfshlutfalli, hálfur dagur tvisvar í viku, því þá heldur starfsfólk tengingu við vinnustaðinn sinn og samstarfsfólkið en er alla hina dagana að ná sér á strik aftur.“

VIRKT fyrirtæki 2024

Þessa dagana er Jónína og samstarfsfólk hennar hjá atvinnutengingu VIRK að skoða hvaða fyrirtæki fái viðurkenninguna VIRKT fyrirtæki 2024 en það er viðurkenning sem veitt er þeim fyrirtækjum og stofnunum sem sinntu samstarfinu við VIRK sérlega vel og sýndu samfélagslega ábyrgð. Í fyrra hlutu 13 fyrirtæki tilnefningu og að lokum voru það Össur Iceland og Vista sem fengu viðurkenningu sem VIRKT fyrirtæki 2023. „Þetta var mjög skemmtilegt en við heimsóttum öll fyrirtækin sem hlutu tilnefningu í fyrra og mikil ánægja var hjá þeim sem hlutu tilnefninguna. Við viljum að fyrirtækjunum okkar finnist atvinnutengingin vera eitthvað sem þau vilja taka þátt í. Enda skilar þetta þeim hellingi, sem og einstaklingunum og auðvitað þjóðfélaginu öllu,“ segir Jónína að lokum.