Trausti Hjálmarsson, formaður deildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem nýr formaður Bændasamtaka Íslands. Mun Trausti skila inn formlegu framboði á morgun en framboðsfrestur rennur út 22. febrúar nk. Kosið verður 1. og 2. mars nk. Trausti segist í samtali við ViðskiptaMoggann hafa tilkynnt núverandi formanni, Gunnari Þorgeirssyni, garðyrkjubónda á Ártanga, um framboðið. Gunnar var kjörinn formaður árið 2020 og hafði þá betur í kosningu gegn þáverandi formanni, Guðrúnu S. Tryggvadóttur.
Spurður um ástæður framboðsins segist Trausti sjá gríðarleg sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað.
„Við erum búin að vera alltof lengi í varnarbaráttu. Ég hef trú á að nú sé tækifæri til að sækja fram, horfa raunsætt á stöðuna en á sama tíma þarf að tala gleði í bændur. Við þurfum að hafa trú á íslenskum landbúnaði og ég upplifi að almenningur hafi trú á greininni. Þá hef ég upplifað aukna trú ráðamanna á íslenskum landbúnaði síðustu misseri. Stjórnmálaflokkar og ráðherrar hafa áttað sig á mikilvægi landbúnaðarins fyrir þjóðina og við þurfum að efla enn fekar samtal okkar við þingmenn og ráðherra,“ segir Trausti.
Markaðurinn að stækka
Hann segir tækifærin ekki síst liggja í því að markaðurinn sé stöðugt að stækka.
„Landsmönnum fer fjölgandi, ferðamennirnir eru ákveðin auðlind og við þurfum að bjóða góð og heilnæm matvæli og aðrar landbúnaðarafurðir.“
Aðspurður kveðst Trausti hafa fundið fyrir miklum stuðningi.
„Það hefur verið mikið leitað til mín og ég hvattur til góðra verka. Ég hef fulla trú á að verkefnið muni ganga vel.“
Ef Trausti nær kjöri tekur hann við formennsku á Búnaðarþingi um miðjan mars nk. tobj@mbl.is