Stjórn: Árdís Hrafnsdóttir, Sjöfn Karlsdóttir, Sólveig Gunnarsdóttir, Maríanna Finnbogadóttir, Sigríður Svarfdal , Karlotta Halldórsdóttir og Ester Harðardóttir sem vantar á myndina.
Stjórn: Árdís Hrafnsdóttir, Sjöfn Karlsdóttir, Sólveig Gunnarsdóttir, Maríanna Finnbogadóttir, Sigríður Svarfdal , Karlotta Halldórsdóttir og Ester Harðardóttir sem vantar á myndina. — Ljósmynd/Árni Sæberg
FKA Framtíð var upphaflega stofnað fyrir yngri konur innan félags FKA en deildin leggur mikla áherslu á virka uppbyggingu tengslanets og hagnýta fræðslu sem getur nýst sem innlegg í starfsframa og þróun, bæði fag- og persónulega

FKA Framtíð var upphaflega stofnað fyrir yngri konur innan félags FKA en deildin leggur mikla áherslu á virka uppbyggingu tengslanets og hagnýta fræðslu sem getur nýst sem innlegg í starfsframa og þróun, bæði fag- og persónulega. Stærsta verkefni deildarinnar er mentor-verkefnið þar sem paraðar eru saman reyndar konur úr atvinnulífinu og aðrar ungar og efnilegar konur í FKA Framtíð, sem hafa einlægan áhuga á að læra af reynslu þeirra sem eldri og/eða reyndari eru.

Sjálf á Sólveig R. Gunnarsdóttir, formaður FKA Framtíðar, góðar minningar úr starfinu sem hún segir gefa sér mikið. „Eftir viðburð hjá FKA Framtíð í jólaörtröðinni ákváðum við að hjálpa vinkonu úr stjórn sem rekur gjafavöruverslun. Við söfnuðumst saman í versluninni utan afgreiðslutíma og brutum saman gjafakassa og pökkuðum pöntunum til klukkan eitt um nóttina. Sannarlega skemmtilegt og eftirminnilegt kvöld. Konur að styðja aðrar konur, það er það sem FKA snýst um.“

Betra tengslanet

Ásamt Sólveigu eru í stjórn FKA Framtíðar þær Árdís Hrafnsdóttir, Ester Sif Harðardóttir, Karlotta Halldórsdóttir, Maríanna Finnbogadóttir, Sigríður Inga Svarfdal og Sjöfn Arna Karlsdóttir. Sólveig segir það sérstaklega gaman að vera formaður hjá svona frábærum hópi og það gefi sér mjög mikið. „Að fá að leiða hóp kröftugra kvenna í að byggja upp deild FKA Framtíðar er mjög gefandi. Framtíð félagsins byggist á nýliðun og framtíðarsýn yngri kvenna, ásamt stuðningi og reynslu þeirra sem eldri og reyndari eru. Mentorverkefnið er mér einnig afar kært. Að leiða saman öflugar konur, þvert á svið atvinnulífsins, er oft mikil áskorun en mjög gefandi og ef vel gengur hefur það skapað mikil tækifæri fyrir konurnar sem eru þátttakendur í verkefninu,“ segir Sólveig og bætir við að sjálf hafi hún einmitt gengið í FKA til að byggja upp betra tengslanet.

„Mitt starfssvið innan fjármálageirans hefur verið frekar karllægt og því fannst mér mikilvægt að kynnast og byggja upp betra tengslanet kvenna. Jafnframt er dýrmætt að eiga tengslanet í ólíkum iðnaði en því sem þú starfar og hrærist í sjálfur daglega. Að sækja innblástur og lærdóm til að vaxa bæði faglega og persónulega. Í dag rek ég mitt eigið ráðgjafarfyrirtæki, Sólveig Ráðgjöf, www.solveig.is, og þá er gott tengslanet ómetanlegt.“

Skólastyrkur í Bandaríkjunum

Aðspurð hvað sé hennar stærsti persónulegi sigur segir Sólveig eftirfarandi: „Faglega hef ég tamið mér að vera jákvæð og bjartsýn og fagna öllum sigrum. Ég á marga persónulega sigra í gegnum tíðina: Útskrift úr krefjandi verkfræðinámi, fá skólastyrk til að klára MBA-námið mitt í Bandaríkjunum, fá tækifæri til að vinna í alþjóðlegu fyrirtæki, stöðuhækkanir og/eða ný tækifæri í starfi hjá mismunandi fyrirtækjum á ferlinum, stjórnunarstöður og síðast en ekki síst að stofna mitt eigið ráðgjafarfyrirtæki, Sólveig Ráðgjöf.“