Félag kvenna í atvinnulífinu er félag sem hefur vigt, er hreyfiafl og hefur áhrif. Sýnileiki félagsins er mikill og á sama tíma og við erum að gleðjast á afmælisári félagsins og á stórglæsilegri Viðurkenningarhátíð í dag þá er hugur minn, hugur okkar allra, hjá þeim sem eiga um sárt að binda um heiminn allan.
Grindavík er ofarlega í huga okkar og það er þakklæti fyrst og fremst sem einkennir þessar fyrstu vikur ársins hjá mér að geta verið heima hjá mér og tekið utan um fólkið mitt í friði enda forréttindi. Þvílík vika sem sumir dagar eru á tímum sem þessum, fordæmalausir tímar sem virðist nú talið reglulegt og jafnvel daglegt ástand.
Það er mikill kostur að vera með liðugan kjálka sem framkvæmdastjóri FKA, margir fundir og mikið um að vera og mér finnst fátt skemmtilegra en að taka sprett með konum sem við heiðrum á Viðurkenningarhátíð FKA ár hvert og er full eftirvæntingar fyrir hátíðinni sem er á Hótel Reykjavík Grand í dag þar sem þið eruð hjartanlega velkomin.
FKA er gjarnan uppspretta góðs og alvöruhreyfiafl, líkt og Jafnvægisvogarráðstefna okkar, sem er startkapall fyrir samfélagsumræðuna um kynjajafnrétti ár hvert, og Sýnileikadagur, Mentorverkefni og viðburðir deilda og nefnda sem hafa gjarnan áhrif á samfélagsumræðuna og þannig má lengi telja.
Og konurnar sem stofnuðu FKA og allar þær sem við stöndum á öxlunum á eiga sannarlega stað í hjarta
okkar. Það sjá ekki öll fagurfræði jafnréttis eins, en það gerir fólk sem ég er svo heppin að vinna með í gegnum FKA, einstaklingar þarna úti sem vita að jafnrétti er ákvörðun og ég er þakklát fyrir.
Sérstakt þakklæti vil ég senda félagskonum sem hafa gefið af sér til stjórnar- og nefndarstarfa frá upphafi og öllum þeim sem hafa lagt félaginu lið á hverjum tíma. Það er misjafnt hvað félagskonur vilja fá frá félaginu og gefa af sér en eitt er víst; það er pláss fyrir okkur allar. Við hvetjum nýjar konur til að stimpla sig inn og þær sem eru og hafa einhvern tímann verið í FKA að fylgjast vel með afmælisdagskránni og láta sjá sig sem oftast.
Það verður Sýnileikadagur FKA í Arion banka í lok febrúar, Mentorverkefnið er á fullu, við fögnum á Alþjóðadegi kvenna í mars, farnar verða ferðir, við fáum kynningu, förum í fyrirtækjaheimsóknir, golf, fjallgöngu og þannig má lengi telja. Þá er mikilvægt að fjárfesta í sér og leyfa sér að eiga áhugamál og ég hvet konur til að gera nákvæmlega það.
Það hallar enn á konur og á Íslandi er samkvæmt mælingum langt í land með að loka kynjabilinu hvað viðkemur fjölda kvenna við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Persónulega finnst mér spennandi að breyta sóknarleiknum eins og við þurfum að gera og þá með fjölmargar breytur í formúlunni.
En til skemmri tíma litið er að heiðra konur á Viðurkenningarhátíð FKA í dag – hlökkum til að sjá ykkur þar!
Andrea Róbertsdóttir framkvæmdastjóri FKA