Arðsemi eigin fjár íslenska bankakerfisins er sú lægsta á Norðurlöndum og sú sjötta lægsta á EES-svæðinu. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Evrópska bankaeftirlitinu (EBA). Meðalarðsemi bankakerfa á EES-svæðinu var á þriðja fjórðungi síðasta árs 15,8 prósent en meðalarðsemi allra banka í Evrópu var 10,9 prósent. Meðalarðsemi bankakerfa var hæst í Ungverjalandi, eða 28,4 prósent, 11,8 prósent á Íslandi en lægst í Þýskalandi, 7,0 prósent.
Þá taka tölurnar ekki tillit til þess að hér eru almennt vextir, verðbólga og hagvöxtur meiri en víðast hvar í Evrópu, sér í lagi annars staðar á Norðurlöndum. Þannig er áætlað að hagvöxtur innan ESB hafi verið 0,6 prósent á árinu 2023 á meðan vænt er að hagvöxtur hér á landi hafi verið 3,7 prósent, sem er meira en í öllum ríkjum ESB fyrir utan Möltu.
Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að tölurnar sýni að umræða um óeðlilega háa arðsemi og ofurhagnað eigi ekki við rök að styðjast. Arðsemi hér á landi hafi verið undir meðaltali annarra Evrópulanda frá árinu 2018.
Víða erlendis hafi aukin arðsemi myndast vegna verulegrar aukningar hreinna vaxtatekna, ekki síst vegna þess að innlánsvextir hafi ekki fylgt hækkandi stýrivöxtum. Það hefur ekki verið reyndin hér á landi.
„Nú um stundir er arðsemin í samræmi við þau markmið sem eigendur bankanna hafa sett þeim, en þar er ríkið umsvifamest með um helmingseignarhlut í bankakerfinu og þar á eftir koma íslenskir lífeyrissjóðir. Arðsemi íslensku bankanna er almennt nokkuð lægri en annars staðar á Norðurlöndunum þrátt fyrir að hagvöxtur hér á landi hafi almennt verið meiri,“ segir Heiðrún og bætir við að benda megi á að íslensku bankarnir séu að keppa við mun stærri erlenda banka sem búi ekki við jafn íþyngjandi sértæka skattbyrði og jafnháar eiginfjárkröfur, þegar kemur að lánum í erlendri mynt.
„Sama má segja um samkeppni við lífeyrissjóði á húsnæðislánamarkaði hér á landi enda lífeyriskerfið stærra en bankakerfið mælt í heildareignum,“ segir Heiðrún.