Nú eru allar líkur á að Biden og Trump keppi aftur um forsetaembættið

Á Íslandi er rólegt yfir undirbúningi forsetakosninga sem fram fara 1. júní. Alþingi ætlar þó að gera hlé á dagskrá sinni í um tvær vikur til að gefa frambjóðendum nægan tíma til að kynna sig. Þessu er töluvert ólíkt farið í Bandaríkjunum, þar sem baráttan tekur nær tveimur árum og er nú fyrir nokkru komin á fulla ferð þó að ekki sé kosið fyrr en í nóvember.

Þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart, Bandaríkin eru margfalt fjölmennari og stærri og þar er líka meira undir; forsetinn valdamikill og Bandaríkin heimsveldi. Þó er það yfirleitt þar, líkt og hér, að innlend málefni ráða mestu um niðurstöðu kosninga.

Myndin vestra er aðeins tekin að teiknast upp og nú standa líkur til þess að frambjóðendur verði þeir sömu og síðast en hafi skipt um hlutverk. Litlar líkur eru á að keppinautur Trumps fyrrverandi forseta eigi möguleika í forvali repúblikana og hjá demókrötum er enginn sem á raunhæfan möguleika á að keppa við Biden forseta.

Þetta er í senn óvenjuleg og sérkennileg staða og ekki eru allir Bandaríkjamenn spenntir fyrir þessu endurtekna efni. Það breytir þó engu um að líkur standa til þess að sömu menn keppi og síðast. Og þá skiptir líklega engu máli heldur þó að forsetinn sé sjáanlega tekinn að daprast á margan hátt, demókratar hafa sýnt að þeir hafa lag á að fela það nægilega fyrir kjósendum til að líklegt er að hann verði frambjóðandi þeirra í nóvember.

En þó að innlend málefni ráði oftast mestu og geri það ef til vill líka nú má ætla að veikleikar Bidens í utanríkismálum komi til með að veikja hann enn frekar en orðið er. Drjúgur meirihluti landsmanna segist ósáttur við það hvernig hann hefur haldið á utanríkismálum, sem er áfall fyrir mann sem hefur fengist við þau áratugum saman og talið þá reynslu til styrkleika.

Veikleikarnir á því sviði tala þó sínu máli og stendur þar upp úr glappaskotið við að hverfa frá Afganistan, sem verður lengi í minnum bandarísku þjóðarinnar – og því miður annarra líka enda hefur órói aukist í heiminum meðal annars vegna þess veikleika sem Bandaríkin sýndu þar.

Þetta hefur svo í umræðunni vestra ítrekað verið tengt við ótrúlegan veikleika forsetans í að taka á straumi ólöglegra innflytjenda á suðurlandamærum ríkisins. Sá straumur hefur í tíð Bidens orðið algerlega stjórnlaus og áhrif hans eru farin að finnast víða um Bandaríkin. Mistök Bidens í þeim efnum gætu hæglega orðið til að fella hann í haust, enda sættir almenningur sig ekki við stjórnleysi á þessu sviði til lengdar, hvorki í Bandaríkjunum né annars staðar.