Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
„Íslensk yfirvöld vinna að því að ná samningum um að hér gildi sömu reglur og í stórum hluta Evrópu þar sem flugfélög þurfa að skila…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Íslensk yfirvöld vinna að því að ná samningum um að hér gildi sömu reglur og í stórum hluta Evrópu þar sem flugfélög þurfa að skila svokölluðum PNR-upplýsingum um farþega. Unnið er að lausn málsins og vonumst við til þess að það gerist fljótlega.“ Þetta segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra spurð hvernig ráðuneytið muni bregðast við því ástandi sem við er að eiga á landamærunum á Keflavíkurflugvelli, þar sem tíu nafngreind flugfélög afhenda lögregluyfirvöldum ekki lista yfir farþega.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur þungar áhyggjur af ástandinu og segir farþegaeftirlit í skötulíki. Hending ráði hvort brotamenn séu stöðvaðir á landamærunum. „Eftir stendur að beita þeim úrræðum sem lög mæla fyrir um ef ákjósanleg niðurstaða fæst ekki í málinu,“ segir Guðrún.

Þórunn Reynisdóttir forstjóri Úrvals Útsýnar segir ekki standa á þeim varðandi flugfélagið NEOS sem er í leiguflugi á vegum ferðaskrifstofunnar. Málið sé flóknara. Forsvarsmenn flugfélagsins hafi margoft bent íslenskum stjórnvöldum á nauðsyn þess að undirrita PNR-samning.

„Evrópusambandið bannar flugfélögunum að afhenda umræddar persónuupplýsingar nema umræddur samningur verði gerður,“ segir Þórunn. „Stjórnvöld verða að gyrða sig í brók og skrifa undir samninginn svo unnt sé að skila gögnunum til yfirvalda.“

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson