Margrét Sigurjóna Sigurðardóttir, Sigga Magga, fæddist 9. júní 1944. Hún lést 14. janúar 2024.

Útför hennar fór fram 25. janúar 2024.

Fáein kveðjuorð um samstarfskonu, Margréti Sigurjónu, Siggu Möggu eins og hún var ávallt kölluð. Hún var ættuð frá Fitjum í Lýtingsstaðahreppi og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Hún fór snemma að vinna heima á Fitjum. Hún vann síðan ýmis störf, sláturhúsvinnu á haustin, fiskvinnu, verslunarstörf, sem dagmamma og við umönnun fatlaðra. Alls staðar vel liðinn og góður starfskraftur.

Ég kynntist Siggu Möggu fyrir rúmum 50 árum, þá bjuggum við báðar á Smáragrundinni á Sauðárkróki, þar var hennar heimili til æviloka. Hún bjó í einbýlishúsi með stórum garði sem hún hirti vel um, sáði og ræktaði sumarblóm og var með matjurtir. Sigga Magga vann mikið með okkur Steinunni við veitingar bæði í félagsheimilinu Ljósheimum og Safnaðarheimilinu á Sauðárkróki. Hún var góður starfskraftur, dugleg, þrifin og úrræðagóð. Áttum við þar góðar stundir, oft gaman hjá okkur í lok dags þegar sest var niður og spjallað. Sigga Magga hafði hárbeittan húmor, sagði skemmtilega frá. Hún kom ekki svo í heimsókn að hún hefði ekki prjónana með sér.

Síðustu ár voru Siggu Möggu erfið. Hún þurfti að nota súrefni, auk þess sem hún var bakveik. Það hentaði þessum hörkunagla illa að missa orku og þrek og geta ekki gert það sem hún vildi.

Síðustu vikur dvaldi hún á Heilbrigðisstofnun NLV á Sauðárkróki og andaðist þar að kvöldi sunnudagsins 14. janúar.

Ég kveð Siggu Möggu með þökk fyrir samstarf og samfylgd. Góða ferð í sumarlandið. Sjáumst síðar.

Aðstandendum votta ég mína dýpstu samúð.

Sigrún Aadnegard.