Sigrún var fædd á Hömrum í Dölum vestur 22.9. 1922. Hún lést 4. janúar 2024, 101 árs að aldri á Hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði.

Foreldrar hennar voru Þorsteinn Jónsson, f. 1874, d. 1966 og Jóna Elín Snorradóttir, f. 1896, d. 1971. Systkini hennar voru Guðjón, f. 1906, Unnur, f. 1910, Guðlaug, f. 1926, Ragnar, f. 1928, Hermann, f. 1929 og Inga, f. 1938. Hermann lifir systur sína.

Hún ólst upp hjá foreldrum sínum, þar sem þau bjuggu í Dölunum, lengst af á Svalbarði í Miðdölum. Skólaganga var lítil. Farskóli var í þá daga, kennt á bæjunum. Hún var vel gefin, sjálfmenntuð á mörgum sviðum. Sigrún vann á Símstöðinni í Búðardal fyrir tvítugt.

Fyrri maður hennar var Vilhjálmur Friðriksson, f. 1920. Hann er látinn. Þau bjuggu á Svínhóli í Miðdölum í fáein ár. Börn þeirra eru: 1) Dagný Heiða, f. 1942, maki Valur Heiðar Einarsson. 2) Friðjón Ágúst, f. 1944, maki Guðrún Jóhannesdóttir. 3) Jón Steinar, f. 1945, maki Ingibjörg Jónsdóttir, hún er látin. 4) Una, f. 1949, maki Gunnar Þórisson, látinn. Leiðir Sigrúnar og Vilhjálms skildi.

Seinni maður hennar var Ársæll Hannesson, bóndi á Stóra-Hálsi í Grafningi. Þau bjuggu þar blönduðu búi í 65 ár. Áttu fjögur börn sem eru: 1) Ásdís Lilja, f. 1955, maki Örn Ragnarsson. 2) Dóra Bryndís, f. 1957, maki Magnús Haraldsson. 3) Hannes Grétar, f. 1958, maki Jónína Júlíusdóttir.

Yngstur er 4) Guðgeir Eiður, f. 1960.

2019 veiktust Sigrún og Ársæll af lungnabólgu snemma árs. Voru bæði um tíma á Sjúkrahúsinu Selfossi, en fengu pláss á Hjúkrunarheimilinu Ási Hveragerði. Ársæll lést 2020.

Afkomendur eru orðnir 70 talsins.

Útför hennar fór fram í kyrrþey að hennar ósk.

Hún hvílir við hlið eiginmannsins í Úlfljótsvatnskirkjugarði.

Elsku mamma!

Nú skal reynt að skrifa fátækleg kveðjuorð. Það er alltaf jafn erfitt að kveðja, sama hvað aðdragandinn er langur, því það var hann svo sannarlega.

Nú skal tipla á því, sem kemur í hugann frá liðnum árum. Örlögin buðu þér upp á mismikil átök í tilverunni. Það var strembinn tími hjá ykkur pabba, enginn dans á rósum. Basl er búskapur stendur einhvers staðar, sem reyndist hjá ykkur. Ég er elst af fjórum börnum sem þið áttuð saman. Endaði með að leiðir skildi. Það hefur verið hræðilegur tími fyrir unga móður, að sjá á eftir ungum börnum sínum hverju á sinn staðinn, þótt hjá góðu fólki væri, og barnshafandi að því yngsta. Þar sýndir þú kjark og dugnað. Áfram var haldið. Á þessum tíma var engum hjálpað af því opinbera! Fannst hamingjuna þegar þú kynntist þínum aðallífsförunaut (Sæla). Fluttir til hans með dóttur þína og þar hófst nýtt líf. Af dugnaði var byggt upp á Stóra-Hálsi, reist nýtt íbúðarhús, gripahús af öllum gerðum, tún ræktuð, sem var átak og tókst. Börnin urðu fjögur, þannig að við systkinin erum átta. Það eru plúsar og mínusar í lífinu, sem flestir fá að kynnast, mismikið.

Þegar ég kynntist mínum manni, við byrjuðum okkar líf, áttum börn og buru, þá reyndust þið Sæli okkur vel. Börnin okkar fjögur fengu að kynnast sveitinni, mismikið þó. Sá elsti mest. Sum sumarfríin voru hjá ykkur, þá tekinn þáttur í sumarstörfum af ýmsum toga. Þá var marga munna að metta. Kær minning. Eitt verð ég að minnast á. Það er hvað mamma var mikil hannyrðakona. Prjónaði ótal peysur í alls konar útgáfum og ég má ekki gleyma öllum rósavettlingunum sem allir á mínu heimili fengu, af öllum stærðum og gerðum.

Síðustu árin eru búin að vera erfið, heilsu hrakað, geta minnkað. Þið Sæli enduðuð á sjúkrahúsi með lungnabólgu og þaðan á Hjúkrunarheimilið Ás í Hveragerði. 2020 misstir þú Sæla frá þér. Síðan er búinn að vera erfiður tími hjá þér elsku mamma mín. Þessi síðustu ár hafa verið okkur mikils virði. Við systkinin deildum vikudögunum á milli okkar eins og hægt var í heimsóknir til þín. Þá urðu kynnin af öðrum toga. Umræðuefni varð fátæklegra þegar frá leið. Fórum að ráða krossgátur, þar var mamma sterk áður fyrr og rifjuðum við upp mörg orð, gamanstundir. Að síðustu fór ég að lesa fyrir hana stuttar sögur og skrítlur, sem henni þótti gaman að. En síðast og ekki síst voru lesnar vísur úr bókum eftir Pétur frænda, sem hún mat mikils. Sjón og heyrn var farin að mestu leyti og þá um leið spjallfærni.

Elsku mamma! Nú ertu kært kvödd af okkur Val og afleggjurum okkar.

Með hjartans þakklæti fyrir allt og allt.

Góða nótt – sofðu rótt.

Þín

Heiða og Valur.