Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Náttúruhamfaratryggingasjóður Íslands (NTÍ) gæti á öðrum virka degi eftir atburð innleyst um 67 prósent af eignasafni sínu og á fimmta virka degi yrðu tæplega 99 prósent af safninu innleysanleg. Sjóðurinn er með mjög hreyfanlegt eignasafn að því er fram kemur í skýrslu stjórnar í ársreikningi vegna ársins 2022. Slík innlausn myndi vafalaust hafa nokkur áhrif á markaðinn á Íslandi og því má ætla að hún færi ekki fram á svo skömmum tíma í reynd.
Eignir sjóðsins skiptast þannig að rúmlega helmingur eða 34,9 milljarðar króna er í innlendum skuldabréfum og innlánum. Næststærsti eignaflokkur sjóðsins eru erlend hlutabréf og innlán í erlendri mynt eða um 16,7 milljarðar króna. Um 7,7 milljarðar króna eru í erlendum hlutabréfum og um 1,6 milljarðar króna í innlendum hlutabréfum.
Staðan óljós
Tryggingasjóðurinn er fjármagnaður með iðgjöldum fyrir náttúruhamfaratryggingar og fjárfestingatekjum af eignasafni NTÍ. Eigendur allra brunatryggðra húsa á Íslandi greiða iðgjald sem nemur 0,02% af brunabótamati árlega og eru iðgjöldin innheimt af almennu vátryggingafélögunum, samhliða innheimtu iðgjalda fyrir brunatryggingar. Heildariðgjaldatekjur á síðasta ári námu ríflega fjórum milljörðum króna, en kostnaður vegna endurtrygginga nam tæplega 800 milljónum króna að því er fram kemur í ársreikningi sjóðsins.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri NTÍ, segir í skriflegu svari til Morgunblaðsins að þar sem tímalína og umfang tjónsins og vænts tjóns í Grindavík séu óljós og ekki liggi fyrir nákvæmlega með hvaða hætti verði staðið að innlausn eigna geti sjóðurinn ekki tjáð sig nánar um með hvaða hætti losað yrði um eignir.
Ljóst er að umfangsmikil losun eigna sjóðsins myndi hafa áhrif á innlenda markaði, eftir tilvikum skuldabréfa-, hlutabréfa- eða gjaldeyrismarkað. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur NTÍ átt í samskiptum við Seðlabankann og fjármálaráðuneytið varðandi mögulega losun eigna og mun slílk losun, ef til hennar kemur, fara fram í samráði við þessa aðila.
Erfitt að áætla
Valdimar Ármann, fjárfestingastjóri A/F Rekstraraðila, segir að þar sem óljóst sé hversu mikið af tjóni lendi á sjóðnum sé erfitt að segja til um hversu mikið fjármagn hann þurfi að losa eða hvaða áhrif það hefði á markaðinn.
„Eins og staðan er núna er búið að tjónameta 25 hús samkvæmt fréttum, þannig að fjárhæðirnar eru ekki stórar enn sem komið er. Ef bærinn yrði metinn óíbúðarhæfur þá hefur komið fram að húsnæði á því svæði sé ekki tjón í augum sjóðsins. Þannig að eins og staðan er núna virðist sem sjóðurinn þurfi ekki að losa mikið af eignum.“
Valdimar segir að ef til þess kæmi að sjóðurinn þyrfti að losa mikið af eignum væri spurning hvaða eignir hann ákvæði að selja fyrst. T.d. gæti það haft umtalsverð áhrif á íslensku krónuna ef mikið af erlendum eignum yrði selt.
„Sjóðurinn myndi selja gjaldeyri og kaupa krónur, sem hefði áhrif til styrkingar krónunnar. Ef hann myndi selja innlendar eignir þá eykst verulega framboð af skuldabréfum þar sem eignasafn sjóðsins innanlands er að mestu í skuldabréfum. Það hefur undanfarið verið mikið framboð af skuldabréfum,“ segir Valdimar og bætir við að búið sé að gefa út skuldabréf fyrir 33 milljarða í janúar og til viðbótar fer fram ríkisskuldabréfaútboð hjá Lánamálum í dag.
„Það er svo spurning hvernig markaðurinn tekur á móti því framboði. Það verður líklega að koma í ljós.”
Áhrifin keimlík
Valdimar segir að það skipti litlu máli hvort ríkið noti eignir NTÍ til að fara í uppkaup á húsum í Grindavík eða fari í skuldabréfaútgáfu. Áhrifin á markaðinn verði keimlík.
„Þó verður að halda til haga að um 40 prósent af eignum NTÍ eru erlendar eignir þannig að það hefur heldur minni áhrif á markaðinn ef hægt væri að selja þær eignir fremur en þær innlendu.“
Brunabótamat alls íbúðarhúsnæðis í Grindavík er um 73 milljarðar króna og metur NTÍ eignir út frá brunabótamati. Valdimar segir sennilegt að til að gæta jafnræðis muni ríkið líklega þurfa að kaupa eignir einstaklinga út frá brunabótamati fremur en markaðsvirði.
„Annars ertu búinn að setja eigendur þeirra húsa sem orðið hafa fyrir tjóni í aðra stöðu en þá sem fá húsin sín greidd út. Síðan veltir maður fyrir sér hvað gerist með atvinnuhúsnæði en heildarbrunabótamat atvinnuhúsnæðis í Grindavík er ríflega 40 milljarðar króna,“ segir Valdimar og bætir við að vert sé að velta fyrir sér hvort það falli undir sömu kröfu.
Dreifa þarf tjóninu
Spurður hvað ríkið þurfi að hafa í huga að hans mati við fjármögnun aðgerða segir hann að hann telji mikilvægt að dreifa tjóninu á mörg ár.
„Það er ekki fýsilegt að nota hvalrekaskatt eða eitthvað slíkt til að fjármagna þetta. Það þarf að taka langtímalán eða selja eignir og dreifa tjóninu. Þetta er samtryggingarmál en ekki útgjaldamál, þó svo að endurgreiðsla lánsins muni að sjálfsögðu hafa áhrif á rekstur ríkissjóðs,“ segir Valdimar að lokum.