Éljagangur Vetrarlegt var um að litast í vesturbæ Reykjavíkur í gær.
Éljagangur Vetrarlegt var um að litast í vesturbæ Reykjavíkur í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Veðurguðirnir minntu nokkuð harkalega á sig í fyrrinótt og gærmorgun þegar kröpp lægð fór yfir landið með mjög hvassri sunnanátt þar sem vindstyrkurinn fór upp í 25 metra á sekúndu. Veðrinu fylgdi ýmislegt kunnuglegt fyrir landsmenn eins og snjókoma …

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Veðurguðirnir minntu nokkuð harkalega á sig í fyrrinótt og gærmorgun þegar kröpp lægð fór yfir landið með mjög hvassri sunnanátt þar sem vindstyrkurinn fór upp í 25 metra á sekúndu.

Veðrinu fylgdi ýmislegt kunnuglegt fyrir landsmenn eins og snjókoma sem gerði vegi illfæra en einnig sjaldgæfari fyrirbæri á borð við eldingar. Flugturninn á Keflavíkurflugvelli tilkynnti um þrumur og eldingar klukkan 2 um nóttina og svo fór að rafmagnslaust varð á Suðurnesjum í gær. Suðurnesjalína 1 leysti út hjá Landsneti og þegar Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets ræddi við mbl.is í gær voru allar líkur taldar á að eldingu hefði slegið niður í línuna og það valdið rafmagnsleysinu.

Íbúar Reykjavíkur fundu einnig fyrir afleiðingunum og sló rafmagni út í miðborginni og nágrenni um miðjan dag í gær. Varði rafmagnsleysið í um tuttugu mínútur.

Mörg umferðaróhöpp

Margir lentu í vandræðum í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu síðdegis. Í efri byggðum myndaðist glerhálka og urðu tugir umferðaróhappa. Ekki urðu alvarleg slys á fólki eftir því sem blaðið kemst næst en vegna færðar og margra árekstra urðu geysilegar tafir í umferðinni.

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætós sagði gríðarlegar seinkanir hafa orðið hjá Strætó vegna þessa.

„Það verður bara að segjast eins og er, að því miður eru margir bílar illa búnir til vetraraksturs,“ sagði Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar. Bætti hann við að þegar mörg óhöpp yrðu á álagstímum í borginni mynduðust flöskuhálsar í umferðinni sem ekki losnaði um fyrr en eftir tvo til þrjá tíma.

Vetrarveður um helgina

Að sögn Haraldar Eiríkssonar veðurfræðings á Veðurstofunni er ekki útlit fyrir mikil læti í veðrinu næstu daga. Vestan við landið sé lægð sem dæli til okkar suðvestanáttum og éljum eða snjókomu sem sé ekki óeðlilegt á þessum árstíma.

Höf.: Kristján Jónsson