Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
„Við höfum sagt ýmislegt við þessu. Þetta er ekki séríslenskt vandamál og að þessu verður að vinda bráðan bug,“ segir Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra í samtali við Eggert Skúlason í Dagmálum Morgunblaðsins í dag, spurður um…

„Við höfum sagt ýmislegt við þessu. Þetta er ekki séríslenskt vandamál og að þessu verður að vinda bráðan bug,“ segir Jón Gunnarsson fyrrverandi dómsmálaráðherra í samtali við Eggert Skúlason í Dagmálum Morgunblaðsins í dag, spurður um ástandið á landamærunum á Keflavíkurflugvelli í ljósi þess að tíu flugfélög afhenda ekkki íslenskum yfirvöldum skrá yfir þá farþega sem með þeim fljúga hingað til lands.

„Við verðum að grípa til ráðstafana. Við erum aðilar að Schengen og ég velti því oft fyrir mér hvort við ættum að endurskoða þá afstöðu í ljósi aðstæðna. Það verður ekki horft fram hjá því að Schengen er líka að gefa okkur mikilvægar upplýsingar þegar kemur að skipulagðri brotastarfsemi og það er sérkapítuli hvernig hún er að vaxa í okkar samfélagi,“ segir Jón.

„Við eigum að loka á þetta og beita öllum ráðum. Við eigum að efla lögregluna og gefa henni allar þær heimildir sem eðlilegt er að gefa til þess að auka möguleikana á að vinna gegn þessu. Hérna erum við að horfa á stórhættulega þróun í íslensku samfélagi. Við erum með viðvaranir frá lögreglunni í Skandinavíu sem segir við okkur: Þið verðið að grípa til ráðstafana. Straumurinn liggur til Íslands því kerfið er of veikt og þið lendið í sömu stöðu og við eftir nokkur ár ef þið grípið ekki til ráðstafana,“ segir Jón.

„Skipulögð brotastarfsemi á sér margar hliðar. Hún tengist eiturlyfjum, peningaþvætti og mansali og við horfum á þetta vera að gerast hér á Íslandi í dag,“ segir Jón og hann hafi tekið þessar viðvaranir alvarlega þegar hann gegndi embætti dómsmálaráðherra.