Skothelt Jónas Ásgeir (t.h.) segir þá Andrew Power hafa smollið saman þegar þeir voru við nám í Danmörku.
Skothelt Jónas Ásgeir (t.h.) segir þá Andrew Power hafa smollið saman þegar þeir voru við nám í Danmörku. — Ljósmynd/Niklas Ottander
Tvíeykið Ekki minna og upptökustjórinn Sebastian Vinther Olsen halda útgáfutónleika fyrstu plötu sinnar, No More No Less, á Myrkum músíkdögum í dag klukkan 16 í Kaldalóni Hörpu. Er þetta í annað sinn sem tvíeykinu er boðið að koma fram á hátíðinni…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Tvíeykið Ekki minna og upptökustjórinn Sebastian Vinther Olsen halda útgáfutónleika fyrstu plötu sinnar, No More No Less, á Myrkum músíkdögum í dag klukkan 16 í Kaldalóni Hörpu. Er þetta í annað sinn sem tvíeykinu er boðið að koma fram á hátíðinni en það samanstendur af þeim Jónasi Ásgeiri Ásgeirssyni harmóníkuleikara og breska sellistanum Andrew Power.

Á nýju plötunni kynna þeir verk sem eru sérstaklega samin fyrir þá eftir Áslaugu Rún Magnúsdóttur, Miu Ghabarou og Mads Emil Dreyer ásamt verkum eftir brautryðjendurna Christian Winther Christensen og Johannes Kreidler sem aldrei hafa verið hljóðrituð. Þá skapar tvíeykið gjarnan ný verk með nánu samstarfi við tónskáld með hrárri tilraunamennsku án takmarkana að sögn Jónasar Ásgeirs.

Fara viljandi um víðan völl

„Platan endurspeglar svolítið samstarf okkar í gegnum árin og okkar hugsjón bak við tvíeykið er að vera með mjög opinn huga og ekki vera að njörva okkur niður við einhverja ákveðna tónlistargrein eða -stefnu,“ segir Jónas Ásgeir. Segir hann þá félaga báða hafa fengið klassíska tónlistarmenntun og spila klassíska nútímatónlist. „Við viljum endilega reyna að brjóta niður allt sem njörvar okkur niður sem klassíska tónlistarmenn. Við viljum því reyna á öll mörk og fara út fyrir þægindaramma og spila eins fjölbreytta tónlist og við getum. Eins að leyfa tónlistinni að tala saman þvert á tónlistargreinar og jafnvel listgreinar.“

Bætir Jónas Ásgeir því við að á plötunni spili þeir félagar klassíska nútímatónlist með naumhyggjumínímalisma-ívafi frá Danmörku sem sé skeytt saman við miðevrópska framúrstefnu. „Mun módernískari og harkalegri getum við sagt og svo erum við einnig með íslenskt raftónlistarívaf í verkinu hennar Áslaugar sem er miklu meiri innblástursþáttur í raftónlist. Svo að lokum erum við með lítið sönglag eftir Schubert í okkar eigin útsetningu sem er vísun í eitt af dönsku verkunum. Þannig að við förum um mjög víðan völl með vilja, getum við sagt.“

Smullu strax saman eins og hönd og hanski

Samstarf tvíeykisins hófst þegar báðir voru nemendur við Konunglega danska tónlistarháskólann og voru beðnir að flytja verk sem var sérstaklega samið fyrir selló og harmóníku. „Það var ljóst frá fyrstu æfingu að þetta svínvirkaði, bæði frá persónulegum grundvelli og tónlistarlegum. Við áttum svo vel saman því það var svo auðvelt að vinna saman og við komumst einhvern veginn að sömu niðurstöðu án þess svo mikið sem tala saman. Þannig að frá fyrstu stundu var þetta mjög gjöfult samstarf svo við ákváðum strax að halda því áfram.“

Eins og eitt og sama hljóðfærið

Inntur eftir því hvernig hljóðfærin tvö, harmóníka og selló, fari saman svarar Jónas Ásgeir því til að þau hljómi stundum eins og eitt og sama hljóðfærið sem sé alveg stórkostlegt.

„Öfugt við píanó og selló þá hljóma harmóníkan og sellóið miklu meira saman. Maður fær ýmsar hugvekjur frá harmóníkunni og þau eiga meira sameiginlegt sem þýðir að við getum myndað eina heild úr báðum hljóðfærunum, á auðveldari máta en kannski önnur hljóðfæri myndu gera. Þannig að stundum hljómum við alveg eins og ein heild, sem er hvorki harmóníka og selló né bara harmóníka eða bara selló, heldur kemur einhver ný heild úr þessum tveimur hljóðfærum sem er ekki auðvelt að aðskilja,“ segir hann og bætir við að það komi sérstaklega skýrt fram í einu verkinu á plötunni eftir Mads Emil Dreyer. „Þar erum við að spila alveg nákvæmlega sömu tóna, langa tóna sem blandast saman, og á endanum skiljum við varla hvor er að spila hvað. Okkur fannst einstaklega skemmtilegt að upptökustjórinn, sem tók upp plötuna, sagði að ástæðan fyrir því að hann vildi vinna með okkur væri að sér fyndist svo áhugavert hvernig hljóðfærin hljómuðu stundum eins og þau væru alveg sameinuð en á öðrum stundum eins og þau væru hvort á sínum pólnum að berjast um athyglina. Það var fjölbreytni sem hann var svo hrifinn af og platan sýnir vel.“

„Sjálfmeðvitað sérkennilegir“

Þar sem tvíeykið er þekkt fyrir að skapa án skilgreininga og útvíkka harmóníku- og selló-samstæðuna lengra en hljóðfærin leyfa voru þeir félagar eitt sinn kallaðir „self-consciously quirky“ eða á íslensku „sjálfmeðvitað sérkennilegir“ af gagnrýnanda. Blaðamanni leikur heldur betur forvitni á að heyra meira af því. „Þessi tilvitnun kom eftir tónleikana okkar á Myrkum músíkdögum árið 2020. Á þeim tónleikum vorum við að gera ýmislegt mjög fjölbreytt og margt utan við tónlistina. Við vorum bæði að dansa og vorum með verk þar sem við vorum að skrifa á pappír, setja hátalara upp að tönnunum okkar og fingurgómunum svo þetta var mikil blanda af ýmsu tónlistarlegu og ekki tónlistarlegu. Þannig að þessi sérkennilegheit sem þessi gagnrýnandi var svo hrifinn af koma þaðan,“ segir Jónas Ásgeir til útskýringar og hlær.

Vilja fara í tónleikaferðalag

Þá verða einungis þessir einu tónleikar með tvíeykinu í boði á Myrkum músíkdögum en Jónas Ásgeir svarar þó aðspurður að þeir stefni að því að fylgja plötunni eftir. „Við komum til með að spila þessa útgáfutónleika og svo langar okkur líka að gera eitthvað svipað í Danmörku. Svo væri gaman að taka smá tónleikaferðalag og kynna plötuna, bæði víðar á Íslandi og Danmörku. Það er svona á langtímaplaninu alla vega,“ segir hann og tekur að síðustu fram að mikil tilhlökkun sé fyrir útgáfutónleikunum í dag. „Það er alltaf svo gaman að spila með Andrew og þetta var náttúrlega frábær reynsla þarna á Myrkum músíkdögum 2020. Við sjáum alveg fram á að þessir tónleikar muni toppa það þannig að við hlökkum mikið til.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir