Margverðlaunaður Jon Stewart vann 10 Emmy-verðlaun fyrir þætti sína.
Margverðlaunaður Jon Stewart vann 10 Emmy-verðlaun fyrir þætti sína. — AFP/Brad Barket
Sjónvarpsmaðurinn Jon Stewart, sem þekktur er fyrir beittar háðsádeilur sínar, snýr aftur í The Daily Show fram að forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem fram fara 5. nóvember á þessu ári

Sjónvarpsmaðurinn Jon Stewart, sem þekktur er fyrir beittar háðsádeilur sínar, snýr aftur í The Daily Show fram að forsetakosningunum í Bandaríkjunum sem fram fara 5. nóvember á þessu ári. Frá þessu greindi hann á samfélagsmiðlinum X í fyrradag. Í frétt BBC um málið kemur fram að ákvörðunin hafi komið mörgum á óvart, en níu ár eru síðan Stewart kvaddi þáttinn og Trevor Noah tók við. Noah lét af störfum 2022 og höfðu framleiðendur enn ekki fundið eftirmann hans. Meðan Stewart stýrði þættinum á árunum 1999 til 2015 jukust vinsældir hans til muna jafnt innan og utan Bandaríkjanna.

Samkvæmt upplýsingum frá framleiðendum mun Stewart stýra þættinum alla mánudaga frá og með febrúar og fram að kosningum. Samtímis verður hann einnig aðalframleiðandi þáttarins til 2025.

„Jon Stewart er rödd samtímans og það er okkur mikill heiður að hann snúi aftur í The Daily Show til að hjálpa okkur að greina geðveikina og sundrungina sem stýrir landinu í aðdraganda kosninga,“ segir Chris McCarthy, framkvæmdastjóri MTV Entertainment Studios.