Haraldur Jóhann Jónsson fæddist 21. ágúst árið 1934 á Þverbrekku í Öxnadal. Hann lést 20. janúar 2024 á Hlíð á Akureyri.

Foreldrar hans voru Jón Dísmundur Brynjólfsson, f. 1904, d. 1970, og Sesselja Haraldsdóttir, f. 1913, d. 1957.

Haraldur var næstelstur systkina sinna. Elst var Hólmfríður Jónsdóttir, f. 1933, d. 1980, þá Eiríkur Brynjar Jónsson, f. 1936, d. 1994, Tryggvi Berg Jónsson, f. 1937, Hjördís Dísmundsdóttir, f. 1939. Samfeðra systur: Sigrún Hjördís Jónsdóttir, f. 1939, og Ragnheiður Bryndís Jónsdóttir, f. 1939, d. 2017. Sammæðra bræður: Sigurður Mikael Jenssen Margeirsson, f. 1948, og Magnús Georg Jensen, f. 1950.

Haraldur kvæntist 1957 Ágústu Aðalheiði Hallgrímsdóttur, þau slitu samvistir 1958. Dætur þeirra eru: 1) Bergþóra Halla, f. 1956. Fyrrv. eiginmaður Kristján Friðrik Ármannsson, f. 1952, börn: a) Þórunn Ágústa, f. 1975, gift Þórði Guðna Hreinssyni, f. 1965, þeirra börn eru Ragnhildur Halla, f. 2000, og Kristján Hreinn, f. 2006. Fyrir átti Þórunn Ágústa soninn Dag Inga, f. 1994, barnsfaðir Sigursveinn Hreinsson, f. 1973. b) Silvia Björk, f. 1977, fyrrv. eiginmaður Hróbjartur Lúthersson, f. 1972, þeirra börn eru Lúther Fannar, f. 2012, og Emma Ósk, f. 2014. c) Ármann Ólafur, f. 1987, sambýliskona Hugrún Ína Högnadóttir, f. 1989. d) Sveinhildur Rún, f. 1990, gift Rafael Jóni Gunnsteinssyni, f. 1981, börn: Maríus Ármann, f. 2017, og Ívan Berg, f. 2022. Fyrir átti Sveinhildur Bjarka Snæ Jónsson Sveinhildarson, f. 2012, barnsfaðir Jón Ólafur Gústafsson, f. 1990. 2) Þórhildur, f. 1957, gift Ólafi Kristni Ármannssyni, f. 1957, börn: a) Ólöf Birna, f. 1985, sambýlismaður Gunnar Víðisson, f. 1990, dóttir þeirra er Sara Karítas, f. 2018. Fyrir átti Ólöf Birna Emilíu Dís, f. 2010, barnsfaðir Júlíus Gunnar Sveinsson, f. 1987. b) Sveindís Ósk, f. 1988, gift Stefáni Guðnasyni, f. 1984, börn: Hildur Birta, f. 2012, Katrín Lea, f. 2016, og Eva Marín, f. 2021.

Haraldur kvæntist 1970 Sveinhildi Sveinsdóttur, f. 1940. Foreldrar Sveinhildar voru Sveinn Guðmundsson, f. 1899, d. 1978, og Ragnhildur Jónsdóttir, f. 1903, d. 1972. Börn Haraldar og Sveinhildar eru: 1) Bjarni Þór, f. 1970, kvæntur Elvu Rún Klausen, börn a) Inga Lind, f. 1994, gift Jörgen Sveini Þorvarðarsyni, f. 1988, börn þeirra eru Pétur Logi Kjerúlf, f. 2012, Ísabella Rún, f. 2014, og Móeiður Sara, f. 2019. b) Ívar Andri, f. 1998, sambýliskona Sigríður Theodóra Sigurðardóttir. c) Hildur Vaka, f. 2001. 2) Ragnhildur, f. 1972, gift Herði Heiðari Sveinssyni, f. 1974, börn: a) Haraldur Kristján, f. 1997, sambýliskona Þóra María Fransdóttir, f. 1997. b) Rebekka Ýr, f. 2007, d. 2007, Lilja Rós, f. 2008, Sveinn Heiðar, f. 2010. 3) Sveinn, f. 1980, sambýliskona Sigríður Dóra Friðjónsdóttir, f. 1967.

Haraldur starfaði sem húsasmíðameistari stærstan hluta starfsævinnar á Höfn í Hornafirði. Hann fór í Iðnskólann á Akureyri 1953 þar sem hann lærði smíðar og tók meistaranámið í Reykjavík. 1960 flutti Haraldur til Hafnar í Hornafirði þar sem hann var með útgerð til 1969. Á Höfn byggði Haraldur svo heimili þeirra hjóna, Hlíðartún 25. Síðustu árin bjuggu þau Sveinhildur á Akureyri.

Haraldur verður jarðsunginn frá Dalvíkurkirkju í dag, 26. janúar 2024, kl. 13.

Elsku pabbi minn.

Það er ekki sjálfgefið af eiga eins góðan föður í eins langan tíma og þig og fyrir það er ég óendanlega þakklátur. Maður kom aldrei að tómum kofunum hjá þér, það var gott að leita til þín með allt undir sólinni.
Réttsýnn, vandvirkur og góður karl. Ég á eftir að sakna þín mikið.

Takk fyrir allt. Takk fyrir gott uppeldi, gott atlæti og öryggi. Takk fyrir að kenna mér góð gildi og að vera almennilegur. Takk fyrir að hvetja mig til náms og dáða. Ég ætla að feta í þín stóru fótspor og gera mitt allra besta.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Þinn sonur,

Bjarni Þór og fölskylda.

Í dag kveðjum við einstakan mann. Ég hef verið svo lánsöm
að eiga hann sem tengdapabba í 32 ár. Frá okkar fyrstu kynnum náðum við vel saman, enda Haraldur einstaklega ljúfur og góður karl. Þegar ég hitti hann fyrst hafði ég verið að keppa í fótbolta í Reykjavík. Mig vantaði far austur á Höfn til að hitta kærastann. Tengdapabbi var í bænum og fannst sjálfsagt að ég fengi far. Sú ferð er ógleymanleg. Aldrei nokkurn tíma hafði ég ferðast um þjóðveginn á jafnmiklum hraða, en leið þó vel. Við höfum stundum hlegið að þessari ferð í gegnum tíðina, en ég var aldrei hrædd með honum í bíl. Við gátum spjallað um heima og geima en það var líka notalegt að sitja í þögn með honum.

Halli bjó yfir einstökum mannkostum, var fróður og víðlesinn. Ég hugsa sérstaklega hlýtt til stundanna sem við áttum saman þegar ég stundaði nám við Háskólann á Akureyri og dvaldi viku í hverjum mánuði hjá tengdaforeldrum mínum. Þvílík og önnur eins lúxusdvöl. Tengdapabbi vaknaði fyrir sjö og útbjó besta hafragraut í heimi handa okkur. Við sátum og spjölluðum yfir grautnum til átta en þá skutlaði hann mér í skólann. Oftast kom hann svo og sótti mig aftur og beið þá dýrindis kvöldmatur sem Sveina hafði eldað. Þegar lotunni lauk hafði Halli keypt handa okkur skemmtilegan bjór til að smakka og fagna lotulokum. Það er ótrúlega skemmtileg minning. Elsku tengdapabbi, ég kveð þig með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir allar okkar góðu stundir. Sjáumst síðar og ég bið að heilsa í Sumarlandið sem við spjölluðum stundum um.

Elva Rún Klausen.

Hjartans afi minn. Þú varst heimsins hlýjastur og þolinmóðastur.

Þegar ég hugsa til þín þá fyllist ég hlýju og þakklæti. Hlýju því þú varst svo innilega hlýr og góður. Hlýju því hjá þér fékk ég hlýjasta knúsið og faðminn. Hlýju því þú gast alltaf yljað okkur með hlýju höndunum þínum og góða hafragrautnum þínum. Hlýju því þú varst alltaf svo þolinmóður. Því þú varst alltaf svo spenntur fyrir okkur krökkunum. Þú gafst þig svo mikið að okkur og sýndir öllu sem við vorum að fást við og segja þér frá einlægan áhuga. Hlýju því þú kallaðir mig alltaf litlu skjátuna þína. Líka þegar ég var unglingur og síðar meir fullorðin kona.

Þakklæti fyrir allar minningar sem ég á með þér. Þegar þú fórst með mig út á sjó á Borgarfirði. Þakklæti fyrir allar sögurnar sem þú sagðir mér. Þakklæti fyrir hlýjuna, ástina og þolinmæðina. Þakklæti fyrir að eiga þig að. Þakklæti fyrir að sjá hversu fallega þú talaðir alltaf við og um ömmu. Þakklæti fyrir allt sem þú sýndir mér og kenndir. Þakklæti fyrir trúna sem þú hafðir alltaf á mér og að finna alltaf hversu stoltur þú varst af okkur.

Þegar ég var unglingur var ég alltaf með myndavélina uppi og á þess vegna óteljandi myndir af ykkur ömmu og frá því að ég var hjá ykkur á Borgarfirði. Myndir sem sýna hráan hversdagsleikann. Þessar myndir minna mig á að njóta þess að vera í núinu. Þær hjálpa mér að muna að við eigum ekki að taka lífinu sem sjálfsögðum hlut. Því einu sinni þegar við fórum út á sjó saman, þá var það allt í einu í síðasta skipti sem við gátum það. Einn daginn var hafragrauturinn sem þú gerðir fyrir mig sá seinasti sem þú gerðir.

Þú varst mesti barnakallinn og þegar ég fer í gegnum þessar myndir þá ertu alltaf að fíflast í okkur krökkunum eða með okkur í faðminum þínum. Þú ljómaðir allur í kringum börn – eitthvað sem ég kannski tók ekki eftir þegar ég var barn sjálf en þegar ég eignaðist mín eigin sá ég það svo skýrt og innilega.

Það er ekki sjálfgefið að eiga svona margar góðar og fallegar minningar með afa sínum eins og við eigum.

En núna, elsku afi minn færðu hvíldina þína. Nú færðu að njóta hafragrautsins, horfa á leiki, smíða og spekúlera. Og eftir stöndum við með stútfullt hjarta af hlýju, þakklæti og söknuði. Hlýju, þakklæti og söknuði sem mun fylgja okkur alla tíð. Ég hugsa alltaf til þín þegar ég sé einhvern vera að smíða og þegar ég geri hafragrautinn á morgnana. Við pössum ömmu fyrir þig. Við förum með hana í bíltúrana ykkar og tökum rifsber fyrir hana.

Hjartans afi minn. Takk fyrir þig. Takk fyrir að sýna mér hvað þolinmæði er. Takk fyrir allt sem þú gafst mér. Hvíldu þig vel.

Takk fyrir allt.

Þín litla skjáta,

Inga Lind.

Hann Halli frændi minn er fallinn frá. Ég man fyrst eftir þessum töffara með pétursskarðið á nýja rauða jeppanum sínum þegar hann kom til að taka litlu frænku sína í ísbíltúr. Ég hef verið fjögurra eða fimm ára. Síðan þá hefur hann verið minn besti og kærasti frændi og okkar lífsleið hefur legið meira og minna saman síðan þá. Hann var mikill fjölskyldumaður og fylgdist alltaf vel með sínu fólki. Þegar ég stofnaði mína fjölskyldu var hann alltaf kæri frændinn sem kom í heimsókn og fylgdist vel með hvað mín börn voru að fást við. Við fjölskyldan vorum einnig tíðir gestir á heimili hans og Sveinu í gegn um tíðina. Hann var mikill höfðingi heim að sækja og fór með okkur í bíltúra og bátsferðir í þeim heimsóknum til að sýna okkur sína heimahaga fyrir austan.

Hjartalag þessara ljúfu og góðu hjóna kom best fram þegar eitt minna barna og fjölskylda bjuggu í næstu götu við þau fyrir nokkrum árum og voru til staðar fyrir þau þegar á þurfti að halda.

Ég minnist elsku frænda með kærleik og gleði og veit að systir hans – mamma mín – tekur honum vel eftir langan aðskilnað.

Ég votta Sveinhildi, Bjarna, Ragnhildi Sveini og Höllu og Þórhildi og þeirra fjölskyldum mína dýpstu samúð.

Jóhanna Kristín
Óskarsdóttir og fjölskylda.