Suðurlandsbraut Hús Hjálpræðishersins er að verða of lítið.
Suðurlandsbraut Hús Hjálpræðishersins er að verða of lítið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Starfsemi Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut hefur vaxið mikið að undanförnu og er húsnæðið að verða of lítið. „Við erum ekki enn búin að sækja um lóðina hérna við hliðina á okkur, en starfsemin er svo mikil að húsnæðið er eiginlega sprungið utan …

Starfsemi Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut hefur vaxið mikið að undanförnu og er húsnæðið að verða of lítið. „Við erum ekki enn búin að sækja um lóðina hérna við hliðina á okkur, en starfsemin er svo mikil að húsnæðið er eiginlega sprungið utan af okkur, segir Ingvi Kristinn Skjaldarson, safnaðarhirðir Hjálpræðishersins í Reykjavík. Hann segir það rökrétt framhald af starfseminni við Suðurlandsbraut að reyna að fá næstu lóð við, en sárlega vanti bæði meira húsnæði og bílastæði. Næstu lóð við hús Hjálpræðishersins var á sínum tíma úthlutað til uppbyggingar mosku.

Ingvi segir starfsemina meðal annars hafa vaxið vegna fjölgunar erlendra flóttamanna á landinu, sem hafa sótt mikið til hersins undanfarin ár. Okkur er annt um að halda áfram með starf okkar og jafnvel opna áfangaheimili fyrir fólk sem er að snúa lífi sínu til betri vegar eftir neyslu.

Ingvi segir að daglega séu 150-200 manns í mat hjá þeim á Suðurlandsbrautinni og í Ásbrú í Reykjanesbæ sé sú tala nánast 200 alla daga, en þar eru erlendir flóttamenn í miklum meirihluta. Spurður hvers vegna herinn hafi ekki sótt um lóðina enn segir hann að allar slíkar ákvarðanir séu teknar af yfirstjórn Hjálpræðishersins í Lundúnum en segist vonast til að það gerist fljótlega. „Ný lóð er á bænaskránni okkar,“ segir Ingvi að lokum. doraosk@mbl.is