Ólafur Ingvi Kristjánsson fæddist í Ytri-Njarðvík 3. júní 1933. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 16. janúar 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Kristján Árni Guðmundsson, f. 7.7. 1906, d. 1.7. 1977, og Guðmundína Ingvarsdóttir, f. 21.8. 1909, d. 11.9. 2005. Systkini Ólafs voru: Kristjana Sjöfn, f. 1932, d. 1933, Sjöfn, f. 1934, Guðmundur Garðar, f. 1935, d. 1972, Sigurgeir Njarðar, f. 1937, Eygló, f. 1942, d. 1996, Edda, f. 1951, og Viðar, f. 1956.

Hinn 12. nóvember 1955 kvæntist Ólafur Aðalheiði Ósk Jónsdóttur, f. 10.11. 1930, d. 1.3. 2005. Foreldrar hennar voru Jón Jónsson og Ragnhildur Helga Egilsdóttir.

Börn Ólafs og Aðalheiðar eru: 1) Garðar, f. 20.6. 1962, sambýliskona hans er Aðalheiður, f. 20.10. 1963. Dóttir hans er Heiða Ósk, f. 28.10. 1986, hún á einn son, Aron Burkna, f. 16.10. 2010. 2) Inga Ósk, f. 30.4. 1970, sambýlismaður hennar er Sigurvin Bjarnason, f. 5.1. 1969. Hún á tvo syni, Ólaf Ingva, f. 26.5. 1995, sambýliskona hans er Erna Lind Teitsdóttir, f. 17.12. 1992, dóttir þeirra er Thea Liv, f. 7.10. 2021, og Brynjar Þór Hansson, f. 11.9. 1998, sambýliskona hans er Salka Björt, f. 2.11. 1997.

Ólafur stundaði barnaskólanám bæði í Keflavík og Njarðvík á árunum 1940-1946.

Hann lærði iðn sína hjá vélsmiðju Ol Olsen og síðar hjá vélsmiðjunni Tækni.

Hann hóf nám í vélvirkjun 1948-1950 og tók síðan sveinsprófið 8. júní 1964.

Á árunum 1962-1965 starfaði hann hjá Vélsmiðju Björns Magnússonar, Flugmálastjórn ríkisins á Keflavíkurflugvelli og hjá Aðalvertökum. Hann hóf störf hjá Loftleiðum 1. júní 1965 síðar Flugleiðum, fyrst sem flugvirki og síðar sem vélvirki, starfaði hann þar óslitið uns hann fór á eftirlaun.

Útför Ólafs fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 26. janúar 2024, kl. 12.

Ég er einstaklega heppinn að pabbi skyldi velja að ættleiða mig. Betri uppvöxt hefði ég ekki getað fengið.

Pabbi var hlýr maður, barngóður og mátti aldrei neitt aumt sjá. Hann gagnrýndi aldrei fólk heldur kom með vinsamlegar athugasemdir.

Við pabbi vorum ekki bara feðgar heldur miklir vinir.

Við töluðumst við nánast daglega, hittumst reglulega og brölluðum ýmislegt saman.

Sem krakki tók hann mig með sér í aukavinnuna sem handlangara. Pabbi var með bíladellu og vörðum við miklum tíma á verkstæðinu hjá mér. Í ökuferðum okkar sagði pabbi mér gjarnan sögur úr æsku sinni.

Þegar pabbi var unglingur keyrði hann oft lítinn vörubíl.

Á morgunferðum sínum tók hann iðulega lögreglumann upp í bílinn sem átti sömu leið og hann. Einn morguninn spurði lögreglumaðurinn: „Ólafur, ertu ekki örugglega með bílpróf?“ „Jú,“ svaraði pabbi um hæl, „ég fékk það í gær!“

Pabbi var fróður um ýmislegt. Fluggeirinn (Loftleiðir) átti stóran sess í hans frásögnum. Einnig var hann fróður um styrjaldirnar en sem krakki var hann staddur í fjörunni úti á Nesi rétt við heimili sitt og varð vitni að styrjöldinni úti á Faxaflóa. Hann gekk fjörurnar og sá þar ýmislegt sem rekið hafði á land með vægast sagt misjöfnum minningum.

Þín verður sárt saknað elsku pabbi minn, en ég veit að hún mamma tekur vel á móti þér.

Guð blessi minningu þína.

Takk fyrir allt elsku pabbi minn.

Þinn sonur,

Garðar Ólafsson (Gæi).

Elsku pabbi, nú er tíminn þinn kominn og þú kominn til mömmu sem þú hefur alltaf saknað svo mikið.

Þegar ég hugsa til baka þá sé ég nú að það dó eitthvað inni í þér þegar mamma dó. Það var alltaf eitthvað sem vantaði, ég reyndi eins og ég gat að halda áfram að ferðast með þér og gera skemmtilega hluti sem þú og mamma hefðuð annars gert og veit að ég gerði eins vel og mögulegt var. Við vorum svo lík en samt svo ólík. Þú varst gallharður Njarðvíkingur, grænn í gegn og ég var Keflvíkingur, blá í gegn, þú hélst með United en ég Púllari. Svo áttum við líka sama áhugamál og það var flugið og þar vorum við bæði með blátt hjarta Icelandair. Það var alveg sama í hvaða jakka eða úlpu þú klæddist, alltaf passaðir þú upp á að barmmerki Icelandair og Njarðvíkur væru á sínum stað og varst stoltur af þeim.

Þú varst mikill barnakarl, barnabörnin voru þér allt og harmur þeirra er mikill. Þú varst duglegur að fylgjast með hvað þau voru að gera og hvort þú gætir eitthvað aðstoðað þau í því sem þau tóku sér fyrir hendur. Þú gast deilt áhugamálum þínum með báðum afastrákunum þínum sem voru íþróttir og flug sem tengdi ykkur enn meiri böndum og Thea, litli demanturinn þinn, maður sá hvað það gladdi þitt hjarta, þú ljómaðir allur í hvert skipti sem þið hittust. En minningarnar sem þú skilur eftir í hjörtum okkar eru óteljandi, en það eru einmitt þær minningar sem munu ylja okkur um hjartarætur þegar sú sorg og sársauki sem nú fyllir hjarta okkar loks víkur. Hvíl í friði, elsku pabbi minn.

Lífið er þraut og leysa hana þarf.

Ljúft það og sárt er í senn,

en bjartsýni fékk ég í föðurarf

og frábært lífið er enn.

Pabbi þú hefur kennt mér svo mikið.

Margt hefur þú lifað og reynt.

Ég veit að ég sterkari er fyrir vikið

þótt erfiðleikarnir fari ekki leynt.

Ætíð má tárin af vöngum þerra,

alltaf þú ert til að hugga mig.

Þú hefur lyft mér úr þunglyndi verra,

þakklát ég Guði er fyrir þig.

Takk fyrir stuðning og styrk þinn mikla,

sterk ég horfi framtíðar til.

Þú sýnir mér lífið sem ótal lykla

sem ganga að hverjum þeim lás sem
ég vil.

(Árný Sigurbjörg Guðjónsdóttir)

Inga Ósk Ólafsdóttir.

Fallinn er frá Óli tengdapabbi. Honum kynntist ég fyrir tæpum áratug.

Á þessum tíma var mikill samgangur og mikil samvera og var hann alltaf hress og inni í öllu og alltaf gaman að hitta hann og spjalla um málefni líðandi stundar. Hann hafði sterkar skoðanir og mikla réttlætiskennd. Óli hafði varið nánast allri starfsævi sinni í flugbransanum, Flugleiðum og forvera þeirra, Loftleiðum. Hann var fyrst og fremst Loftleiðamaður og talaði mikið um öll þau ár og einnig um sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands og var aldrei sáttur við hlut Loftleiða í þeirri sameiningu og fannst þeir bera skarðan hlut frá borði. Hann var yfir tækjaverkstæðinu og var með tól og tæki sem fylgdu fluginu. Hann sagði mér að strax eftir sameiningu þurfti hann að velja með hvorum hann ætlaði að standa. Hann brá á það ráð að setja bæði Loftleiðamerkin á tækin og tólin og svo merki Flugfélags Íslands til þess að gera öllum til geðs. Við gátum setið í tíma og ótíma og spjallað um upphaf og fyrstu ár flugsins og vissi hann allt um það og við báðir miklir áhugamenn um allt flug og flugsöguna. Ef eitthvað þurfti að gera var hann ávallt boðinn og búinn að aðstoða. Hann var með eindæmum handlaginn og það voru ekki til vandamál, bara lausnir.

Það voru ófáar ferðirnar sem við fórum út á land og voru þær ferðir alltaf skemmtilegar því Óli hafði alltaf frá einhverju skemmtilegu að segja.

Elsku Óli minn, nú er komið að leiðarlokum. Hvíl í friði.

Sigurvin Bjarnason.

Elsku afi.

Ekkert gæti undirbúið mig fyrir sorgina sem fylgir því að þurfa að kveðja þig og hefur þú verið ómetanlegur partur af mínu lífi.

Ég er ævinlega þakklátur fyrir vináttuna og nándina sem við höfum átt og mun ég varðveita minningarnar til æviloka.

Þegar ég hugsa um þig þá hugsa ég um allar sundferðirnar með tilheyrandi ísrúnti og öll þau skipti sem við spjölluðum saman um allt milli himins og jarðar.

Þú varst mikill aðdáandi flugs og gátum við alltaf talað um flug og flugvélar og varstu alltaf með góðar sögur af fluginu og þinni reynslu af að vinna í kringum flugið.

Þú varst mikill áhugamaður um fólkið í kringum þig og þér þótti alltaf rosalega vænt um það. Fyrir flestum varstu orðinn Óli afi.

Það var ekki bara fólk sem þér þótti vænt um heldur þótti þér líka rosa vænt um hana Esju, passaðir alltaf að eiga harðfisk til inni í ísskáp þannig að þegar hún kom í heimsókn þá gastu gefið henni. Þetta endurspeglar þann mann sem þú varst. Hundur, vinur eða fjölskylda, þá þótti þér alltaf vænt um þína. Þú varst einstakur og mun ég hugsa til þín alltaf.

Sakna þín og hugsa um,

stundir áttum góðar.

Ljósið þitt í stjörnunum

lýsi mína slóða.

Tómlegheitin fylla mig,

þú varst minn besti vinur.

Hugsa til þín er allt er grátt,

þú með hjarta grænt og blátt.

Eftir góða stund og samveru

tengist þú nú jörð.

Með góða sál og nærveru

þú stendur um mig vörð.

(Höf. ók.)

Brynjar Þór.

Kæri afi.

Þú hafðir aldrei áhuga á að eldast og þrátt fyrir 91 árs lífsskeið þá bar lítið sem ekkert á því að þú hefðir elst nokkuð á þeim tíma. Árin nýttir þú vel, ólst af þér magnaða fjölskyldu og varst máttarstólpi í nærumhverfi og samfélaginu í kringum þig, en fyrst og fremst frábær og góðhjartaður afi og langafi. Ég kveð þig með hlýju og ást fyrir allar þær góðu minningar sem þú veittir mér á lífsleiðinni. Ég kveð þig með þakklæti fyrir að hafa litað líf dóttur minnar yfir tímann sem þið áttuð saman og ég kveð þig með söknuði, en tek minningarnar og viskuna sem gildi út lífsleiðina.

Nafni,

Ólafur Ingvi Hansson.

Elsku hjartans Óli minn, en ég lukkuleg að hafa fengið að njóta nærveru þinnar síðustu árin. Með óvæntri tilkomu langafastelpunnar þinnar, Theu, sem þér þótti svo vænt um og henni um þig. Alltaf jafn gaman að koma í heimsókn til afa, fá að ýta á takkana í lyftunni á Nesvöllum og fá Nóa kropp. Dýrmætar minningar sem við munum halda lifandi alla tíð.

Mér þótti líka einstaklega skemmtilegt að komast að því að þú og langafi minn hefðuð alist upp saman á Sjávargötunni. Óli á Höfða og Óli í Koti, Njarðvíkingar í gegn, og rúmum 90 árum síðar sátuð þið saman í afmæli Theu og köstuðuð á milli ykkar blöðru. Svona getur lífsins hringur verið fallegur.

Ég syng um fólk, sem fæðist hér og
deyr

í faðmi þínum, bærinn okkar góði:

Um götur, hús og gráan fjörustein,

sem geymir brot af hversdagslegu
ljóði:

og nótt, sem dreymir nýjan veðurdag.

Í Njarðvík get ég unað mínum hag.

Góða ferð, elsku „afi“ Óli, ég lofa að passa upp á nafna þinn og langafastelpu. Og lofa að passa að hún verði græn í gegn eins og við. Þangað til næst.

Erna Lind.

Ég kynntist Óla afa árið 2017. Óli var afi Brynjars, kærastans míns, og fyrsti fjölskyldumeðlimurinn sem hann kynnti mig fyrir þegar við byrjuðum saman. Óli og Brynjar áttu einstakt samband sín á milli. Þeir voru afar nánir og miklir vinir. Óli kom fram við mig eins og sitt eigið barnabarn. Hann sýndi lífi mínu ávallt mikinn áhuga og spurði mig reglulega hvernig mér gengi í skólanum og vinnu, mér þótti afar vænt um það. Við Brynjar komum oft við í göngutúrum hjá Óla afa og heilsuðum upp á hann. Með okkur í för var gjarnan heimilishundurinn Garpur og ég sá fljótt hvað Óli var mikill dýravinur. Hann tók ævinlega vel á móti honum og klappaði fast. Þegar við Brynjar eignuðumst okkar eigin hund fór hún gjarnan með okkur í heimsókn til hans og Óli afi tók alltaf vel á móti henni og gaf henni harðfisk. Mér er afar minnisstætt eitt skiptið sem við heimsækjum hann með Esju, hundinn okkar. Hann átti ekki til harðfisk í þetta skiptið og grípur poka af Nóa-kroppi og hellir í höndina á sér til að gefa henni. Við Brynjar stoppum hann af og segjum að súkkulaði sé stórhættulegt fyrir hunda. Hann hætti við að gefa henni súkkulaðið en sendi okkur svip sem ég túlkaði sem „það má ekkert lengur“. Við Brynjar höfum hlegið mikið að þessu. Óli afi var ekki einungis afi kærasta míns heldur varð hann stór hluti af fjölskyldu minni og foreldrum mínum þótti afar vænt um hann. Hann kom reglulega í kvöldmat heim til okkar þar sem hann og pabbi minn, báðir gallharðir Njarðvíkingar, spjölluðu mikið saman. Við fjölskyldan vorum öll farin að kalla hann Óla afa og var hann ómissandi gestur á Þorláksmessu á okkar heimili. Við eigum eftir að sakna hans mikið en yljum okkur við þær minningar sem við eigum.

Salka Björt
Kristjánsdóttir.

Kynni okkar af Óla voru ekki löng en þau voru góð. Hann kom inn í líf okkar með Brynjari tengdasyni eins og fleira af hans góða fólki. Eftir það varð Óli aufúsugestur á okkar heimili, kom af krafti inn og ræddi sín hugðarefni af sama krafti allt fram á síðasta dag. Hann talaði alltaf svo fallega til okkar, spurði af einlægum áhuga og það var gott að eiga við hann spjall. Honum leiddist heldur ekki að hitta gamlan Njarðvíking í húsi, Jónu á Brekku, mömmu og tengdamömmu, og þau gátu talað lengi um gömlu Njarðvík og rifjað upp sögur af skemmtilegum atvikum og fólki.

Við kölluðum hann Óla afa þó Brynjar væri sá eini á heimilinu sem átti tilkall til hans. Það nægði okkur að horfa á fallegt samband þeirra til að vita hversu mikilvægur Óli var í lífi Brynjars og öfugt. Hann hefur misst mikið og við samhryggjumst. Við sendum öðrum ástvinum og ættingjum, Óla yngri barnabarni, Ingu Ósk dóttur hans, Sigurvin tengdasyni, syninum Garðari og hans fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Elsku Óli, takk fyrir góð kynni. Við munum minnast þín með hlýju.

Kristján, Svanhildur
og dætur.