Skattar Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Skattar Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra. — Morgunblaðið/Eggert
Skattaeftirlit á ekki að vera háð einhvers konar kaupaukum. Þetta segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra í samtali við Morgunblaðið. Blaðið greindi frá því fyrir helgi að starfsmönnum skattsins stæðu til boða sérstök viðbótarlaun eða…

Skattaeftirlit á ekki að vera háð einhvers konar kaupaukum.

Þetta segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Blaðið greindi frá því fyrir helgi að starfsmönnum skattsins stæðu til boða sérstök viðbótarlaun eða bónusgreiðslur tvisvar á ári ef þeir skila sérstöku eða framúrskarandi vinnuframlagi í þágu embættisins. Fjallað var nánar um málið í ViðskiptaMogganum í fyrradag.

„Við höfum þegar óskað eftir upplýsingum frá skattinum. En ég hef sagt og ítreka að það væri einfaldlega ekki í lagi að skatteftirlit væri háð einhvers konar kaupaukum,“ segir Þórdís Kolbrún aðspurð um málið.

Hún bætir við að í sínum huga sé það grundvallaratriði að skatturinn sinni leiðbeiningaskyldu gagnvart borgurunum.

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins spurði Þórdísi Kolbrúnu út í málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær. Hún svaraði því til að hún teldi það óeðlilegt og ekki ganga upp ef rétt reyndist að skattaeftirlit væri háð kaupaukum og að málið væri til skoðunar í ráðuneytinu.

Á skjön við sannleiksreglu

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður tjáði sig um málið á facebook í gær og sagði að í raun skipti ekki máli hvernig bónuskerfi skattsins kann að vera uppbyggt, þar sem það væri á skjön við sannleiksregluna að starfsmenn hins opinbera, sem fara með opinbert rannsóknar- og ákvörðunarvald, hafi beina hagsmuni af því að koma sök á einstaklinga eða lögaðila í þágu sjálfra sín. gislifreyr@mbl.is