Tel Aviv Mótmælendur krefjast aðgerða frá ríkisstjórninni.
Tel Aviv Mótmælendur krefjast aðgerða frá ríkisstjórninni. — AFP
Ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels stendur frammi fyrir vaxandi kröfum um vopnahlé bæði frá erlendum og innlendum öflum. Þrýst er á að samningar náist um vopnahlé og lausn gísla til að lina þjáningar palestínskra borgara og ísraelskra gísla sem eru í haldi Hamas

Helena Björk Bjarkadóttir

helena@mbl.is

Ríkisstjórn Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels stendur frammi fyrir vaxandi kröfum um vopnahlé bæði frá erlendum og innlendum öflum. Þrýst er á að samningar náist um vopnahlé og lausn gísla til að lina þjáningar palestínskra borgara og ísraelskra gísla sem eru í haldi Hamas.

Erfitt að ná samningum

Innlendur þrýstingur hefur aukist í kjölfar þess að 24 ísraelskir hermenn létu lífið á Gasa á mánudag. Aldrei hafa fleiri ísraelskir hermenn látið lífið síðan herinn hóf hernaðaraðgerðir á landi á Gasa.

Í Tel Aviv lokuðu mótmælendur vegum og kröfðust þess að ríkisstjórnin gerði samkomulag um lausn gísla og endalok stríðsins.

Tilraunir til sáttamiðlana með milligöngu Katars og Egyptalands, og þátttöku Bandaríkjanna, hafa hingað til ekki skilað áþreifanlegum niðurstöðum. Sendifulltrúi Bandaríkjanna í málefnum Mið-Austurlanda var á svæðinu vegna viðræðna sem miðuðu að því að koma á nýjum samningi um að frelsa þá sem eru í haldi Hamas í skiptum fyrir hlé á átökunum.

Umkringja Khan Yunis

Erlendir fjölmiðlar segja sáttaviðræður stranda á því að Hamas krefst fulls vopnahlés en Ísraelsmenn eru aðeins reiðubúnir að samþykkja tímabundið hlé á átökunum. Ísrael hefur hert árásir á Khan Yunis, næst stærstu borgina á Gasa síðustu daga. Ísraelski herinn segist hafa umkringt bæinn, sem hann telur heimabæ háttsetts Hamas-liða. Heilbrigðisráðuneyti Gasa segir að minnsta kosti 50 borgara hafa látist í borginni sólarhring eftir að árásir hófust. Tólf manns létu einnig lífið á miðvikudag þegar tvær sprengjur lentu á byggingu Sameinuðu þjóðanna í Khan Yunis þar sem 800 manns dvöldu, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkin fordæmdu árásina og sögðu borgara og mannvirki Sameinuðu þjóðanna njóta verndar.

Netanjahú hefur ítrekað lýst því yfir, að stríðið muni halda áfram þar til Hamas-samtökin hafi verið upprætt.

Höf.: Helena Björk Bjarkadóttir