Jónína Karlsdóttir fæddist í Reykjavík 13. júní 1940. Hún lést á Landakoti 15. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru hjónin Karl Stefán Daníelsson, prentari í Reykjavík, f. 8. apríl 1902, d. 21. desember 1951, og Eva Björnsdóttir húsfreyja, f. 31. júlí 1911, d. 31. ágúst 1950. Jónína átti alls níu systkini. Alsystkini hennar voru Daníel, f. 1934, d. 2016, Ólafur, f. 1942, Björn, f. 1944, og Ólafía, f. 1945, d. 2015. Samfeðra Jónínu voru Birna Guðrún, f. 1926, d. 1926, Hera, f. 1927, d. 2015, Sigríður Kristín, f. 1929, d. 2020, Hilmar Sigurjón Reynir, f. 1929, d. 2011, og Hulda Haralds, f. 1940.

Þar sem Jónína varð ung foreldralaus var hún tekin í fóstur af hjónunum Sigríði Kristinsdóttur, f. 1902, d. 1974, og Kristjáni Þórarni Guðmundssyni, f. 1900, d. 1952. Þau áttu einn son, Kristján Ómar, f. 1933, d. 2003.

Jónína giftist Jakobi Óskari Jónssyni, f. 28.10. 1940, d. 3.9. 2021. Foreldrar hans voru Jón Hjörleifsson, bóndi og oddviti í Skarðshlíð, f. 12.6. 1898, d. 23.7. 1973, og Guðrún Sveinsdóttir frá Selkoti, húsfreyja, f. 25.8. 1897, d. 15.5. 1983.

Jónína og Jakob hófu búskap í Reykjavík 1963 og keyptu í Árbænum 1966 og héldu heimili þar allar götur síðan. Þau eignuðust þrjár dætur saman en fyrir átti Jónína dóttur sem Jakob gekk í föðurstað. Dæturnar eru: 1) Sigríður Eva, f. 25.11. 1960. Börn hennar eru Símon Karl, f. 6.9. 1977, Sævar Karl, f. 8.5. 1991, í sambúð með Salóme Jónsdóttur og eiga þau eina dóttur, og Stefanía Ósk, f. 8.5. 1991, og á hún tvö börn. 2) Guðrún Ósk, f. 22.10. 1963, gift Heiðari Bjarnasyni, f. 10.2. 1960. Börn þeirra eru Jakob Óskar, f. 15.1. 1986, hann á einn son, Ágúst Bjarna, f. 13.7. 1988, og Rebekku Ósk, f. 22.6. 1991, í sambúð með Óðni Helgasyni, saman eiga þau tvö börn. Fyrir átti Heiðar Ólaf Inga, f. 1980, í sambúð með Höllu Jónsdóttur og eiga þau fjögur börn. 3) Guðbjörg Hjördís, f. 2.1. 1965, í sambúð með Ragnari Kr. Gunnarssyni, f. 11.4. 1963. Dóttir þeirra er Jónína Rún, f. 21.5. 1991, gift Sindra Má Sigurðssyni, þau eiga saman tvö börn. Ragnar á einnig börnin Elvu Björk, f. 1980, hún á þrjú börn, og Finn Mar, f. 1994. 4) Guðný Erla, f. 13.3. 1973, gift Ali Mobli, f. 19.1. 1974. Þau eiga einn son, Anton Arash, f. 3.11. 2007.

Jónína var jarðsungin í kyrrþey frá Fossvogskapellu 24. janúar 2024.

Elsku yndislega mamma okkar.

Það var mikið flakk á mömmu sem barn. Hún ólst upp í Reykjavík þar til móðir hennar lést, þá var hún send til Vestmannaeyja til systur sinnar, svo aftur til Reykjavíkur og þaðan til móðurbróður síns norður í Árbót í Aðaldal og var þar þegar faðir hennar lést, mamma var svo ásamt yngri systkinum sínum send á Kumbaravog þar til hún fékk fóstur í Reykjavík.

Mamma (Didda) var kraftmikil, lífsglöð og elskaði hreyfingu. Hún byrjaði fimm ára í danskennslu í þjóðleikhúsinu, átta ára í ballett, fór síðar í fimleika og æfði og sýndi sundballett með Dolly Hermanns. Átján ára byrjaði hún að dansa tjútt og rokk með Gulla Bergmann og Blakki en aðaldansherrann hennar var svo Sæmi Rokk en þau byrjuðu að dansa saman árið 1962 og dönsuðu á sýningum út um allt land til ársins 1987. 25 ára gömul byrjaði hún svo að æfa djassballett og tveimur árum seinna fór hún að æfa og kenna samkvæmisdansa hjá Dansskóla Sigvalda og kenndi þar í sex ár. Hún var einn af stofnendum fimleikadeildar Fylkis árið 1975. Sat þar í stjórn í nokkur ár ásamt því að kenna fimleika, djassballett og þolfimi. Hún setti upp fjölda danssýninga fyrir skóla, íþróttafélög og skemmtistaði og sýndi ásamt Sæma í fyrstu rokksýningu sem sett var upp á Broadway. Síðar sá hún um uppsetningu á rokkdansinum í söngleiknum Allt vitlaust sem var einn vinsælasti söngleikur sem settur hefur verið upp á Íslandi. Jónína kenndi þolfimi og frúarleikfimi langt fram yfir sjötugt.

Mamma var mikil skíðakona og voru dæturnar mjög ungar dregnar upp í brekku um leið og snjó festi ásamt Bangsa bróður hennar. Þótt hún hafi verið mikið í dansi og sýningum þá var hún fyrst og fremst húsmóðir, mamma og amma. Fjölskyldan var henni allt. Þar sem hún hafði misst sína foreldra mjög ung ákvað hún að sinna dætrum sínum af alúð og vildi ekki að aðrir sæju um uppeldið en hún sjálf.

Hún var mjög greiðvikin við vini og ættingja sem hún aðstoðaði þegar þau þurftu á að halda.

Mamma var mikill fagurkeri og bar heimilið þess merki að þar væri smekkmanneskja á ferð, allt í röð og reglu. Dæturnar byrjuðu snemma að læra af móður sinni hannyrðir því Jónína var listamaður þegar kom að sauma- eða prjónaskap. Allt var saumað og prjónað á dæturnar og aldrei farið út úr húsi nema með hárborða í hárinu og fínar.

Mamma og pabbi voru mjög samstillt hjón með stóra vinahópa í kringum sig sem þau heimsóttu gjarnan á kvöldin og um helgar. Þau elskuðu að ferðast til sólarlanda, mest voru þau á Spáni þar sem þau festu kaup á húsi árið 2004 og dvöldu þar hálft árið. Þau eignuðust strax fjölda vina og kunningja og voru alltaf í heimsóknum. Mest elskuðu þau að fá dæturnar, maka þeirra og barnabörn í heimsókn. Þetta voru frábær Spánarár sem hverfa dætrunum og fjölskyldum þeirra ekki úr minni.

Góða ferð til pabba elsku mamma, við vitum að hann tekur vel á móti þér.

Elskum þig endalaust.

Þínar dætur,

Eva, Guðrún,

Guðbjörg og Guðný.

Mánudaginn 15. janúar andaðist tengdamóðir mín, Jónína Karlsdóttir, Didda rokk, eftir stutt og erfið veikindi. Hún verður jarðsungin í dag og fer jarðarförin fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Okkur langar að minnast Diddu með nokkrum orðum.

Það var efasemdasvipur á Jónínu þegar dóttir hennar Guðbjörg Hjördís birtist með kjaftforan óreglumann og hljómsveitardurg norðan af Akureyri í lok níunda áratugar síðustu aldar og kynnti hann sem tilvonandi maka. Kannski voru efasemdir hennar um manninn ekki alveg úr lausu lofti gripnar en hægt og rólega tókust þó með okkur mikil vinaáttubönd sem urðu kannski sterkust síðustu misserin.

Árið 1991 fæddist okkur Guðbjörgu gullfallegt stúlkubarn sem var skírð Jónína í höfuðið á ömmu sinni. Af alúð og umhyggju tók Didda virkan þátt í uppeldi hennar og við skötuhjúin erum henni ævarandi þakklát fyrir það.

Tengdamamma átti erfið uppvaxtarár. Foreldrar hennar létust bæði þegar hún var á unga aldri og henni og systkinum hennar var komið í fóstur hér og þar í Aðaldal. Þangað fórum við með hana, ekki alls fyrir löngu, og bönkuðum upp á á nokkrum bæjum. Við fundum sannarlega fyrir þakklæti Jónínu eftir þá ferð. Og síðustu árin höfum við Guðbjörg varla skotist út fyrir landsteinana öðruvísi en Didda væri okkar ferðafélagi; Evrópa, Ameríka og Asía og alltaf jafn gaman. Minningin lifir.

Jónína var dansari, fimleikakona, mögnuð sauma- og hannyrðakona – og öldungis frábær tengdamamma. Við eigum eftir að sakna heimsóknanna á morgnana þar sem drukkið var kaffi og stundum vöfflur og rjómi með.

Við kveðjum þig elsku Jónína með tár á hvarmi. Leið þín til Jakobs verður rósum stráð.

Ragnar Gunnarsson (Raggi Sót) og Guðbjörg Hjördís Jakobsdóttir.

Elsku amma. Þú varst minn helsti trúnaðarmaður, stuðningsmaður, fyrirmynd, prjónakennari, skemmtilegasti ferðafélaginn, mín besta vinkona og önnur mamma.

Ég er týnd án þín og á erfitt með að ímynda mér lífið þegar þú ert ekki til staðar. Það mun lagast með tímanum og eftir standa góðar minningar sem ég mun varðveita að eilífu.

Tilfinningarnar eru blendnar. Ég er sorgmædd að fá ekki meiri tíma með þér, fá ekki að heyra frá þér aftur eða faðma þig. Að sama skapi er mér létt, það var erfitt að horfa upp á þig verða svona veik og þjást. Ég veit að þú ert komin á betri stað núna og allir hafa tekið þér fagnandi, sérstaklega afi. Ég veit að þú fylgist með og passar upp á okkur hvar sem þú ert. Hvíldu í friði elsku amma mín.

Ég sakna þín sárt, elska þig alltaf.

Gullið þitt,

Jónína yngri.

Elsku amma mín.

Þú varst alltaf mjög góð við mig. Það var mikið sem við gerðum saman, t.d. þegar við fórum til Spánar saman, það var alltaf gaman. Sundlaugin var alltaf skemmtilegust og líka tímarnir sem þú og afi pössuðuð mig. Ég man vel eftir kexskápnum sem var í gamla húsinu og litla sjónvarpinu sem þið höfðuð fyrir mig. Ég man eftir þegar þú varst að prjóna á mig föt.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig.

Ég mun sakna þín.

Ég elska þig.

Þinn

Anton Arash.