Kjartan Már Kjartansson
Kjartan Már Kjartansson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við höfum lagt okkar af mörkum til að hjálpa þeim sem eru í hættu og þurfa á vernd að halda, en það eru takmörk fyrir því hversu langt við getum gengið,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, um stöðuna í móttöku flóttafólks hér á landi

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Við höfum lagt okkar af mörkum til að hjálpa þeim sem eru í hættu og þurfa á vernd að halda, en það eru takmörk fyrir því hversu langt við getum gengið,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, um stöðuna í móttöku flóttafólks hér á landi.

Ásdís bendir á að nú liggi frumvarp til meðferðar á Alþingi sem snúi að því að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði fyrir hælisleitendur. „Þar er ríkið að grípa fram fyrir hendurnar á sveitarfélögum og í frumvarpinu er ekki nægjanlega skýrt að skipulagsvaldið muni áfram vera í höndum sveitarfélaga.“ Hún segir að hér sé aðeins verið að plástra yfir vandann sem þjóni engum. „Svo virðist því miður vera sem ráðherra ætli að hunsa algjörlega athugasemdir sveitarfélaga og keyra áfram óbreytta stefnu með tilheyrandi áhrifum á grunninnviði okkar. Það mun ekki gagnast neinum og síst af öllum þeim sem raunverulega þurfa á aðstoð og vernd að halda,“ segir Ásdís.

Stjórnvöld hafa samið við 13 sveitarfélög um móttöku um 3.300 manns, sem sótt hafa um dvöl hér á landi. Sveitarstjórnarmenn hafa haft áhyggjur af því að innviðir landsins ráði ekki við meiri fjölda. Þannig vakti Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, athygli á því í grein í blaðinu um síðustu helgi að stefna ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum væri að sliga innviði bæjarfélagsins.

Rósa sagði í greininni að þrátt fyrir að bent hefði verið á það mánuðum saman að bæjarfélagið gæti ekki sinnt þessum fjölda, hefði ekkert dregið úr móttöku hælisleitenda, sem hún sagði að væri tíföld miðað við önnur norræn ríki.

Þegar skoðað er hversu margir samningar hafa verið gerðir við sveitarfélögin í samræmdri móttöku flóttafólks kemur í ljós að heildartalan er 3.309 og hefur Reykjavík tekið á móti langflestum, eða 1.500 manns, þar næst Hafnarfjörður með 450 og í þriðja sæti er Reykjanesbær með 350 manns.

Síðastliðið ár komu fleiri flóttamenn til landsins en nokkru sinni áður. Margir umsækjendur um alþjóðlega vernd komu frá Úkraínu, en sá hópur fær strax atvinnuleyfi og er stór hluti þeirra kominn í vinnu, en áætlað var að 851 væri starfandi árið 2022. Aðrir umsækjendur um alþjóðlega vernd geta ekki sótt um störf nema þeir fái viðbótarvernd með tilheyrandi dvalarleyfi og atvinnuleyfi.

Innviðir að þolmörkum

Rúmlega tvö þúsund umsækjendur um alþjóðlega vernd dvelja nú í búsetuúrræðum Vinnumálastofnunar. Talsverður tími fer í að aðlagast nýju umhverfi, freista þess að læra tungumálið og margir umsækjendur þurfa einnig margþætta aðstoð vegna sálrænna áfalla. Það þýðir að fjölbreytt þjónusta þarf að vera til staðar í sveitarfélögunum til að hópnum sé sinnt með þeim hætti að það skili sér í sterkari einstaklingum sem geti tekið þátt í þjóðfélaginu.

Líklega er Hafnarfjörður ekki eina sveitarfélagið sem vill sinna málaflokknum vel, en finnur að það er engan veginn mögulegt ef ekki verður stigið á bremsuna og fjöldinn takmarkaður. Haft var samband við Einar Þorsteinsson, nýjan borgarstjóra Reykjavíkur, en hann kaus að tjá sig ekki um málið, en Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar segist hafa talað fyrir því lengi að umsóknum um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ verði fækkað skipulega.

„Umsóknir nú eru á bilinu 1.100-1.200 og við myndum gjarnan vilja sjá þá tölu lækka verulega. Umsækjendur eru að stórum hluta í einu hverfi bæjarins, Ásbrú, og Vinnumálastofnun heldur utan um þann hóp þar. En við verðum óneitanlega vör við þennan mikla fjölda hjá okkur og myndum viljum sjá fækka í þessum hóp,“ segir Kjartan og að álags sé farið að gæta í skóla- og heilbrigðiskerfinu vegna stöðunnar. Kjartan segist hafa rætt um málefni hælisleitenda við stjórnvöld undanfarna mánuði og að það þurfi að draga úr svo hægt sé að sinna þessu af einhverju viti. Hann vill þó ekki blanda stöðunni á Reykjanesskaga inn í þessa umræðu en segir að bæjarfélagið taki á móti öllum Grindvíkingum.

Ásdís Kristjánsdóttir segir að til þess að sinna verkefninu vel þurfi einstaklingarnir að fá góðar móttökur og möguleika á að aðlagast samfélaginu með tilheyrandi aðstoð, þjónustu og menntun sem þarf. „Staðan er því miður sú að við höfum ekki burði til að gera það eins vel og við viljum í dag, og það á við um flest sveitarfélög.“

Ásdís segir innviði víða komna að þolmörkum og að sveitarfélög geti ekki veitt þá þjónustu sem til þarf eða útvegað húsnæði fyrir þann fjölda sem hingað kemur.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir