Alda Sigurrós Joensen fæddist á Eskifirði 4. janúar árið 1939. Hún lést 18. desember 2023. Foreldrar hennar voru hjónin Sigurður Hans Jóhannesson og Unnur Bjarnadóttir Jensen. Alda var þriðja af sex börnum þeirra, en systkini hennar eru: Guðni Svan, sem er látinn, Bjarni Heiðar, Helena Ólafía, Sigurður Nikulás og Jónína Valgerður, sem lifa systur sína. Bræður Öldu af föður voru: Gunnar, Sveinbjörn Kristján og Dagbjartur, sem eru látnir, og systir af móður var Ása Ragnheiður, sem er látin.
Alda ólst upp hjá foreldrum sínum og systkinum, fyrstu árin á Eskifirði en síðan í Reykjavík.
Á unglingsárum fór Alda til vinnu á Eskifirði og síðan á Breiðdalsvík. Hún eignast Jóhann Unnar 17 ára gömul og Sigurð Hans 20 ára. Árið 1961 kemur hún sem vinnukona að Túnsbergi í Hrunamannahreppi og kynnist þar Eiríki Þorgeirssyni og ganga þau í hjónaband 1962. Saman áttu þau Sigríði og Gunnar Kristin. Alda og Eiríkur slitu samvistum 1975.
Seinni maður Öldu var Baldur Loftsson. Þau fluttu til Þorlákshafnar og byggðu sér hús í Básahrauni 6 og áttu seinna heima í Selvogsbraut 33. Dóttir þeirra er Erna Björk. Baldur lést árið 2015. Afkomendur Öldu er orðnir 47.
Útförin hefur farið fram.
Þegar ég kom með Gunnari fyrst í Túnberg var heimilið mikið til eins og tengdamóðir mín hafði skilið við það þegar hún fór. Herbergin með litskrúðugu veggfóðri, ekkert eins og þar sem veggir voru málaðir voru sterkir litir notaðir. Þegar ég svo kynntist Öldu sá ég að þetta endurspeglaði hennar einkenni. Fötin litrík og alls konar, engin feimni að fara sínar eigin leiðir, söfnunarárátta á öllum mögulegum húsmunum og nýtni í fyrirrúmi. Kona sem sagði fólki til syndanna ef henni sýndist svo, dugnaðarforkur og ætlaðist til að aðrir væru það líka. Lífið hafði oft á tíðum verið barátta, þar kom til líkamleg veikindi og peningaleysi en kona eins og Alda lét það ekki beygja sig heldur fann lausnir. Stofnaði þvottahús þegar aðra vinnu þraut og safnaði jurtum til lækninga þegar henni fannst almennar lækningar ekki duga sér. Alda var sterkur karakter sem var alls ekkert alltaf allra en þegar maður horfir á lífshlaupið hefur allt sínar skýringar. Ég mun minnast síðustu ára tengdamóður minnar eftir að hún flutti á Flúðir og síðan á Móberg á Selfossi með bros á vör því þá fyrst fékk ég að njóta hennar skemmtilega húmors.
Magga S. Brynjólfsdóttir.
Alda systir er dáin, hún var búin að vera mjög veik undanfarna mánuði en harkan og dugnaðurinn var mikill. Ég hélt að hún myndi hafa það eins og vanalega. Við fórum mikið saman í ferðir, útihátíðir, kórferðalög og sumarbústaði. Það var alltaf mikið fjör og mikið sungið. Hún var mjög raungóð ef maður þurfti að fá hennar hjálp. Hún og Eiríkur reyndust mér mjög vel þegar ég þurfti að fara í burtu um tíma, þá tóku þau dóttur mína Berglindi til sín, sem var ekki leiðinlegt fyrir hana, þau voru öll svo mikið í hestum og í kringum skepnurnar. En hún fór ekki varhluta af veikindum sjálf en stóð þau af sér eins og vanalega. Seinna giftist hún Baldri sem var líka mikið fyrir söng og ferðalög og þau hittast núna í sumarlandinu.
Takk fyrir samfylgdina elsku systir.
Þín
Vala.
Elsku Alda frænka, nú kveð ég þig.
Þú gekkst mér í móðurstað á tímabili þegar mamma var erlendis, þá var ég tveggja ára og kallaði þig andamömmu. Það var gott að vera hjá þér og Eiríki í Túnsbergi, sem er mér hjartfólgið og allt fólkið þar; Sirrý, Gunnar, Unnar og Siggi. Sveitin og sveitarlífið hugnaðist mér vel og eftir að ég eltist sótti ég í að komast þangað. Eftir að Gunnar kom aftur í Túnsberg frá Hvanneyri með Möggu sína urðum við strax miklar vinkonur og má segja að Túnsberg hafi orðið mitt annað heimili.
Alda var alltaf góð við mig og fór ég oft í heimsókn til hennar með mömmu og pabba eftir að hún flutti í Þorlákshöfn með Baldri sínum.
Kæra Alda, hvíl þú í friði.
Þín frænka,
Berglind Ágústsdóttir
og fjölskylda.