Línuvinna Mörgu þarf að sinna.
Línuvinna Mörgu þarf að sinna. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Landsnet vinnur nú við að meta umhverfisáhrif fyrirhugaðrar nýrrar 90 km langrar háspennulínu frá tengivirki við Klafastaði í Hvalfirði norður í Hrútafjörð. Línan mun samkvæmt áformum liggja um fjallaskörð við Skarðsheiði og í Borgarfirði um…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Landsnet vinnur nú við að meta umhverfisáhrif fyrirhugaðrar nýrrar 90 km langrar háspennulínu frá tengivirki við Klafastaði í Hvalfirði norður í Hrútafjörð. Línan mun samkvæmt áformum liggja um fjallaskörð við Skarðsheiði og í Borgarfirði um Andakíl, Bæjarsveit, Þverárhlíð og þar svo áfram norður um heiðar. Þetta er Holtavörðuheiðarlína 1 sem verður mikilvægur hlekkur í nýrri byggðalínu, segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets.

Til stendur að setja upp 220 kílóvatta loftlínu, með tvöföldum leiðara. Flutningsgetan verður á milli 800 og 900 megavött. Hæð mastranna á línunni verður að jafnaði 18-28 metrar og bil milli þeirra gjarnan 360 metrar. Möstur standa á forsteyptum niðurgröfnum undirstöðum.

„Markmið með þessari framkvæmd er að bæta afhendingaröryggi raforku á Vesturlandi og Norðurlandi vestra og um leið að styrkja meginflutningskerfið. Við það eykst afhendingargeta á öllum afhendingarstöðum á landinu og kemur í veg fyrir að flutningstakmarkanir hamli eðlilegri atvinnuuppbyggingu í landinu. Um leið erum við að bæta nýtingu fjárfestinga í orkukerfinu með því að hámarka nýtingu virkjana og vatnasvæða sem nú þegar eru til staðar. Í framhaldinu erum við að undirbúa Holtavörðuheiðarlínu 3 og eru báðar þessar línur mikilvægur hluti af orkuskiptum auk þess sem mjög er kallað eftir aukinni raforku til nýtingar í atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir.

Langt undirbúningsferli

Vinnu við umhverfismatsskýrslu vegna Holtavörðuheiðarlínu 1 lýkur á næstu vikum. Þá fer skýrslan í kynningu og hægt verður að senda inn umsagnir á gátt Skipulagsstofnunar. Allt er þetta hluti af löngu ferli til framkvæmda sem gætu hafist eftir 2-3 ár.

Hvað varðar Holtavörðulínu 3, sem ligga mun frá fyrirhuguðu tengivirki á Holtavörðuheiði að virki við Blöndustöð, þá er nú unnið úr rannsóknum sem gerðar voru á áhrifasvæði valkosta línunnar á heiðarlöndum nyrðra. Það er þá meðfram núverandi byggðalínu auk þess sem aðrir kostir eru í skoðun. Vinna við umhverfismatsskýrslu stendur yfir og er þess vænst að hún verði tilbúin á vormánuðum. Þar verður aðalvalkostur um línustæði – og mannvirki – kynntur og þannig leitað sjónarmiða um hvernig best megi að verki standa.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson