Safnafólk Styrkþegarnir, menningarmálaráðherra og fleira gott fólk.
Safnafólk Styrkþegarnir, menningarmálaráðherra og fleira gott fólk. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjölbreytnin er ráðandi í þeim verkefnum á vegum íslenskra safna sem nú í vikunni fengu framlag úr aðalúthlutun safnasjóðs fyrir árið 2024. Í pottinum voru liðlega 176 milljónir kr. og veittir voru annars vegar 107 styrkir til 46 safna til eins árs upp á samanlagt rúmar 166 millj

Fjölbreytnin er ráðandi í þeim verkefnum á vegum íslenskra safna sem nú í vikunni fengu framlag úr aðalúthlutun safnasjóðs fyrir árið 2024. Í pottinum voru liðlega 176 milljónir kr. og veittir voru annars vegar 107 styrkir til 46 safna til eins árs upp á samanlagt rúmar 166 millj. kr. Hins vegar var svo veittur svonefndur öndvegisstyrkur til tveggja safna; fimm milljónir á ári í þrjú ár til hvors þeirra. Þetta eru Borgarsögusafn Reykjavíkur, sem fær framlag til skráningar og rannnsóknar á safnkosti í nýju varðveisluhúsi, og Kvikmyndasafn Íslands, til að rannsaka kvikmyndir frumherjans Lofts Guðmundssonar.

Ef litið er til einstakra verkefna sem fengu styrki má nefna að í Borgarsögusafni Reykjavíkur á að setja upp sýninguna Fréttaljósmyndari í 50 ár sem tileinkuð er Gunnari V. Andréssyni. 2,2 millj. úr safnasjóði eru merktar því máli. Byggðasafn Vestfjarða fær 1 millj. kr. styrk vegna sýningar um sögu Neðstakaupstaðar á Ísafirði. Flugsafni Íslands var úthlutað samanlagt rúmum 5 millj. kr., meðal annars til að setja upp sérsýningu um sögu Loftleiða. Styrkur til Listasafns Íslands fer til að rannsaka myndir Þorvaldar Skúlasonar ljósmyndara og stuðningur við Minjasafn Austurlands er merktur sýningu um Kjarval á Austurlandi.

Andlit á sögu Íslands

„Safnafólk er andlit á sögu Íslands og menningu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir ráðherra menningar- og ferðamála í ávarpi sem hún flutti við afhendingu styrkjanna góðu. Þar gerði hún að umtalsefni hve miklilvægur þáttur í þjóðlífinu safnastarf almennt væri. Ánægjulegt væri sömuleiðis að sjá að aðsókn að söfnum hefði glæðst fljótt eftir heimsfaraldur. Raunin væri önnur víða erlendis. Aðgerðir sem stjórnvöld gripu til svo menningarstarf í landinu næði aftur fyrri styrk væru þarna að skila sér.

Um þessar mundir stendur yfir vinna við mótun ferðamálastefnu Íslands til ársins 2030. Þetta segir Lilja fara saman við ýmsa aðra stefnumótun á sviði lista; svo sem í tónlist, bókmenntum, myndlist og fleiru slíku. „Skapandi Ísland; slíkt er útkoman. Mikilvægt er nú að kortleggja störf sem til verða í þessu umhverfi og fá fram hverju þau skila til samfélagsins og í landsframleiðsluna. Í þessu leynast mikil tækifæri sem vel er stutt við,“ segir Lilja.

Saga síldarstúlkna

Meðal þeirra sem úthlutun fengu úr safnasjóði nú var Síldarminjasafnið á Siglufirði; samtals 4,5 millj. kr. Anita Elefsen safnstjóri segir mikilsvert að fá þennan styrk, sem er eyrnamerktur tveimur verkefnum. Annað er flutningur á ýmsum gripum og munum í eigu safnsins í nýtt varðveisluhús, Salthúsið. Hitt er rannsókn á áhrifum síldarstúlkna, sem svo voru kallaðar, á atvinnuþátttöku kvenna. Kapp verður lagt á að gera þessa rannsókn á næstu mánuðum því á næsta ári, 2025, verður liðin öld frá því að konur sem þá unnu við síldarsöltun á Siglufirði fóru í verkfall og kröfðust bættra kjara. Kröfugerðir þessar þóttu árið 1925 vera saga til næsta bæjar og voru í stóru samhengi sögunnar upphaf jafnréttisbaráttu. sbs@mbl.is