Halldóra Hálfdánardóttir fæddist á Ísafirði 19. mars 1942. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu við Brúnaveg 17. janúar 2024.
Foreldrar hennar voru Hallfríður Kristín Jónsdóttir, fædd 19. febrúar 1920, látin 25. apríl 1985 og Hálfdán I. Örnólfsson, fæddur 28. nóvember 1913, látinn 23. nóvember 1991.
Systkini Halldóru eru Örnólfur Grétar, látinn, Einar Draupnir, Jón Vignir, Kristín, Lilja og Sjöfn. Samfeðra bróðir Halldóru er Ragnar Ingi.
Halldóra giftist Þorsteini Einarssyni árið 1967, skipstjóra, f. 1940, d. 2012.
Börn þeirra eru: 1) Einar Eyjólfur Þorsteinsson, f. 1967, giftur Lindu Björk Bragadóttur, f. 1967. Börn þeirra eru: Anton Már, f. 1995, og Tinna Björk, f. 1998. 2) Elín Ósk Þorsteinsdóttir, f. 1970, gift Vigni Björnssyni, f. 1969, börn: Þorsteinn, f. 2000, og Hreinn Garðar f. 2005.
Fyrir átti Halldóra Hálfdán Guðmundsson, f. 1961, og Þorsteinn átti Siggeir Þorsteinsson, f. 1963, börn: Sindri, f. 1986, Kári, f. 1989, d. 2023, Atli Steinar, f. 1992, og Arnór, f. 1998.
Halldóra ólst upp á Hóli í Bolungarvík. Hún útskrifaðist úr Fóstruskóla Sumargjafar 1966 og vann sem leikskólastjóri nánast allan sinn starfsaldur.
Útför Halldóru fer fram í Lindakirkju í dag, 26. janúar 2024, og hefst athöfnin kl. 13.
Streymi:
Elsku Haddý.
Yndislega tengdamamma. Þinn tími kom og þú varst tilbúin. Fyrir okkur öll hin tekur það á og nú þurfum við að venjast því að þú sért farin frá okkur.
Leiðir okkar lágu saman fyrir 36 árum þegar ég kynntist Einari. Þú tókst mér svo vel og mér fannst ég svo lukkuleg að eignast þig sem tengdamömmu. Þú varst alltaf svo yndisleg og það varð aldrei misjafnt á milli okkar.
Ég og Einar fluttum til Bandaríkjanna 1990 en reyndum að koma eins oft og við gátum til Íslands. Venjulega lentum við snemma morguns og bestu minningarnar voru að koma heim til ömmu og afa með börnin okkar Anton og Tinnu og fá stórt langt knús og Haddý passaði alltaf upp á að morgunverðarborðið væri hlaðið kræsingum. Það var alltaf kókómjólk í litlu fernunum, snúður fyrir Tinnu, vínarbrauð fyrir Anton, kaffi og normalbrauð með osti fyrir okkur Einar ásamt öðru góðgæti.
Haddý og Steini komu líka alloft í heimsókn til okkar í Los Angeles. Þá var yfirleitt farið til Venice Beach eða Third Street Prominade og mannlífið skoðað og allmargar búðir kannaðar. Við spiluðum stundum manna á kvöldin og þá gat orðið ærslafullt og keppnisandinn tók yfir. Það voru alltaf góðir tímar með Haddý og Steina.
Það eru svo margar góðar minningar sem ég á með þér Haddý. Við gátum spjallað um allt milli himins og jarðar og hlegið dátt saman. Ég mun alltaf hugsa með hlýju til þeirra tíma.
Ég hugsa til þín með söknuði en með frið í hjarta að nú ertu loks í faðmi Steina þíns og annarra sem þú hefur misst á lífsleiðinni.
Hvíl í friði elsku Haddý.
Linda Björk Bragadóttir.
Það er komið að leiðarlokum hjá elsku Haddý okkar. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni og átt hjá henni gott atlæti alla tíð.
Ég kynntist Haddý haustið 1985 þegar við Siggeir sonur Steina eiginmanns hennar höfðum nýlega kynnst.
Hún tók mér vel eins og hennar var von og vísa og breyttist það aldrei.
Síðan eftir að við eignuðumst strákana okkar var hún alltaf tilbúin að passa og létta undir með okkur.
Stundum næturpössun og oft var hringt á föstudegi og spurt hvort einhver vildi ekki gista um helgina, þvílík ánægja hjá strákunum. Stundum voru þeir svo heppnir að fá að dvelja hjá ömmu og afa meðan við foreldrarnir vorum erlendis.
Það var nóg að gera hjá Haddý, með stórt heimili og eiginmaðurinn úti á sjó. Hún var einnig í krefjandi starfi á leikskólum og seinni hluta starfsævinnar var hún leikskólastjóri.
Haddý var vinamörg og vinsæl kona, brosmild og hlý, fólki þótti vænt um hana. Hún átti auðvelt með að hrósa og sjá það jákvæða í fari fólks.
Steini var stóra ástin í lífi Haddýjar og eftir andlát hans var söknuðurinn mikill.
Síðustu árin hafa verið henni erfið eftir að heilsunni hrakaði og hún gat ekki verið heima hjá sér lengur. Elín Ósk dóttir hennar sinnti henni af einstakri umhyggju og synirnir þegar þeir höfðu tækifæri vegna búsetu og starfa erlendis.
Takk fyrir allt elsku Haddý.
Björk Arnórsdóttir.
Elsku tengdamóðir mín Haddý er látin. Ég kveð hana með söknuði, þessa hlýju konu sem hugsaði allaf fyrst og fremst um hag annarra og sinna nánustu.
Börn, barnabörnin og langömmubarnið áttu alltaf stóran stað í hjarta hennar og spurði hún undantekningarlaust frétta af þeim allt undir það síðasta.
Síðan við Elín Ósk fórum að vera saman heimsótti hún okkur mjög reglulega í Selvogsgrunnið og við hana.
Það verður óneitanlega tómlegt að fara ekki lengur upp brekkuna með Jökul og Batman og inn á Hrafnistu – Sólteig til Haddýjar tengdó.
Haddý, hvíl í friði og bless bless, við sjáumst vonandi einhvern tímann aftur.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Þinn tengdasonur,
Vignir.
Elsku amma, á erfiðum tímum sem þessum er gott að geta yljað sér við minningar um þig og erum við svo ríkir að eiga margar og ljúfar minningar.
Þegar við minnumst ömmu kemur strax upp í hugann hvað hún var lífsglöð og hláturmild, amma vildi vera þar sem fjörið var.
Alltaf þegar amma kom í heimsókn þá spurðum við hana einum rómi hvort hún væri með sendingu frá afa og alltaf var hún með eitthvert kex eða súkkulaði í töskunni sinni. Amma og afi kölluðu okkur bræður Kexruglaða.
Amma var alltaf svo dugleg að koma með okkur á fótboltamót þótt það væri í Reykjavík eða Akureyri.
Þegar hann Hreinn var að fæðast og mamma var á spítalanum þá var enginn til að leika sér í fótbolta með mér (Þorsteinn) vegna þess að mamma var vön því, þannig að ég bað ömmu að spila fótbolta með mér.
En upp frá því fréttist að amma væri ömurleg í fótbolta.
Þegar okkur vantaði eitthvað eða þurftum að gera eitthvað sem við gátum ekki sjálfir þá var hún amma alltaf reiðubúin að hjálpa okkur. Til dæmis þegar mamma var á spítala eftir aðgerð og okkur langaði til að gleðja hana og koma með bók handa henni af bókasafninu, þá báðum við ömmu að koma með okkur. Þótt það væri langt að labba og upp bratta brekku þá var ekkert sjálfsagðara fyrir ömmu og alltaf þegar eitthvað bjátaði á þá var hún amma tilbúin að hjálpa okkur og sýna okkur umhyggju og ást.
Elsku amma, þú munt alltaf eiga stað í hjörtum okkar, svo einstaklega ástrík og umhyggjusöm sem þú varst.
Við þökkum þér kærlega fyrir allar þær stundir sem við áttum saman í gegnum tíðina.
Við elskum þig amma mín.
Þorsteinn og Hreinn.
Við systur vorum alla tíð nánar og því er eftirsjáin mikil og tómleiki við að missa elsku Haddý. Það leið aldrei sú vika að við ættum ekki samtal systurnar, enda vildi hún fylgjast með því sem var að gerast. Spurði um börnin og barnabörnin og fylgdist með uppvexti þeirra. Síðustu tvö árin sem við hjónin vorum með landlínu var Haddý sú eina sem hringdi í fasta númerið og höfðum við svolítið gaman af því.
Haddý var 14 árum eldri en ég naut þess að vera næsta stelpan í barnaröðinni, af átta systkinum, en hún var elst okkar systra. Hún bar mig á höndum sér alla tíð og ég lít á það sem forréttindi að hafa haft hana mér við hlið.
Tólf ára gömul dvaldi ég sumarlangt hjá þeim Steina, sem bjuggu þá í Laugarnesinu. Þetta sumar var mikið ævintýri fyrir mig, sveitastúlku frá Hóli í Bolungarvík.
Haddý og Steini giftu sig í Hólskirkju árið 1967. Mamma og pabbi héldu þeim glæsilega brúðkaupsveislu heima á Hóli. Enn skil ég ekki hvernig allur hópurinn komst fyrir, en líklega vorum við 17 sem gistum þar en miklu fleiri voru í veislunni. Ég minnist þess að við Nonni bróðir sváfum undir stofuborðinu og væsti ekki um okkur systkinin þar. Einhvern veginn töfraði mamma fram stórkostlegar veitingar og var mikil gleði og glaumur á Hóli þessa helgi.
Haddý var einstaklega barngóð, enda valdi hún sér ævistarf sem fóstra. Börnin mín nutu góðs af gæsku hennar og litu á hana eins og ömmu. Þegar við hjónin þurftum að skreppa í ferðalag hljóp hún í skarðið og passaði heimilið fyrir okkur á meðan. Eins fengu börnin okkar að fara í pössun til Haddýjar og Steina í Grundarásnum, sem dekruðu við þau á allan hátt, enda voru þau mjög hænd að þeim hjónum. Steini var duglegur að fara með þau í bíltúr og bíó, og eru ferðir í Eden í Hveragerði þeim sérstaklega minnisstæðar. Öll börnin mín fylgja Haddý þennan síðasta spöl í dag, Nonni minn kominn alla leið frá Alicante.
Þegar ég hugsa til systur minnar minnist ég þess hversu hlý og frændrækin hún var. Fylgdist náið með öllum barnabörnum okkar og spurði alltaf hvernig gengi. Öll símtöl enduðu síðan á spurningu hvort ekki væri allt gott að frétta úr Víkinni okkar. Römm er sú taug og engin spurning hvar rætur hennar lágu.
Haddý og Steini voru samrýnd hjón og við fráfall hans urðu mikil kaflaskil í hennar lífi. Söknuðurinn var yfirþyrmandi og fljótlega fór heilsan að gefa sig. Þegar ég lít til baka þá er það augljóst að líf Haddýjar var mikið og merkilegt. Jafn væn og góð manneskja sem hún var skilur hún eftir sín spor. Hún lést í faðmi barnanna sinna þriggja 17. janúar síðastliðinn.
Ég kveð elsku Haddý mína með bæn sem mamma kenndi okkur systkinunum:
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sigurður Jónsson)
Kristín.
„Er nokkuð varið í þetta?“ sagði Haddý frænka í hvert skipti sem við gæddum okkur á dýrindis Dísudraumnum sem hún bakaði oft fyrir okkur. Tertan var ávallt gómsæt en Haddý var aldrei viss enda vildi hún gera eins vel og hún gat fyrir sitt fólk. Við systkinin vorum svo lánsöm að fá að fara reglulega í heimsókn til Haddýjar og Steina í Reykjavík og gista í nokkra daga. Hver dagur var eins og ævintýri þegar þau hjónin þeyttust um allt með börnin að vestan og við dekruð út í hið óendanlega. Það var farið í tívolíið í Hveragerði, Kringluna, viðburði í miðbænum og auðvitað í bíó, sem var alltaf hátindur heimsóknanna. Haddý hugsaði alltaf vel um sitt fólk og gerði það með hlýju.
Það var engin tilviljun að Haddý skyldi velja að vinna með börnum alla sína ævi enda leið henni alltaf best með börn í kringum sig og svo hafði hún einstakt lag á þeim. Hún vann m.a. á skóladagheimili og leikskóla og þess á milli fékk hún barnabörnin sín eða systkinabörn í heimsókn. Fyrir barn að leika sér í stóra húsinu þeirra hjóna í Grundarási var eins og að vera í töfraveröld. Í minningunni var kjallarinn fullur af alls konar leikföngum og tækjum, sannkallaður undraheimur. Svo var það Amstrad-tölvan með öllum floppy-diskunum sem opnaði nýjar víddir fyrir púka að vestan. Skemmtilegast var samt það sem gerðist í seinni tíð þegar Haddý hitti okkar eigin börn en þá voru þau kysst svo innilega á milli þess sem hún söng fyrir þau. Öll þögnuðu þau og störðu á hana af aðdáun þegar hún söng öll gömlu leikskólalögin.
Við erum afskaplega þakklát fyrir allar dýrmætu minningarnar sem Haddý frænka lagði sig fram við að skapa með okkur, börnum systur hennar að vestan. Það er sennilega fyrst núna sem við skiljum almennilega hversu mikið hún lagði á sig til að gera heimsóknir okkar svona eftirminnilegar. Nú er komið að okkur að reyna feta í fótspor frænku okkar þótt við komumst aldrei með tærnar þar sem hún hafði hælana. Við byrjum á að gera Dísudraum fyrir okkar fólk og sjáum hvert það leiðir okkur. Hvíldu í friði elsku Haddý frænka og takk fyrir ómetanlegar stundir.
Hafdís, Jón (Nonni) og
Gunnar Atli.
Elsku Haddý, þá ertu komin til Steina þíns.
Mikið á ég eftir að sakna þín og nærveru þinnar, alltaf svo blíð, jákvæð og góð. Þú sást allt það góða í fari annarra og fegurðina.
Minning sem lifir sterkt er þegar ég var nýflutt í Selásinn og kynntist Elínu dóttur þinni sem hefur verið mín besta vinkona síðan. Ég þakka fyrir að mér var boðið með ykkur Steina og Elínu til Benidorm þegar ég var fimmtán ára, þá kynntist ég góðmennsku ykkar og kærleika vel. Þið tókuð mér svo vel að mér þykir enn vænt um þegar þið kölluðuð mig fósturdóttur ykkar. Börnin mín hafa kallað þig Haddý ömmu, sem segir mikið um þig og kynni þeirra af þér. Ég þakka fyrir að hafa fengið að njóta nærveru þinnar á áramótum í gegnum tíðina og á öðrum viðburðum fjölskyldunnar.
Ég votta Elínu Ósk, Einari, Hálfdáni og Siggeiri og fjölskyldum þeirra samúð mína.
Þín
Katrín (Katý).
Haddý var stóra systir Stínu vinkonu og hitti ég þessa greiðviknu og duglegu konu fyrst árið 1991 í afmæli Stínu inni í Tungudal. Þá var yngri sonur minn nokkurra mánaða og reyndi Haddý án árangurs að kenna mér að láta hann sofa úti í vagni, nokkuð sem henni fannst auðvelt. Nokkrum árum síðar þegar mig sárvantaði pössun fyrir Heru dóttur mína þá var ég svo heppin að Haddý var á milli starfa og tók að sér að sjá um Heru og heimilið fyrir mig.
Hera mín, sem var óttaleg mannafæla, hændist svo að hinni barngóðu, glaðlyndu og hjartahlýju Haddý að hún tók meira að segja að líkjast henni. Þegar kom að því að okkur bauðst leikskólapláss var ég efins um hvort ég ætti að taka því. Haddý sagði að ég skyldi ræða þetta við Heru, sem var aðeins 18 mánaða. Þetta sýndi vel hvernig Haddý umgekkst börn af virðingu. Hera vildi fyrir engan mun missa Haddý sína en örlögin tóku í taumana og Haddý bauðst leikskólastýrustaða á sama tíma.
Tengslin héldust og var mikið sport fyrir Heru að fá að vera hjá Haddý og ekki sakaði að fá að kíkja ofan í sykurskúffuna hennar. Samskiptin urðu strjálli með tímanum en alltaf fylgdumst við hvor með annarri í gegnum Stínu. Einnig var ánægjulegt að vera samferða Haddý til Kaliforníu fyrir nokkrum árum þegar við tvær heimsóttum fjölskyldur okkar þar.
Við fjölskyldan minnumst Haddýjar með þakklæti og hlýju. Hún gerði heiminn betri.
Gerður Thoroddsen,
Hera Sólveig Ívarsdóttir.
Í dag kveðjum við hana Haddý. Við fjórir og Einar sonur hennar urðum vinir í upphafi áttunnar eins og sagt er í dag, eða fyrir sona ríflega 40 árum. Við höldum enn hópinn eins og hægt er. Við vorum heimagangar hjá Haddý í Grundarásnum. Þar var einstaklega gott að koma. Haddý tók á móti öllum með bros á vör og alltaf tilbúin til að styðja okkur með jákvæðu viðmóti og vinsamlegum orðum. Það var alltaf fullt af hvatningu og hlýju í okkar garð, algerlega óháð því hvað við vorum svo sem að gera af okkur í það skiptið.
Eitt sinn lenti Haddý í vandræðum með jólasveina sem áttu að skemmta börnunum á Rofaborg sem hún stjórnaði lengi. Hún spurði hvort við gætum ekki hlaupið í skarðið. Við 15 ára töldum það lítið mál. Að jólaskemmtuninni lokinni voru allir krakkarnir háskælandi og við á hlaupum út. Þetta hafði ekki gengið eins og við vonuðum. Það kom engin gagnrýni fyrir að setja heilan leikskóla í uppnám heldur þvert á móti, Haddý þakkaði okkur vel unnin störf og bókaði okkur strax fyrir næsta ár. Alltaf jákvæð, sama hvað á gekk.
Alla tíð fram á síðasta dag hafði Haddý áhuga á öllu sem við vorum að gera og hvað börnin okkar voru að læra og starfa. Haddý bjó yfir einstöku jafnaðargeði, ást, umhyggju og vináttu í garð okkar allra. Og alltaf varð maður aðeins jákvæðari og glaðari eftir að hafa hitt Haddý. Við urðum öll betri manneskjur af því að kynnast og umgangast Haddý, góðmennska hennar og hlýja var einstök. Einar, Elín Ósk, Hálfdán og fjölskyldur, við vottum ykkur öllum okkar dýpstu samúð.
Pétur, Jón, Sæþór og Þórir Örn.