Bibek Debroy
Bibek Debroy
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
IMEC-verkefnið er til marks um breytinguna frá einpóla eða tvípóla heimi yfir í fjölpóla heim með sambúð og samvinnu fleiri valdasvæða.

Bibek Debroy og Aditya Sinha

Svonefndar efnahagsgáttir (e. economic corridors) geta haft ýmsa kosti í för með sér, þar á meðal aukin viðskipti, erlendar fjárfestingar og bætt lífskjör borgara í þátttökulöndunum. Auk þess geta þær stuðlað að uppbyggingu dreifbýlissvæða, aukið jafnvægi milli landsvæða og eflt félagslega og efnahagslega heildarframþróun á þeim landsvæðum sem þær taka til. Það að setja á stofn slíkar efnahagsgáttir getur einnig leitt til þess að nýjar leiðir vöruflæðis opnist og þar með aukið gagnkvæm efnahagsleg og landpólitísk tengsl milli svæða.

Efnahagsgáttin India-Middle East-Europe Economic Corridor (IMEC) býður upp á að bæta mjög efnahagsleg samskipti Indlands, Mið-Austurlanda og Evrópu. Einkum miðar verkefnið að því að koma á fjölþættu flutninganeti, sem felur í sér að gera sjó- og járnbrautarleiðir að einni heild, auk þess að innleiða nýstárlega innviði svo sem vetnisleiðslur og hátæknilegar tengingar á sviði upplýsingatækni. Önnur mikilvæg hlið á IMEC-verkefninu er að það getur aukið verulega viðskiptatækifæri. Með því að bjóða upp á skilvirkari flutningaleið en Súez-skurðinn er því spáð að IMEC muni stytta vöruflutningatíma um u.þ.b. 40%. Þetta myndi ekki aðeins flýta fyrir viðskiptum milli Indlands, Mið-Austurlanda og Evrópu heldur einnig gera viðskiptin hagkvæmari og skapa umhverfi sem stuðlar að hagvexti og auknum viðskiptum.

IMEC-verkefnið færir fyrra samstarf upp á nýtt stig og kemur á fót efnahagstengslum sem eru til þess fallin að skapa nýtt landslag alþjóðlegra viðskipta. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur haft á orði að IMEC-verkefnið sé „fjárfesting sem veldur straumhvörfum“ og „alvöru stórmál“. Þessi orð undirstrika möguleika verkefnisins til að hafa veruleg áhrif ekki einungis á þau landsvæði sem það snertir beint, heldur einnig alþjóðasamfélagið í heild sinni. Í samkomulagi þátttökuríkjanna um IMEC-verkefnið segir að járnbrautar- og flutningakerfin sem fyrirhuguð eru miði að því að koma á „áreiðanlegu og hagkvæmu neti skipa- og járnbrautarflutninga milli landa“. Gert er ráð fyrir að þessi uppbygging muni hafa víðtæk áhrif á alþjóðlegar aðfangakeðjur og viðskipti. Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, hefur lagt áherslu á að þessi efnahagsgátt geti stytt flutningstíma um 40% og segir að hún sé „fljótasta leiðin milli Indlands, Mið-Austurlanda og Evrópu“ og þar af leiðandi einkar mikilvægur þáttur í að draga úr flutningskostnaði.

Áhrif verkefnisins eru víðtækari en það eitt að auðvelda viðskipti. Gert er ráð fyrir að það muni stuðla að atvinnuuppbyggingu og fjölga störfum á þátttökusvæðunum. Með því að bjóða upp á skilvirkari leið til að flytja hráefni og fullunnar vörur má búast við því að IMEC komi til með að efla atvinnustarfsemi. Væntingar eru um að sú aukna framleiðni sem af þessu hlýst muni skapa fjölmörg atvinnutækifæri, sem muni bæta atvinnuástandið á viðkomandi svæðum. Fylgnin milli bættra samgönguinnviða og hagvaxtar er vel þekkt í þeim fræðum sem byggjast á reynslurannsóknum og má því ætla að áhrif IMEC á atvinnusköpun og atvinnuþróun geti orðið veruleg.

Einnig getur IMEC gegnt veigamiklu hlutverki hvað varðar orkuöryggi og umhverfislega sjálfbærni. Miklar orkuauðlindir Mið-Austurlanda verða aðgengilegri, sem eykur orkuöryggi þeirra þjóða sem að verkefninu koma. Jafnframt er áhersla verkefnisins á flutning hreinna orkugjafa, svo sem vetnisleiðslna, í takt við alþjóðlega viðleitni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þess er vænst að markviss uppbygging á höfnum og öðrum innviðum á vegum IMEC muni laða að erlenda fjárfestingu og styrkja pólitísk og diplómatísk tengsl milli þátttökulandanna. Með því að bjóða upp á valkost við verkefnið „Belti og braut“, sem kínversk stjórnvöld standa að, hefur IMEC burði til að endurmóta og blása nýju lífi í alþjóðaviðskipti og gera þau minna háð hefðbundnum siglingaleiðum. Auk þess miðar IMEC að auknum samskiptum milli fjölbreyttra menningarheima og gerir kleift að efla tengsl milli landsvæða og stuðla að auknum friði. Verkefnið getur þannig haft djúpstæð og víðtæk áhrif.

IMEC-verkefnið er til marks um aukna áherslu Indlands á samskipti við Mið-Austurlönd, einkum þau ríki sem eiga aðild að Samstarfsráði Arabaríkjanna við Persaflóa, sem hefur vaxið ásmegin undir forystu forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi. Þetta samband byggist ekki einungis á olíuviðskiptum og markaðsaðgangi, heldur er um að ræða margþætta samvinnu á sviði öryggismála, menningartengsla og upplýsingaskipta á tæknisviðinu.

IMEC-verkefnið er til marks um breytinguna frá einpóla eða tvípóla heimi yfir í fjölpóla heim með sambúð og samvinnu fleiri valdasvæða. Í þessu samhengi getur IMEC verið mikilvægur hlekkur sem tengir saman þessa póla, sem hver um sig býr yfir fjölbreytilegum efnahagslegum, menningarlegum og pólitískum styrkleikum. Með því að efla efnahagsleg tengsl og gagnkvæmt traust milli Indlands, Mið-Austurlanda og Evrópu stuðlar verkefnið að alþjóðakerfi sem einkennist af meira jafnvægi og býr yfir meiri þrautseigju.

Hversu vel tekst til með IMEC er hins vegar nátengt landpólitískum stöðugleika í Mið-Austurlöndum. Þrátt fyrir ríka menningararfleifð og landfræðilegt mikilvægi hefur sá heimshluti lengi einkennst af pólitískri ólgu og átökum. Að koma á friði í Mið-Austurlöndum varðar ekki aðeins svæðið sjálft, heldur er það nauðsynlegt fyrir alþjóðasamfélagið. Stöðugleiki í Mið-Austurlöndum er ómissandi þáttur í að tryggja öruggar viðskiptaleiðir, áreiðanlegt aðgengi að orkuauðlindum og óhindraða þekkingarmiðlun og för fólks. Slíkur stöðugleiki myndi létta undir með því efnahagslega og tæknilega samstarfi sem IMEC-verkefnið leggur upp með. Friður í Mið-Austurlöndum myndi enn fremur hafa víðtæk áhrif, stuðla að efnahagslegum stöðugleika á alþjóðavísu og opna leiðir til samstarfs að lausnum á alþjóðlegum viðfangsefnum, svo sem í tengslum við loftslagsbreytingar, fátækt og heilbrigðisvá.

Bibek Debroy er formaður og Aditya Sinha er sérlegur embættismaður á rannsóknasviði hjá efnahagsráðgjafarnefnd forsætisráðherra Indlands.