Hallsteinn Sigurðsson myndhöggvari lést 24. janúar síðastliðinn, 78 ára að aldri. Hallsteinn fæddist 1. apríl 1945. Foreldrar hans voru Þóra Eyjólfsdóttir húsmóðir og Sigurður Sveinsson aðalbókari. Hallsteinn ólst upp hjá foreldrum sínum í Fossvoginum í Reykjavík og var yngstur fjögurra systkina

Hallsteinn Sigurðsson myndhöggvari lést 24. janúar síðastliðinn, 78 ára að aldri.

Hallsteinn fæddist 1. apríl 1945. Foreldrar hans voru Þóra Eyjólfsdóttir húsmóðir og Sigurður Sveinsson aðalbókari. Hallsteinn ólst upp hjá foreldrum sínum í Fossvoginum í Reykjavík og var yngstur fjögurra systkina.

Hallsteinn á að baki áratuga myndlistarferil og eftir hann liggur fjöldi verka, einkum þrívíð verk unnin í málma, leir og gifs. Hann hneigðist snemma til sköpunar og þegar í gagnfræðaskóla var hann ákveðinn í að helga myndlistinni starfsævi sína. Hann kynntist ungur verkum föðurbróður síns, Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, og sem unglingur aðstoðaði hann við að stækka verkin í garðinum umhverfis hús Ásmundar við Sigtún. Eftir að hafa kynnst þeirri vinnu varð ekki aftur snúið og mótun varð að ástríðu. Hallsteinn nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1963-1966 en hélt síðan til London þar sem hann lagði stund á höggmyndagerð við Hammersmith College og víðar.

Hallsteinn er einkum þekktur fyrir abstrakt skúlptúra sem líkja má við þrívíðar teikningar úr málmi en einnig steypt verk sem vísa í goðsöguleg minni. Hann hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og eru verk eftir hann víða í opinberum söfnum en einnig í einkaeigu. Þekkt eru listaverk hans í almenningsrými jafnt í Reykjavík sem úti um land. Árið 2013 tók Reykjavíkurborg við veglegri gjöf Hallsteins til Reykvíkinga. Um var að ræða 16 höggmyndir úr áli sem Hallsteinn kom fyrir í landi Gufuness á árunum 1989 til 2012 og standa á hæð austan við gömlu áburðarverksmiðjuna í Gufunesi. Í dag er þar gróinn höggmyndagarður þar sem skúlptúrarnir hafa notið sín og veitt gestum og gangandi ánægju eftir að byggð þéttist í Grafarvogi.

Hallsteinn var alla tíð virkur þátttakandi í félagsstörfum myndlistarmanna, einkum í Myndhöggvarafélaginu í Reykjavík sem hann stofnaði ásamt fleirum árið 1972. Árið 2020 stofnaði Hallsteinn Menningarsjóð Hallsteins Sigurðssonar með aðsetur á heimili listamannsins í Ystaseli í Reykjavík. Þar bjó hann í nær hálfa öld, hafði þar vinnustofu og kom upp höggmyndagarði umhverfis húsið.