Ólína Jóhanna Jónsdóttir fæddist 6. apríl 1933 í Hvallátrum á Breiðafirði. Hún lést á Systraskjóli Stykkishólmi 2. janúar 2024.

Foreldrar Ólínu voru hjónin Jóhanna Sesselja Friðriksdóttir, f. 19.10. 1899, d. 30.6. 1989, og Jón Daníelsson, f. 25.3. 1904, d. 20.8. 1988. Alsystkini Ólínu eru Daníel, f. 1934, d. 2013, giftur Steinunni Bjarnadóttur, f. 1935. María Theódóra, f. 1938, gift Einari Siggeirssyni, f. 1921, d. 2010. Elín Ágústa, f. 1941, d. 1943. Valdimar, f. 1943, d. 2020, giftur Aðalheiði Halldórsdóttur, f. 1946. Hálfsystkini Ólínu sammæðra af fyrra hjónabandi Jóhönnu og Aðalsteins Ólafssonar eru: Drengur, andvana fæddur 1921. Björg Ólafía, f. 1922, d. 2008, gift Jack Savage, látinn. Aðalsteinn Eyjólfur, f. 1923, d. 2014, giftur Önnu Margréti Pálsdóttur, f. 1929, d. 2022. Fósturbróðir Ólínu er Aðalsteinn Valdimarsson, f. 1938, d. 2013.

Ólína giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Hafsteini Guðmundssyni frá Skáleyjum, f. 4. janúar 1935, á sjómannadaginn 1958. Hafsteinn er sonur hjónanna Guðmundar Guðmundssonar, f. 1906, d. 1979, og Júlíönu Sveinsdóttur, f. 1902, d. 1997.

Börn þeirra Ólínu og Hafsteins eru: 1) Drengur fæddur andvana 1958. 2) Hafþór, f. 13. apríl 1959, dætur hans eru Elísa Hafdís, f. 2. maí 1993, og Hallgerður, f. 11. júní 2010. 3) Hrönn, f. 24. júlí 1962, dætur hennar eru Íris, f. 14. júní 1989, í sambúð með Hilmari Kristjánssyni, f. 15. október 1989, og Rán, f. 11. maí 1991. 4) Hanna Júlía, f. 28. september 1969, gift Emil Rafni Jóhannssyni, f. 22. nóvember 1966, sonur hennar Hilmar Þór, f. 30. júní 1998.

Ólína ólst upp í Hvallátrum á Breiðafirði og stundaði nám við farskólann sem fór á milli eyjanna. Um tvítugt fór hún í húsmæðraskólann á Varmalandi þar sem hún stundaði nám einn vetur. Eftir húsmæðraskóla var hún þrjá vetur í Reykjavík þar sem hún gegndi ýmsum störfum. Þau Hafsteinn fluttu svo til Grundarfjarðar þar sem þau eyddu næstu fimm árum þangað til fjölskyldan flutti til Flateyjar árið 1965 og bjó Ólína þar það sem eftir var fyrir utan síðustu árin sem hún dvaldi á dvalarheimilinu í Stykkishólmi.

Hún var húsfreyja mikil og sinnti bæði fólki og dýrum og hennar heimili var alltaf
opið.

Jarðarför Ólínu fer fram frá Flateyjarkirkju í dag, 26. janúar 2024, klukkan 14.

Elsku mamma.

Ég þakka þér fyrir allt.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli á Uppsölum)

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Megi allar góðar vættir gæta þín

Hrönn,

Ólína Jóhanna Jónsdóttir var stór persóna. Hún var ekki hávaxin eða stórgerð en hún fyllti öll rými sem hún kom í. Lína var tengdamóðir mín og amma dóttur minnar. Hún sinnti öllum sínum hlutverkum af mikilli gæsku, elsku og hlýju. Lína var áhugasöm og forvitin og sýndi sínu fólki einstaka natni.

Hún átti sitt umráðasvæði sem var eldhúsið og þegar hún veiktist fannst henni erfitt að geta ekki verið á bak við eldhúsbekkinn til að stjórna öllu. Ekki ber að skilja það svo að hún hafi ekki reynt að stjórna en hún fann að aðrir tóku við. Hrönn, Íris og Hafþór voru farin að skipa henni að setjast og henni þótti það augljóslega miður skemmtilegt. Hún lét svo sem ekki segjast auðveldlega.

Lína var fagurkeri fram í fingurgóma hvort heldur sem var á mat, postulín eða glæsilegar flíkur. Við Hafþór gáfum okkar Hallgerði viðurnefnið ungfrú Breiðafjarðarsól þegar hún fæddist. En amma hennar, Lína, var hin eiginlega Breiðafjarðarsól. Tók á móti öllum með opnum örmum og brosi á vör, bauð í kaffi, spurði fregna, fordómalaus gagnvart fólki og dýrum.

Hún átti það til að draga fram gamla fallega muni, kjóla og skó þegar tækifærið var rétt, gefa þeim sem henni fannst kunna að meta og ég var heppin að fá að þiggja af henni einstaklega fallega hluti sem ég held mikið upp á. Hún var höfðingi heim að sækja og sextán sortir af alls kyns góðgæti þótti henni ekki mikið tiltökumál þegar gesti bar að.

Lína var mikill listamaður þegar kom að prjónaskap, hún prjónaði tískuflíkur á hverjum tíma og notaði innsæið eitt. Flateyjarpeysan var og er fræg flík. Afgangspeysa sem Lína setti saman af einstöku listfengi og á hún engan sinn líka.

Lína hugsaði alltaf vel um fólkið sitt. Hún hringdi í Hallgerði í það minnsta einu sinni á dag á meðan hún hafði heilsu til. Kannaði hvernig hún hefði það, hvað væri nú títt og fékk oftar en ekki skrautlegar lýsingar á skóladegi ungrar stúlku sem sagði ömmu sinn allt að frétta.

Á jólunum hélt frú Ólína í sinn sið sem var einhver sú fegursta elska sem ég hef vitnað. Á jóladagsmorgun útbjó hún bakka fyrir alla og færði sínu fólki í rúmið. Bakki með heitu súkkulaði og öllum smákökusortum sem bakaðar höfðu verið. Hún átti ekki að vera að þvælast þetta upp og niður tröppurnar en gerði það samt. Eins og áður sagði – lét ekki segjast svo auðveldlega.

Þegar ég hugsa til baka og sé frú Ólínu fyrir mér er hún að hengja þvott á snúru í garðinum, malla chilisultu í eldhúsinu, situr í sínum lazyboy með prjón í fanginu eða Hallgerði og er að vandræðast yfir fjarstýringunni. Kaffibolli og Gammel Dansk, vink á bryggjunni.

Elsku Lína, takk fyrir samveruna og ferðalagið.

Lísa Kristjánsdóttir.

Hartnær 50 ára samfylgd okkar Ólínu Jóhönnu Jónsdóttur, Línu í Flatey, er lokið og minningarnar streyma fram.

Vinátta okkar, sem var innsigluð með sautján lítrum af heitu súkkulaði, var alla tíð mjög náin og stóð af sér öll veðrabrigði í Breiðafirði. Ásamt fjölskyldum okkar fögnuðum við saman ótal jólum og áramótum og fjölmörgum öðrum gleðistundum.

Við Lína áttum margt sameiginlegt og urðum aldrei uppiskroppa með umræðuefni hvort sem við hittumst eða töluðum saman í síma og glaðværðin réð ríkjum.

Lína var skemmtileg kona, með afbrigðum gestrisin og fagnaði gestum af hlýju hjarta og veitti af sínu nægtaborði sem aldrei þvarr.

Dvölin í Flatey verður aldrei söm án hennar.

Blessuð sé minning minnar mætu vinkonu.

Guðrún.

Það var haustið 1981 sem ég var ráðin skólastjóri við Grunnskólann í Flatey. Allt var mér framandi, starfið, staðurinn, fólkið og aðstæður. Þegar nær dró skólabyrjun bjó um sig óöryggi og kvíði og mér var næst skapi að hörfa, því ég hafði ekki kjark til að vera alein í þessum nýju aðstæðum heilan vetur. En ég fór og tók flóabátinn Baldur og alveg óvön siglingum. Á leiðinni var þessi óráðna framtíð að yfirbuga mig. Baldur lagði að bryggju í Flatey, það var í október og mér fannst kalt.

Lína beið á bryggjunni til að taka á móti mér. Hún tók þétt um hönd mína og bauð mig velkomna til dvalar og starfa á eyjunni. Með þessu fyrsta handabandi var vinátta okkar Línu innsigluð allar götur síðan. Hún bauð mér að koma að fá mér kaffisopa í Læknishúsi en var auðvitað veisla af bestu gerð. Þar fann ég undir eins að ég var ekki ein og heldur ekki ein í komandi verkefnum. Fjölskyldan öll í Læknishúsi tók mér opnum örmum og hefur gert frá fyrstu kynnum. Sömu hlýju móttökur hafa þau sýnt fjölskyldu minni og vinum, sem hafa farið með mér í heimsóknir til Flateyjar á undanförnum árum.

Eftir dvöl mína í Flatey hef ég svo oft hugsað um örlæti og hjartarými fólksins míns í Læknishúsi. Í heilt ár var ég þarna til heimilis. Ég borðaði allar máltíðir þar í heilt ár og það mátti aldrei minnast á að borga fyrir uppihaldið. Slíkt örlæti og velvild fannst mér og finnst enn einstakt, þar var kærleikur sýndur í verki án þess að orð væru höfð um það.

Lína var eyjastúlka úr Breiðafirðinum, hún var svo sönn og alltaf hún sjálf. Hún var afskaplega gestrisin og veitti vel. Hún var mér trygglynd með eindæmum. Það var einstakt hvað við bundumst sterkum vinaböndum, sem var mælt í gæðum en ekki magni. Í áratugi hringdi Lína í mig á nýársnótt til að óska mér og mínum gleðilegs árs og þakka fyrir árin og vináttuna. Þetta var alltaf fyrsta símtal ársins hjá mér.

Við áttum mjög góða daga saman í Danmörku árið 1987. Þar vorum við gestir vina okkar úr Flatey. Línu fannst allt svo áhugavert, maturinn, mannlífið, nýir staðir og nýtt fólk. Svo var hún bara svo skemmtilegur ferðafélagi.

Eftir erfiðleika í mínu lífi fór ég til Flateyjar í vikudvöl og var í Læknishúsi á útmánuðum 2018. Þar mætti ég hlýjunni og velvildinni sem ég fékk þar alla tíð. Þar sá ég Línu í seinasta skipti úti í Flatey. Þegar kom að brottför minni kom ekki annað til greina hjá henni en að fylgja mér niður að Baldri. Í þessu vetrarveðri og með göngugrindina sína var elsku Lína mín mætt á bryggjuna til að kveðja mig. Það handtak og faðmlag var jafn þétt og kærkomið og fyrir tæpum fjórum áratugum þegar við heilsuðumst í fyrsta sinn og það á sama stað, bryggjunni í Flatey.

Ég hugsa til elsku Línu minnar og samverustunda okkar með þeirri sömu hlýju og hún ávallt sýndi mér og mínu fólki.

Lína er eftirminnileg kona, hún var einstök og yndisleg. Kveð hana með djúpri virðingu og þakka hennar tryggð og vináttu alla tíð.

Fjölskyldu Línu og ástvinum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Anna María

Ögmundsdóttir.

Strjálast tekur nú hópurinn sem ólst upp í inneyjum Flateyjarhrepps um og fyrir miðja sl. öld.

Þegar skólaganga mín hófst á fimmta áratug aldarinnar taldi nemendahópurinn á annan tug. Það var inneyjaskólinn, sem staðsettur var til skiptis í Látrum, Skáleyjum og Svefneyjum.

Ótvíræðir forystumenn hópsins voru Lína í Látrum og Mæja í Skáleyjum. Leikir frímínútnanna voru beinlínis fög, en uppátæki út fyrir þá voru líka til. Seinna kom ábyrgð fullorðinsáranna.

Lína og Hafsteinn munu fyrst hafa stofnað til heimilis í Reykjavík meðan á fullorðinsnámi stóð. Síðan varð heimili þeirra í Grundarfirði og ábyrgðin þar, en þá varð hreyfing til endurreisnar atvinnu í Flatey og þar með byggðar. Í skini þeirra hugsjóna fluttu þau til Flateyjar.

Eitt leiðir af öðru. Þau voru komin til Flateyjar og þó að sá sjávarútvegur sem þarna var stofnað til yrði ekki langlífur, þá voru þau á heimaslóðum. Lína varð sú húsfreyja, sem ábyrgðin hlóðst að og leitað var til þegar nokkurs þurfti með. Henni var það ekki þá metnaðarmál að svo yrði, en ágæti sínu fær enginn sloppið frá.

Þau urðu ábúendur þegar ekki náði festu sá sjávarútvegur sem upphaflega að var stefnt og opinber störf hlaðast gjarna á sama fólkið, þegar fámennið er orðið.

Lína varð póstmeistarinn og sá síðasti. Póstafgreiðslan í vegavinnuskúr var kölluð minnsta pósthús landsins.

Hún var húsmóðir og ekkert „bara“ þar framan við. Nútíminn nefnir gjarna „bændur“ þegar sagt er frá pari í búskap enda skilgreiningin „húsbóndi“ og „húsmóðir“ tvísýnni titlar en áður var. En margir og allur fjöldinn, sem kom að hennar veitingaborði, skörulegum viðtökum og spjalli, held ég hljóti að telja að titillinn „húsmóðir“ hæfi henni og beri henni vitni.

Ábyrg vaskleikamanneskja er fallin níræð, eftir nokkurra mánaða sjúkrahúsvist í lokin.

Fjölskyldu og afkomendum bið ég gæfu undir merki hennar og mótun.

Jóhannes Geir Gíslason.

Lína í Læknishúsi var mikil félagsvera og átti auðvelt með að kynnast fólki og eignast vini. Læknishús var alltaf fullt af fólki og borðin svignuðu undan góðum mat og bakstri. Það var auðvelt að vera með matarást á henni því Lína var afbragðskokkur og alltaf nóg fyrir alla. Hún hafði áhuga á fólki, fylgdist vel með og gat frætt um hvað hefði borið á góma hjá sameiginlegum vinum og kunningjum. Lína starfaði sem póstmeistari í pósthúsinu í Flatey, þar var tekið vel á móti landanum og ferðamönnum. Það var gaman að fylgjast með að allir virtust skilja Línu og hún fólkið þó ekki væri talað sama tungumál. Á hátíðum eins og páskum og jólum var mikil og skemmtileg samvera. Lína var sífellt að og kom miklu í verk, þvotturinn hengdur út á snúru, prjónaðar lopapeysur og saumaðar dúnsængur, allt virtist leika í höndunum á henni. Á sumrin var garðurinn kringum húsið með fallegum blómum eins og brúðarslöri sem á þeim tíma fannst aðeins í garðinum hjá Línu í Flatey. Það var sultað, búin til kæfa og endalaus bakstur hjónabandssæla, lagkaka, ástarpungar, brúnterta, sandkaka, smákökur svo eitthvað sé nefnt. Hún var með sérstaka blöndu fyrir kaffivélina, sem hellti upp á 2 lítra í einu. Lína heimsótti okkur fjölskylduna til Danmerkur þegar við bjuggum þar. Reyndar lenti hún í smá vandræðum á flugvellinum þegar tollverðirnir ætluðu ekki að hleypa henni út úr landi með æðaregg, því þeir héldu að þetta væru fálkaegg en henni fannst bráðfyndið að þeir gætu ekki þekkt um hvaða egg væri að ræða. Það var líka sérstaklega gaman að gefa Línu gjafir, hún kunni vel að meta fallega hluti enda var fína stofan í Læknishúsi með mörgum munum sem smekklega var komið fyrir. Ferðaþjónustan naut góðs af gestrisni Línu og var hún lengi með heimagistingu í Línukoti og Læknishúsi. Gamlárskvöld voru ævintýri þá var glæsimatarboð að vanda í Læknishúsi, farið á brennu og horft á skaupið og spilað fram á morgun. Oft voru vinnumenn á heimilinu hjá þeim hjónum og fjölskyldunni og sterk vinátta myndaðist. Hún átti erfitt með að skilja að allir væru ekki alltaf að, enda vinnusöm með eindæmum. Já hún Lína var eldhress og tók á móti fólki með bros á vör og var aldrei uppiskroppa með umræðuefni. Það segir kannski margt en það var aldrei farin ferð í Flatey án þess að heimsækja Línu. Síðasta spölinn var Lína í Stykkishólmi, fyrst á dvalarheimilinu og síðan á Systraskjóli. Þessi félagslynda kona hafði gaman af heimsóknum allt fram á síðasta dag. Lifandi fólk gefur lífinu gildi og Lína gaf lífinu lit. Það er skrítin tilhugsun að Lína sé farin, hringi ekki oftar til að spjalla eða óska til hamingju með afmælið. Þakka fyrir sterka vináttu sem aldrei bar skugga á. Veit hún verður búin að hella upp á könnuna, klædd í litrík föt með eyrnalokka og tilbúin í spjall og kallar hressilega: „Ertu komin, komdu inn og fáðu þér kaffisopa“. Þangað til koma góðar minningar til með að vera eins og sólargeisli fyrir hjartað. Takk fyrir allt elsku vinkona – þín verður sárt saknað.

Ragnheiður
(Ragga) í Strýtu.