Guðjón Fjeldsted Ólafsson fæddist 26. janúar 1984. Hann lést 26. febrúar 2022.

Foreldrar Guðjóns eru Ólafur Ásgeir Steinþórsson, f. í Bjarneyjum 22. ágúst 1938, og Sigrún Símonardóttir, f. á Grímarsstöðum í Andakíl 12. desember 1939. Bræður Guðjóns eru Steinþór Páll, f. 1970, og Símon, f. 1974.

Útförin fór fram í kyrrþey.

Í dag, 26. janúar 2024, hefði Guðjón Fjelsted Ólafsson bróðir okkar orðið fertugur. Hann lést fyrir aldur fram þann 26. febrúar 2022.

Guðjón fæddist á Akranesi 26. janúar 1984 og ólst upp í Borgarnesi. Guðjón var sterkur námsmaður og mikill íþróttamaður. Fótbolti og sund voru hans aðalgreinar á yngri árum og síðar náði hann góðum árangri í kraftlyftingum. Sem dæmi um hversu góður íþróttamaður Guðjón var þá gat hann tekið sér frí frá æfingum en samt unnið til verðlauna á mótum.

Guðjón var mikið náttúrubarn og átti sterka tengingu við sínar heimaslóðir á Vesturlandi.

Við lok grunnskólagöngu fór Guðjón í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hann nam síðar landfræði við Háskóla Íslands og lauk námi með meistaragráðu með áherslu á fjarkönnun. Hann var framúrskarandi við að tileinka sér tækninýjungar á sínu sviði og sérfróður í landfræðilegum upplýsingakerfum (GIS).

Guðjón starfaði á sumrin fyrir Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Vegagerðina í Borgarnesi. Hann hlaut styrki frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, einnig nýsköpunarstyrk frá sömu samtökum í tengslum við sóknaráætlun landshluta. Þá vann hann að verkefnum fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Guðjón stofnaði fyrirtækið Hvítárós ehf. sem hélt utan um störf hans sem landfræðings.

Við bræður eigum sameiginlegt áhugamál í stangveiði og eigum góðar minningar um alls konar skemmtilegar uppákomur úr veiðiferðunum með Guðjóni. Þá fóru Steinþór og Guðjón oft í göngur, m.a. á Hafnarfjall og Esjuna.

Við minnumst Guðjóns bróður okkar fyrir alla þá góðu hæfileika sem hann bjó yfir.

Steinþór Páll Ólafsson, Símon Ólafsson.