Ragnhildur Alfreðsdóttir Appelros fæddist 27. desember 1942. Hún andaðist 10. desember 2023 í Svíþjóð.

Minningarathöfn fór fram í Örebro 18. janúar 2024 og í Reykjavík nokkru síðar.

Ranka var móðursystir mín og velunnari og mikil uppáhaldsmanneskja í mínu lífi. Ömmur mínar báðar létust árið sem ég fæddist og því gekk Ranka mér að einhverju leyti í ömmustað og móður minni tvítugri í móðurstað, þótt ekki væru nema sjö ár á milli þeirra systra. Nonni frændi aðeins eldri, fæddur 1937. Æskuheimilið var í Barmahlíð 2 þar sem Sigríður amma og Alfreð afi höfðu flutt inn um miðja 20. öldina og gert sér fallegt heimili á miðhæðinni með aukaíbúð í kjallaranum þar sem afkomendurnir bjuggu síðar hver af öðrum: Fyrst Nonni, svo Ranka, síðar við mamma og loks Sigga frænka, dóttir Nonna og Hrafnhildar.

Svo kom sænskur læknanemi við HÍ til sögunnar í lífi Rönku og þegar þau Peter fluttu til Svíþjóðar ásamt dótturinni Hildi tókum við mamma við íbúðinni á Brávallagötu, rétt við Elliheimilið Grund þar sem Alfreð afi hafði starfað sem læknir um langan aldur og gerðist síðar íbúi. Litla fjölskyldan var því að mörgu leyti samheldin og samgangur töluverður. Það var vissulega missir að Rönku og hennar fjölskyldu þegar þau fluttu af landi brott og alltof sjaldan heimsótti ég þau og fullsjaldan fannst manni að þau kæmu upp til Íslands, þótt oft hafi það verið þessi rúm fjörutíu ár, rúman helming lífs síns, sem Ranka bjó þar ytra. En alltaf voru fagnaðarfundir þegar Ranka kom og dagskráin þétt: Hitta okkur fjölskylduna – og sérstaklega afa sem oftast, hitta vinkonur og gamla starfsfélaga, ganga um náttúru landsins með Peter og fara í Vesturbæjarlaugina; helst daglega.

Ranka var grannvaxin og nett, ungleg og fríð, kvik í hreyfingum, brosmild og það var stutt í eldsnöggan hláturinn sem gusaðist upp úr henni og smitaði þegar minnst varði. Frá henni stafaði hjartahlýju og þægilegri og gefandi nærveru sem áreiðanlega fleiri en ég hafa sótt í. Listnjótandi alla tíð, frönskukona og aðdáandi alls sem franskt er. Hún var kennari og hefur eflaust verið vel þokkuð sem slíkur. Sagði mér á sínum tíma að þegar þau Peter létu pússa sig saman færðu nemendurnir henni epli og rós, því nú hafði henni bæst við nafnið Appelros.

Ranka var þessi hlýja og góða eldri móðursystir sem alltaf var gott að leita til, því barngóð var hún og þess naut ég ríkulega og börn mín síðar; man t.d. eftir því að á tímabili kom hún færandi hendi til mín í Austurbæjarskólann með maltflösku og súkkulaðisnúð sem þá var leyfilegt sem sparinesti á föstudögum. En svo var hún líka menningaruppalandi í mínu lífi, því fyrir tíu ára aldurinn var hún búin að fara með mig á mánudagsbíó í Háskólabíói að sjá klassíska útgáfu af Rauðu akurliljunni, sýna mér meistaraverk Jacques Tati í Regnboganum og taka mig með á sýningu Íslenska dansflokksins og Þursaflokksins í Þjóðleikhúsinu sem unnin var upp úr fyrstu plötu Þursanna. Þessir viðburðir eru mér enn í fersku minni og mótuðu mína listrænu taug. Allir ættu að eiga eina Rönku frænku; mín var a.m.k. eintak sem ég hefði ekki viljað vera án; hún var minn haukur í horni og ég og mín börn söknum hennar ákaflega.

Kristinn Pétursson.

Á áttunda áratug síðustu aldar kom saman lítill hópur ungra lækna og fjölskyldna þeirra í Örebro í Svíþjóð, læknarnir að stíga sín fyrstu skref í framhaldsnámi og fjölskyldur þeirra að læra nýja siði og fóta sig í framandi landi. Í dag kveðjum við einn máttarstólpann úr þeim hópi, Ragnhildi Alfreðsdóttur Appelros.

Ragnhildur var á heimavelli í Örebro, gift heimamanninum Peter og talaði sænskuna eins og innfædd ef ekki betur. Hún var glæsileg kona, fáguð og fíngerð, listræn og smekkleg. Þar sem hún þekkti betur til en við hin hafði hún oftar en ekki frumkvæði að skemmtilegum veislum og kynnti okkur nýgræðingana fyrir Midsommar-hátíðahöldum Svíanna og öðrum skemmtilegum siðum þeirra eins og „påskkärringar“ og „Valborgmässofirande“. Ragnhildur var mikil húsmóðir og einstakur gestgjafi og heimboð til þeirra hjóna voru ætíð tilhlökkunarefni. Ávallt voru bornar fram kræsingar af höfðingsskap og einstakri smekkvísi. Það var gaman að samgleðjast Ragnhildi og Peter þegar Hildur litla kom inn í líf þeirra, svo mikill gleðigjafi. Það voru margar ánægjustundir sem við áttum saman, Midsommar-hátíðahöldin eru ekki síst það sem við minnumst með þakklæti í huga.

Stuttu eftir að við fluttumst heim eftir að námi lauk varð til félagsskapurinn Kalle Karlsson. Efnt var til margra daga veisluhalda með ferðalögum, sönghátíðum og miklum matarveislum. Í fyrstu voru þessi mót haldin á nokkurra ára fresti en hin síðari ár þéttar og jafnvel annað hvert ár enda er þeirra beðið með óþreyju í hópnum. Það hefur verið regla að halda mótin til skiptis á Íslandi og í Svíþjóð og það var því talsvert högg þegar síðasta mót var sett hér á landi að Ragnhildur veiktist daginn fyrir setningu þess og varð frá að hverfa. Þessi veikindi hennar reyndust svo alvarleg að komið er að kveðjustund nú næstum tveimur árum síðar.

Það má með sanni segja að Ragnhildur hafi verið límið sem hélt þessum hópi saman og mótin sem hún skipulagði ásamt Peter, Hleði Bjarnasyni og Moniku í Svíþjóð hafa verið unaðsstundir, ekki síst þegar þau Peter buðu okkur til sín í Mölle, þar sem þau voru búin að eignast sína sumarparadís.

Við vinirnir minnumst frábærrar konu. Ragnhildi prýddu allir þeir kostir sem eina konu geta prýtt. Trygglyndi hennar við vini sína var einstakt. Í því sambandi má nefna öll handskrifuðu bréfin sem hún sendi okkur með fréttum af sér og sínum í Örebro, jafnvel löngu eftir tilkomu tölvutækninnar. Við þökkum samfylgdina, gleðistundirnar, trygglyndið og vináttuna. Hugur okkar er hjá Peter, Hildi, Ulrik og systkinum hennar og fjölskyldum þeirra. Megi hún hvíla í friði.

Ragnheiður Ásta
Magnúsdóttir,
Konráð Lúðvíksson, Guðrún Sigurjónsdóttir, Jóhannes Gunnarsson.