Hildur Árnadóttir hefur alla tíð haft mikinn áhuga á arkitektúr og hönnun.
Hildur Árnadóttir hefur alla tíð haft mikinn áhuga á arkitektúr og hönnun.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hildur veit fátt skemmtilegra en að nýta sköpunarkraft sinn, en samhliða náminu framleiðir hún eigin keramiklínu undir nafninu h.loft og rekur arkitekta- og innanhússhönnunarstúdíóið Béton Studio ásamt vinkonu sinni, Stellu Birgisdóttur innanhússhönnuði

Hildur veit fátt skemmtilegra en að nýta sköpunarkraft sinn, en samhliða náminu framleiðir hún eigin keramiklínu undir nafninu h.loft og rekur arkitekta- og innanhússhönnunarstúdíóið Béton Studio ásamt vinkonu sinni, Stellu Birgisdóttur innanhússhönnuði.

Aðspurð segist Hildur alla tíð hafa haft mikinn áhuga á arkitektúr og hönnun almennt og því hafi hún alltaf vitað hvert hún stefndi.

„Ég var mjög ung komin með sterkar skoðanir og vildi fá að vera með í öllum ákvörðunum og framkvæmdum sem foreldrar mínir fóru í á heimilinu. Þegar ég var sex ára hótaði ég því að flytja að heiman þegar mamma valdi granítborðplötu inn á baðherbergið heima sem ég var ekki nógu ánægð með,“ rifjar Hildur upp og hlær.

„Ég hef mjög gaman af einstökum hlutum“

Hildur lýsir stílnum sínum sem stílhreinum og innihaldsríkum og bendir á að rými og hlutir geti verið fallegir en á sama tíma alveg innihaldslausir og karakterlausir. „Það er stundum gert grín að því hvað ég nota orðið „innihaldsríkt“ mikið, en mér finnst skipta ótrúlega miklu máli að rými og hlutir séu innihaldsríkir,“ útskýrir hún.

„Ég hef mjög gaman af einstökum hlutum sem þú sérð ekki á hverju einasta heimili. Ég versla mjög mikið „second hand“ og finnst ég þannig ná fram ákveðnum karakter og miklu innihaldi með því að blanda saman nýju og gömlu. Ég skoða mjög mikið „vintage“ húsgagnabúðir, bæði hér heima og erlendis, en vel mjög vel hvað ég kaupi og þar af leiðandi er ég frekar að kaupa fáa en vandaða og vel valda hluti.

Það skemmtilegasta sem ég geri er að fara á „second hand“ markaði og búðir í útlöndum og finna þar gullmola. Ég hef keypt ansi stóra hluti á slíkum mörkuðum sem komast ekki í ferðatösku og hef því þurft að senda þá heim í pósti,“ bætir hún við.

Áhuginn kviknaði aftur í heimsfaraldrinum

Áhugi á keramiki hefur mallað innra með Hildi í mörg ár en sem barn fór hún á nokkur keramik- og myndlistanámskeið í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Síðan tók við tímabil þar sem hún snerti leirinn ekki í mörg ár og það var ekki fyrr en árið 2020 sem áhuginn kviknaði aftur.

„Ég hef alltaf haft ótrúlega mikla þörf fyrir að skapa og búa eitthvað til og það nærir mig mjög mikið,“ segir Hildur.

„Rétt áður en ég útskrifaðist með BA-gráðu í arkitektúr fórum við nokkur í bekknum á leirkvöld í Listaháskólanum sem stendur nemendum til boða. Við náðum bara að fara nokkrum sinnum því stuttu seinna kom kórónuveirufaraldurinn og meðfylgjandi takmarkanir og svo útskrifaðist ég,“ segir Hildur.

Þrátt fyrir að leirkvöldin hafi ekki orðið mörg varð Hildur strax algjörlega heilluð af leirnum. „Ég ákvað að prófa að kaupa mér leir heim, aðallega til þess að leika mér og næra mig í kórónuveirutakmörkununum. Þetta vatt svo einhvern veginn mjög hratt upp á sig en einn af fyrstu hlutunum sem ég gerði var skál sem ég setti síðan á Instagram. Í kjölfarið sprakk í rauninni allt og síðan þá hef ég ekki haft undan við að framleiða skálar,“ útskýrir hún.

Töfrar fram skálar á vinnustofu heima hjá sér

Í dag hefur Hildur komið sér upp vinnustofu með notalegri aðstöðu á heimili sínu þar sem hún töfrar fram keramikskálar í tugatali. „Ég eignaðist fljótlega minn eigin leirbrennsluofn sem gerir mér kleift að fullvinna vörurnar mínar á vinnustofunni. Ég hef síðan farið á fleiri keramiknámskeið til þess að sækja mér meiri þekkingu,“ segir hún.

Aðspurð segir Hildur framleiðsluferlið taka nokkra daga. „Fyrst móta ég skálina, en ég handgeri skálarnar svo hver skál er einstök og engar tvær skálar eins,“ segir hún, en það sem heillar Hildi mest við leirinn er einmitt hversu auðmótanlegur hann getur verið en um leið krefjandi að vinna með.

„Síðan þarf leirinn að fá að þorna í nokkra sólarhringa áður en hann fer í fyrri brennslu sem tekur rúman sólarhring. Þegar skálarnar hafa kólnað glerja ég þær og brenni svo aftur sem tekur annan sólarhring,“ útskýrir hún.

„Eftir seinni brennsluna eru þær alveg tilbúnar og það er það skemmtilegasta sem ég veit að opna ofninn og sjá þær. Maður veit í rauninni aldrei hvernig þær koma út og það er alltaf jafn spennandi,“ bætir hún við.

Nýtir leirinn í arkitektúrnáminu

Hildur segist fá innblástur fyrir keramikið úr öllum áttum, þar á meðal úr náttúrunni. „Ég kalla skálarnar mínar skeljar sem er bein vísun í fíngerða brún skeljarinnar og náttúrulegar sveigjur og form hennar. Ég horfi líka mjög mikið á Youtube og sæki mikinn innblástur þangað. Mér finnst ótrúlega gaman að horfa á Open Door-myndböndin frá Architectural Digest og önnur innlit hjá fólki,“ segir hún.

Spurð hvort henni finnist arkitektúrinn og keramikið tengjast á einhvern hátt svarar Hildur játandi. „Hvort tveggja felur í sér mikla sköpun og hönnun. Ég hef náð að tvinna leirinn nokkuð mikið inn í námið og hef meðal annars notað hann mikið í módelgerð sem hefur nýst ótrúlega vel. Leirinn hefur það fram yfir mörg efni að það er hægt að ná svo skemmtilegum formum og kúrvum fram sem er erfiðara með önnur efni,“ útskýrir hún.

Heimilis- og fatatíska helst oft í hendur

Hildur spáir því að fólk muni fylgja innsæinu meira árið 2024 þegar kemur að arkitektúr og hönnun. „Ég held að þessi svaka mínímalíska og „beige“ tíska eins og á heimilinu hennar Kim Kardashian muni detta svolítið út í ár. Ég tek það samt fram að mér finnst heimilið hennar mjög fallegt og einstakt en ég held að það séu nýir og öðruvísi straumar að koma inn,“ segir hún.

„Stál- og járnáferð verður mjög mikið inn á næstunni. Stál hefur verið að koma sterkt inn í innréttingum og borðplötum undanfarið og ég held að við munum sjá stál á fleiri stöðum eins og í húsgögnum og öðrum húsmunum,“ segir Hildur.

„Það er mjög áhugavert að spegla tískustrauma annars vegar í hönnun fyrir heimilið og hins vegar í fatahönnun, en þetta helst oft mjög mikið í hendur. Stál hefur til að mynda verið að koma mjög sterkt inn í tískuheiminn að undanförnu,“ bætir hún við.

„Held að fólk muni almennt þora meira“

Hildur spáir því líka að litir verði meira áberandi ásamt mynstruðu efni og „second-hand“ munum með sál. „Ég held að fólk muni almennt þora meira. Mér finnst mikilvægt að fólk falli ekki fyrir „trendum“ sem eru inn núna en verða dottin út eftir nokkra mánuði, nema að það sjái fyrir sér að fíla það áfram eftir að það er ekki lengur mest „trendí“. Þegar kemur að efnisvali og húsgögnum er mjög mikilvægt að fylgja hjartanu frekar en „trendum“, sérstaklega þegar kemur að gólfefnum, innréttingum og stærri dýrari mublum – einhverju sem þú ert ekki að fara að skipta út auðveldlega,“ útskýrir hún.

Spurð hvort hún sé með einhver markmið fyrir árið 2024 segist Hildur ætla að vera meira í núinu og jarðtengja sig oftar. „Ég byrjaði að hugleiða í fyrra sem mér finnst alveg dásamlegt og það er eitthvað sem ég ætla að gera meira af árið 2024. Ég er að taka þátt í hugleiðsluáskorun í appi sem heitir Insight Timer og er búin að hugleiða á hverjum degi frá áramótum,“ segir hún.

Höf.: Irja Gröndal |