Sigrún Halldórsdóttir fæddist 24. október 1933. Hún lést 15. janúar 2024.

Sigrún var jarðsungin 24. janúar 2024.

Elsku amma okkar. Við þökkum fyrir tímann sem við áttum saman. Við eigum dásamlegar minningar frá heimsóknum okkar í Kristnes til þín og afa. Að vakna í fríinu okkar við útvarpið í gangi og þig að stússast í eldhúsinu var yndislegt og eftirminnilegt. Það var alltaf góður heitur matur í hádeginu og okkur þótti sérstaklega vænt um grjónagrautinn á laugardögum. Þá kom öll fjölskyldan til þín og átti góðar samverustundir. Þú fylltir húsið af háværum og smitandi hlátri. Takk fyrir samveruna, blíðuna, hláturinn og svo margt, margt fleira. Við munum alltaf elska þig.

Tinna Mjöll og Alexandra, Danmörku.

Í dag kveðjum við þig í hinsta sinn, elsku amma mín. Líf okkar allra sem áttum þig að verður aldrei eins. Brosið þitt, hláturinn þinn sem greip alla og þessi gleði sem einkenndi þig á allan hátt. Mikið sem ég mun sakna þess en á móti veit ég að í hvert sinn sem mér verður hugsað til þín mun ég brosa, því þannig varst þú, alltaf brosandi og glöð.

Ég á endalaust af minningum frá Kristnesi. Til ykkar afa var alltaf svo gaman að koma. Þú að dekra við okkur og afi í sófanum að stríða okkur eins og honum einum var lagið. Eftir að afi Óttar kvaddi okkur og þú varst ein og ég orðinn eldri og kominn með bílpróf reyndi ég að taka mér eins oft rúnt í sveitina til þín og ég gat. Þar sátum við lengi yfir mörgum kaffibollum og öllu góðgætinu sem þú áttir alltaf nóg af og þú settir alltaf allt sem þú áttir á borðið. Að sitja við eldhúsborð í langan tíma að drekka kaffi með ömmu sinni hljómar kannski ómerkilegt en fyrir mér eru þetta merkilegustu stundirnar sem við áttum og mér svo dýrmætar í dag. Að heyra allar sögurnar þínar frá þínu lífi og hvernig þú gerðir hitt og þetta hefur alltaf verið mér mikill lærdómur og ég mun alltaf búa að. Þú varst líka mjög áhugasöm um allt mitt og hvað ég væri að gera, hvort sem það var vinna, nám eða fótbolti. Þér fannst ótrúlegt hvernig ég kæmist yfir allt sem ég væri að gera og ég fann alltaf hvað þú varst stolt af mér.

Ég get ekki sleppt því að minnast á samband þitt við pabba, Rósberg son þinn, en ykkar á milli var einstakt samband sem ég tók vel eftir. Mikil ást, vinátta og væntumþykja. Ég veit hversu góð móðir þú varst honum í gegnum allt hans líf og ykkar samband er fyrir mér fullkomið samband móður og sonar og nákvæmlega eins og ég vil hafa samband mitt við mömmu mína. Missir elsku pabba er mikill en við munum passa upp á hann fyrir þig.

Ég er svo þakklátur fyrir að börnin okkar Vöku, Embla Dröfn og Orri Snær, hafi fengið að kynnast langömmu Lillu. Embla Dröfn hefur oft nefnt við mig hvað þú varst alltaf glöð og mér finnst yndislegt að hún muni líka eftir þér þannig.

Það er erfitt að hugsa til þess að nú sért þú farin frá okkur en ég veit að hinum megin verða fagnaðarfundir þegar afi Óttar tekur á móti þér og þið hittist á ný.

Takk fyrir allt, elsku besta amma Lilla. Ég mun sakna þín en allar dýrmætu minningarnar verða alltaf með mér.

Þinn

Kristinn Þór (Krissi).

Það var mikið tilhlökkunarefni og sérstaklega skemmtileg kvöld, kvöldin sem var fundur í pítsuklúbbnum. Eins og nafnið gefur til kynna gengu fundirnir einfaldlega út á það að meðlimirnir hittust og borðuðu pítsu og að sjálfsögðu var spjallað og mikið hlegið.

Þrjár frænkur komu frá Akureyri til þeirrar fjórðu í Kristnesi sem beið þeirra alltaf með bros á vör, heilsaði hressilega, „sælinú“ og svo hlátur; „hva, eigum við að borða þetta allt?“ og svo kom meiri hlátur og bakföll.

Það var alltaf jafn yndislegt að hitta Lillu, það var alltaf stutt í brosið og hláturinn og hún hló með öllum líkamanum þannig að það var ekki hægt annað en að hlæja með. Hún átti samleið með öllum, sama á hvaða aldri þeir voru, en til að mynda var Lilla 53 árum eldri en yngsti meðlimur pítsuklúbbsins.

Lilla var dýrmætur vinur og við munum sakna hennar sárt og samverunnar með henni.

Elsku Lilla, í næsta hittingi klúbbsins munum við leggja á borð fyrir þig og skála fyrir þér og öllum góðu stundunum sem við áttum saman.

Elsku Rósberg, Dísa, Hrafnborg, Brynjar, Hildur og fjölskyldur, við sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Rósa, Dóra og Erla.

„Sæli nú!“ segir hún hressilega þegar hún tekur á móti okkur í dyrunum. Og svo knús. Síðan erum við drifin í kaffi. Borðið svignar undan kökum og tertum, kexi og sultum og nammi. Við sitjum og spjöllum lengi. Það eru sagðir brandarar og skemmtisögur og Lilla tekur bakföll af hlátri sem ómar um húsið og hrífur okkur með. Það er alltaf stutt í hláturinn hjá Lillu og enginn hlær eins innilega og hún.

Þegar við ferðbúumst segir hún: „Heyrðu mig aðeins“ og gaukar að gjöf svo lítið beri á.

Lilla var yndisleg frænka, enginn betri eða skemmtilegri, gjafmild með hjarta úr gulli. Við erum þakklát fyrir að hafa átt hana að, þakklát fyrir allar yndislegu og dýrmætu stundirnar sem við áttum með henni og ógleymanlegan hláturinn hennar.

Elsku Rósberg og Dísa, Hrafnborg, Brynjar og Hildur og fjölskyldur, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Rósa, Brynjólfur,
Kamilla og Dóra.